Flugvirkjafélag Íslands (hér eftir FVFÍ) er stéttarfélag sem var stofnað árið 1947 í þeim tilgangi að halda utan um réttindi íslenskra flugvirkja, félagið var sett á laggirnar á fundi þeirra Íslendinga sem útskrifast höfðu úr flugvirkjanámi síðan fyrstu menn lögðu í slíkt nám árið 1928.
Félagið hefur stækkað töluvert frá árinu 1947 og voru félagsmenn þegar mest var um 540 í byrjun árs 2019 en eðli starfsins samkvæmt, er töluverð sveifla á fjölda félagsmanna FVFÍ í samræmi við starfsframboð á Íslandi, þó eru margir flugvirkjar sem starfa erlendis og greiða áfram til FVFÍ sem verktakar eða launþegar.
Sagan, stofnendur, eigendur og stjórnendur
Stjórn félagsins er samansett af félagsmönnum sem kosnir eru ár hvert af félagsmönnum á aðalfundi félagsins, enda félagsmenn allir eigendur félagsins. Stjórnin samanstendur af formanni, varaformanni, gjaldkera, ritara, meðstjórnanda og tveimur varamönnum í stjórn sem mæta fyrir aðalstjórnarmeðlimi í forföllum ásamt því að aðstoða við stjórnarstörf eftir þörfum.
Stjórn FVFÍ 2020-2021 er sem hér segir:
Formaður Guðmundur Úlfar Jónsson, varaformaður Atli Jónsson, gjaldkeri Magnús Ingi Finnbogason, ritari Jóhann Baldur Finnbogason, meðstjórnandi Daði Örn Heimisson.
Varamenn í stjórn eru: Helgi Rúnar Þorsteinsson og Aron Þór Sigurðsson.
Vinnulag og framleiðsluferli
Félagið hefur alla tíð verið stjórnað og rekið af félagsmönnum fyrir félagsmenn og taldi lengst af einn fastan starfsmann til viðbótar við stjórn sem hefur séð um skrifstofu félagsins ásamt þeim verkefnum sem tengjast daglegum rekstri félagsins, á síðastliðnum árum var bætt við öðrum starfsmanni sem sér um málefni sem teygja sig inn á lagalegt svið jafnt sem að aðstoða við daglegan rekstur.
Auk þess hefur félagið skipað hin ýmsu ráð til að sjá um sjóði félagsins, fræðslumál stéttarinnar, orlofshúsarekstur, trúnaðarmenn og fleira tengt málefnum félagsmanna. Ekki var óheyrt að stjórnarmeðlimir sætu einnig í slíkum ráðum og að sömu menn sinntu mörgum skyldum vegna fámennis. Í dag er þróunin þó slík að flugvirkjum á Íslandi hefur fjölgað umtalsvert og því hefur umfang starfseminnar margfaldast hjá stjórn, jafnt sem öðrum deildum félagsins.
Rúm þreföldun flugvirkja starfandi á Íslandi síðastliðin tíu ár hefur gert það að verkum að félagið er í stöðugri þróun bæði innanbúðar jafnt sem í tengslum og samskiptum/samvinnu við vinnustaði og viðsemjendur sína en Flugvirkjafélagið gerir kjarasamninga við alla vinnustaði flugvirkja hérlendis.
Skipulag og sérstaða
FVFÍ er enn í dag eina stéttarfélagið hérlendis sem heldur utan um réttindi flugvirkja, einnig er það eina stéttarfélagið sem kemur að gerð kjarasamninga fyrir hönd flugvirkja á Íslenskum markaði.
Sökum þess hve félagið er fámennt sinna stjórnarmeðlimir FVFÍ eða hafa aðkomu að á einhvern hátt, öllum verkefnum félagsins ólíkt öðrum stærri félögum.
Framtíðarsýn
Félagið sér fram á erfið verkefni á næstu árum sökum gjaldþrota og þess atvinnuleysis sem árið 2020 hefur skapað í stéttinni. Grundvöllur var fyrr á árinu fyrir samtryggingu stærsta vinnustaðar landsins og félagsmanna sem þar störfuðu, með gerð kjarasamnings með gildistíma til næstu fimm ára. Félagið hefur þó í höndunum erfitt verkefni, sem er að tryggja flugvirkjum á ný öryggi á vinnumarkaði og eðlilega umgjörð um störf félagsmanna.
Aðsetur
Skrifstofa Flugvirkjafélags Íslands er á efstu hæð í Borgartúni 22 en þar hefur félagið haft aðsetur til lengri tíma, einnig er þar aðsetur fyrir stjórn til fundarsetu og veislusalur sem nýttur er til félagsstarfa jafnt sem í almennri útleigu.
Stjórn sinnir þó störfum sínum víða og þar má helst nefna vinnustaði flugvirkja þar sem málefni eru jafnan leyst með vinnuveitendum.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Líkt og hefur komið fram áður eru í heildina sjö sem skipa stjórn og tveir starfsmenn á skrifstofum. Önnur störf líkt og vinna lögfræðings í mögulegum dómsmálum er úthýst til þriðja aðila.
Velta og hagnaður
Félagið sá mikla jákvæða þróun á innkomu árin 2010-2019 sökum umtalsverðar fjölgunar í stéttinni, á móti kemur að fjölgun félagsmanna þýðir einnig töluverða aukningu á útgjöldum en var þróunin þó til þess að hægt var að auka fríðindi félagsmanna á ýmsum sviðum. Þróunin árið 2019-2021 var neikvæð miðað við fyrra tímabil sökum þeirra áfalla sem vinnustaðir og þar af leiðandi stéttin sjálf hefur orðið fyrir.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd