Laxá Fiskafóður

2022

Fóðurverksmiðjan Laxá hf. framleiðir og selur fóður til fiskeldis á Íslandi með áherslu á landeldismarkað. Verksmiðjan er við Krossanesi á Akureyri þar sem framleiðsla fer fram.

Sagan
Fóðurverksmiðjan Laxá hf. var stofnuð í júní 1991 og var megin tilgangur félagsins að framleiða og selja hágæða fiskeldisfóður. Rekstur fóðurverksmiðjunnar á Krossanesi var yfirtekinn úr þrotabúi Ístess, en verksmiðjan var reist árið 1985 í samstarfi við Skretting í Noregi.

Eignaraðild og stjórn
Fóðurverksmiðjan Laxá hf. er dótturfélag Síldarvinnslunnar hf. á Neskaupstað sem jafnframt er stærsti hluthafinn með 67% eignarhlut. Aðrir hluthafar eru 14 talsins og er Akureyrarbær þeirra stærstur með 21% eignarhlut. Í stjórn Fóðurverksmiðjunnar Laxár hf. sitja, Jón Kjartan Jónsson sem stjórnarformaður, Gunnþór Ingvason fyrir hönd SVN og Dan Jens Brynjarsson fyrir hönd Akureyrarbæjar. Framkvæmdastjóri er Gunnar Örn Kristjánsson sjávarútvegsfræðingur og verksmiðjustjóri er Ómar Valgarðsson vélvirki. Almennir starfsmenn í verksmiðju eru 7 talsins og vinna m.a. við keyrslu vélbúnaðar, afgreiðslu, vörulager, innmötun, pökkun og gæðaeftirlit.

Framleiðsla
Framleiðsla árið 2020 var 10.700 tonn og nam veltan 2,3 milljörðum. Mest er framleitt af fóðri fyrir bleikju og lax, en auk þess er framleitt fóður fyrir regnbogasilung og flatfisk.
Framleiddar eru fóðurpillur frá 1,8 mm til 12 mm, en það er fyrir eldisfisk frá 10 gr. og að sláturstærð í +5 kg. Auk þess að framleiða fóður þá er endurselt innflutt fóður frá Biomar í Danmörku og Skretting í Noregi, aðallega startfóður fyrir seiði og ýmiskonar sérfóður.

Aðföng.
Uppistaða hráefna er innlent fiskimjöl (32%) og lýsi (24%), en önnur grunnhráefni eru hveiti (10%), vítamín og litarefni fyrir laxfiska. Til að lækka fóðurkostnað eru einnig notuð ódýrari hráefni sem prótein- og fitugjafar, m.a. soyamjöl, maísmjöl, hveitigluten, repjumjöl og repjuolía. Jurtahráefnin eru keypt frá Evrópu, S-Ameríku og Asíu, en hráefni frá fjarlægari heimsálfum eru flutt í gegnum Rotterdam.

Starfsemin
Framleiðslumagn hefur í gegnum árin verið mjög sveiflukennt og í takt við fiskeldi á Íslandi.
Eftir að hafa aukið framleiðslumagn úr 2.000 tonnum árið 1999 upp í 10.000 tonn árið 2007, þá kom niðursveifla í fiskeldinu sem varð til þess að markaður innanlands fór niður fyrir 5.000 tonn árið 2009. Á undanförnum áratug hefur verið uppsveifla í fiskeldi á Íslandi og samhliða því hefur framleiðslumagn aukist og verið stöðugt yfir 10.000 tonnum undanfarin ár. Áætlanir eru um áframhaldandi vöxt í innlendu fiskeldi og stefnir í að á næstu árum verði afkastageta verksmiðjunnar fullnýtt með 20.000 tonna framleiðslu. Verksmiðja Laxár er byggð á styrkum grunni frá Skretting og er vélbúnaður verksmiðju og fagleg þekking í fóðurframleiðslu að stærstum hluta kominn frá Noregi. Fóðurfræðingur er Dr. Jón Árnason sem er fyrrum starfsmaður hjá Skretting og starfar hann fyrir Laxá samkvæmt þjónustusamningi þess efnis við MATÍS.

Framtíðin
Á undanförnum árum hefur fiskeldið innanlands aukist mikið og hefur Laxá fylgt þeirri þróun með áherslu á þjónustu við eldisfyrirtæki sem stunda landeldi, hvort sem er á seiðum eða matfiski. Vélbúnaður hefur verið endurbættur mikið og er verksmiðjan nú tæknilega vel búin til að fylgja eftir áframhaldandi framþróun í eldisgreininni. Einnig hefur orðið þróun í afhendingu á fóðri og fer núna 75% af framleiðslu beint í síló við verksmiðju þaðan sem fóður er afhent með fóðurtank beint á síló hjá eldisstöð. Afhending fóðurs með tankbíl er hluti af sjálfbærnistefnu fyrirtækisins og sparar bæði trébretti og plastumbúðir, auk þess að minnka kolefnisspor afurðarinnar.
Vefsíða: www.laxa.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd