Forsætisráðuneyti

2022

Í forsætisráðuneytinu er fengist við verkefni sem varða undirstöður íslenskrar stjórn-skipunar, bætta stjórnsýslu og samræmingu verklags, m.a. hvað varðar gæði lagasetningar. Þá vinnur ráðuneytið að því að treysta stöðu íslensku þjóðarinnar í víðum skilningi og er gjarnan í fyrirsvari fyrir Ísland gagnvart umheiminum. Af öðrum verkefnum má nefna málefni ríkisráðs og þjóðaröryggisráðs og heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Skilvirkni og vönduð vinnubrögð eru lykilatriði í forsætisráðuneytinu og skipta miklu til að ráðuneytið geti sinnt forystuhlutverki sínu og skapað breiða samstöðu um forgangsmál í samfélaginu. Hér verður fjallað nánar um tvö slík forgangsmál.

Jafnrétti
Jafnréttismál heyra undir forsætisráðuneytið. Sérstök ráðherranefnd um jafnréttismál er starfandi en hlutverk hennar er að samhæfa störf ráðherra og ríkisstjórnar á sviði jafnréttismála. Ríkisstjórnin leggur ríka áherslu á jafnréttismál og í stefnuyfirlýsingu hennar kemur fram það markmið að Ísland verði í fremstu röð hvað varðar málefni hinsegin fólks. Ísland mælist nú í efsta sæti á kynjajafnréttislista Alþjóðaefnahagsráðsins, (e; World Economic Forum) tólfta árið í röð og hækkaði á árinu 2020 um fjögur sæti á milli ára á Regnbogakortinu sem mælir stöðu og réttindi hinsegin fólks í Evrópu. Undanfarin ár hafa stór skref verið stigin að því er varðar jafnréttismál. Tvö frumvörp forsætisráðherra til nýrra jafnréttislaga voru samþykkt á Alþingi 17. desember 2020. Annars vegar frumvarp til laga um jafna stöðu og jafnan rétt kynjanna og hins vegar frumvarp til laga um stjórnsýslu jafnréttismála. Frumvörp forsætisráðherra, sem tryggja eiga rétt fólks með kynhlutlausa skráningu og transfólks auk barna sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni voru samþykkt á Alþingi í lok desember 2020. Frumvörpin, sem voru þrjú talsins, koma til vegna bráðabirgðaákvæðis í lögum um kynrænt sjálfræði sem samþykkt voru á Alþingi sumarið 2019. Í fyrsta lagi var um að ræða frumvarp um breytt aldursviðmið til að breyta opinberri skráningu kyns samhliða nafni. Þar var lagt til að miða við 15 ára aldur í stað 18 ára. Í öðru lagi var frumvarp sem tryggir rétt barna, sem fæðast með ódæmigerð kyneinkenni, gegn ónauðsynlegum skurðaðgerðum og þannig er staðið vörð um líkamlega friðhelgi þeirra. Í þriðja lagi frumvarp til laga um breytingar á ýmsum lögum til að tryggja lagaleg réttindi fólks með kynhlutlausa skráningu og trans fólks. Í fyrsta skiptið í íslenskum rétti er kveðið á um bann við fjölþættri mismunun en slíkt ákvæði veitir meðal annarra fötluðum konum og konum af erlendum uppruna aukna vernd. Þá er í fyrsta skiptið gert ráð fyrir þremur hópum fólks með mismunandi kynskráningu, þ.e. konum, körlum og fólki með hlutlausa skráningu kyns í þjóðskrá.

Jafnlaunavottun
Lög um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu ná til fyrirtækja og stofnana með 25 starfsmenn eða fleiri að jafnaði á ársgrundvelli. Markmið með jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu er að tryggja sömu laun fyrir sömu eða jafnverðmæt störf og vinna þannig gegn kynbundnum launamun. Þann 31. desember 2020 höfðu 275 fyrirtæki og stofnanir öðlast jafnlaunavottun. Hjá þessum aðilum starfa um 60% þess starfsfólks sem ákvæði laga um jafnlaunavottun og jafnlaunastaðfestingu ná til.

Hlutverk gervigreindar
Gervigreind er hluti af samfélagsbreytingum sem oft eru kenndar við fjórðu iðnbyltinguna. Til þess að skilgreina hugtakið á einfaldan máta má segja að gervigreind sé leið okkar til að fá vélar til að vinna mannanna verk. Sé mannleg greind skilgreind sem hæfileikinn til að öðlast og nota þekkingu og hæfni þá er gervigreind sá hæfileiki að búa til tölvukerfi sem getur öðlast og notað þekkingu og hæfni. Þetta á sérstaklega við um verkefni sem aðeins maðurinn gat gert áður en gervigreind kom til sögunnar.
Stefnumörkun um gervigreind miðar að því að hámarka samfélagslegan og efnahagslegan ábata og lágmarka kostnað og áhættu. Markmið stefnu Íslands um gervigreind sem lögð var fyrir Alþingi þann 6. maí 2021 er að stuðla að því að Ísland hafi sterkan og sameiginlegan siðferðislegan grundvöll fyrir þróun og nýtingu gervigreindar, byggðan á góðri þekkingu á tækninni og þeim öryggisáskorunum sem henni fylgja. 
Til þess að svo megi verða þurfa eftirfarandi skilyrði að vera uppfyllt: 
Íbúar landsins þurfa að vera í stakk búnir til að athafna sig í umhverfi þar sem
gervigreind er nýtt
Grunnstoðir lýðræðis þurfa að vera styrkar
Mannréttindi þurfa ávallt að vera höfð að leiðarljósi við þróun, innleiðingu og notkun gervigreindar
Huga þarf vel að tæknilegum áskorunum gervigreindar, ekki síst er varða öryggi
Grunnstoðir stefnu Íslands um gervigreind eru þrjár:
Í fyrsta lagi þarf gervigreind að vera í allra þágu: Settar eru fram tillögur að þeim gildum sem Ísland ætti að byggja þróun, innleiðingu og notkun tækni gervigreindar á og lögð til umgjörð um hvernig megi meta siðferðisleg álitamál sem óhjákvæmilega munu koma upp.
Í öðru lagi þarf atvinnulíf að vera samkeppnishæft: Fjallað er um mögulegar aðgerðir og áherslur hins opinbera sem stutt geta við stafræn umskipti atvinnulífsins með áherslu á stafræna færni, uppbyggingu þekkingar, tækniyfirfærslu og hvatakerfi.
Í þriðja lagi þarf menntun að vera í takt við tímann: Bent er á þau atriði sem mikilvægust eru til að tryggja að menntakerfi styðji við uppbyggilega og siðferðislega þróun við innleiðingu og notkun gervigreindar á komandi árum og áratugum. Áhersla er á læsi og gagnrýna hugsun, uppbyggingu sérhæfingar, fjölgun tæknimenntaðra og möguleika í notkun gervigreindar til kennslu. Tækifærin sem notkun gervigreindar skapar þurfa að standa öllum til boða og segja má að Ísland sé í sérstaklega góðri stöðu til að nýta þau. Gervigreind byggist á hugviti og þekkingu. Fyrirtæki og nýsköpun sem byggjast á slíkri tækni geta oftar en ekki starfað og veitt þjónustu þvert á landamæri og heimsálfur. Þetta gæti skapað ný og áður óséð tækifæri hér á landi.  

Stjórnendur

Stjórnarráðshúsinu við Lækjartorg
101 Reykjavík
5458400
Þjónustuflokkar
Upplýsingar
Vefur Fyrirtækjaskrá Staðsetning á korti

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd