Fönn ehf

2022

Fönn ehf. sem er alhliða þvottahús og efnalaug, hefur verið starfrækt frá árinu 1960 og átti því 60 ára starfsafmæli á árinu 2020. Fyrirtækið er nú stærsta einkarekna þvottahús landsins og hefur yfir að ráða fullkomnum, sjálfvirkum og afkastamiklum tækjabúnaði ásamt reynslumiklu starfsfólki.

Sagan
Slagorð fyrirtækisins „Fannhvítt frá Fönn“ má rekja til upphafsins árið 1960 en þá stofnaði Guðmundur Arason lítið skyrtuþvottahús í kjallara að Fjólugötu 19b með eina þvottavél og þrjá starfsmenn. Starfsemin gekk vel og óx hratt sem kallaði á aukinn tækabúnað og stærra húsnæði. Árið 1967 flutti Fönn á Langholtsveg 113 og síðan í Skeifuna 11 árið 1982. Örlagadagur í sögu Fannar var 6. júlí árið 2014 þegar húsnæðið í Skeifunni brann til kaldra kola og nánast allt sem í því var. Starfsemin hélt þó áfram með góðri aðstoð og þrotlausri vinnu og Fönn flutti að Kletthálsi 13 í Árbæ þar sem fyrirtækið starfar í dag.

Starfsemin
Viðskiptavinir Fannar eru fjölbreyttur hópur og enginn viðskiptavinur er of lítill eða of stór. Þar á meðal eru einstaklingar og fyrirtæki, hótel, veitingahús, húsfélög og stofnanir ýmis konar sem geta fengið allan sinn þvott þveginn eða hreinsaðan hjá Fönn, hvort sem um er að ræða lín, handklæði, skyrtur, vinnugalla, jakkaföt, kjóla, sængur, teppi og gluggatjöld. Athafnasvæði Fannar er að mestu á höfuðborgarsvæðinu en nær einnig til Selfoss og Akraness. Auk þessa er Fönn með leiguþjónustu sem felur í sér að leigja út lín, þ.m.t. rúmfatnað og handklæði til hótela og gististaða, einnig borðdúka og sérvéttur til einstaklinga og veitingastaða. Fönn leigir einnig út gólfmottur til fyrirtækja og húsfélaga sem skipt er út eftir þörfum viðskiptavinarins. Motturnar henta vel á svæðum þar sem margir ganga um og gæta þarf hreinlætis.
Húsnæðið og tækjabúnaður Fannar er sérhannaður fyrir starfsemina með það fyrir augum að stytta vinnslutíma og auka sveigjanleika og afköst. Starfsmenn Fannar eru um 40 og hafa margir unnið hjá fyrirtækinu í meira en 15 ár.

Eigendur og sérstaða
Núverandi eigandi og framkvæmdastjóri Fannar er Ari Guðmundsson sem árið 2004 keypti fyrirtækið af föður sínum. Sérstaða fyrirtækisins felst í sveigjanleikanum, því að geta þjónað jafnt stórum sem smáum viðskiptavinum. Lögð er áhersla á að viðskiptavinir geti treyst því að fá þvottinn sinn hreinan á umsömdum tíma og að gæðin uppfylli væntingar þeirra. Árið 2020 komst Fönn í hóp „Framúrskarandi fyrirtækja“ hjá Creditinfo og áfram er stefnt á að uppfylla einkunnarorð Fannar sem eru: GÆÐI – TRAUST – SVEIGJANLEIKI
www.thvottur.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd