Foss Distillery er vínframleiðslufyrirtæki. Stofnendur voru Jakob Bjarnason, Gunnar Karl Gíslason, Ólafur Örn Ólafsson og Elsa María Jakobsdóttir. Hugmyndin var að framleiða hágæðavöru (drykk) sem átti að skírskota til náttúru Íslands. Litið var til þess að nota íslenskt birki sem kjarnann í vörunni. Birkisafinn er notaður til að ná fram rétta bragðinu og dregur heitið á vörunum nöfn sín af tveimur trjátegundum, þ.e. björk og birki. Meginframleiðsluvörurnar eru því líkjörinn Björk og snafsinn Birkir.
Sagan
Hugmyndin fæddist þegar Gunnar Karl Gíslason kom frá Danmörku til Íslands með konseptið „Nýnorræna eldhúsið“ sem byggðist á norrænni matarhefð. Það var enn eitt stefið í veitingahúsamenningu nútímans í samhljómi með ítalska og franska eldhúsinu. Hann hafði meðal annars notað íslenskt birki í matargerð á veitingastaðnum Dill. Ólafur Örn fór að gera tilraunir með að blanda birki í vodka sem virtist falla í kramið. Notkun á birki til matar og víngerðar er ævagagömul hugmynd og má finna um það ýmsar fornar heimildir. Birki hefur sömuleiðis verið notað í seyði eða te og sannað þykir að efnasambönd í því séu bæði bólgueyðandi og vatnslosandi svo það hefur verið þekkt sem náttúrulyf í gegnum aldirnar.
Hugsunin á bak við hina nýnorrænu matargerðarlist byggir á því að nota hráefni úr nærumhverfinu. Jakob Bjarnason, framkvæmdastjóri greinir frá heimildum um skilgreiningu á því hvað nærumhverfi er, en þar segir bóndi nokkur að fari menn lengra en 500 metra frá bæjarveggnum þá sé það orðið of langt til að teljast nærumhverfi. Téðar heimildir munu vera frá 1860. Svo notkun á birki eru engin nýmæli, að sögn Jakobs. Jakob er mjólkurfræðingur að mennt og hafði áður rekið sultugerð með góðum árangri. Hann kemur því með þekkingu á því hvað þarf til að koma upp verksmiðju, ásamt kunnáttu í efnafræði.
Safinn er pressaður úr birkinu og þannig vinnst úr honum birkisýróp sem nýtur mjög mikilla vinsælda og er tilvalið að nota sem bragðefni í ýmsar vörur. Þannig er Björk sætur líkjör en Birkir hressandi snafs. Til bragðauka og til að skapa aðlaðandi útlit er grannri birkigrein úr Hallormsstaðarskógi komið fyrir í flöskunni. Einkennismerkið er birkilauf, sem um aldaraðir hefur verið þurrkað og notað í heilsubætandi te. Áhrifin af bragðinu eiga kalla fram upplifun af því að standa undir slútandi birkitrjám í íslenkri náttúru og finna ilminn af laufinu á lygnum fallegum sumardegi í uppstyttu eftir rigningarskúr.
Aðsetur
Starfsemin byrjaði upphaflega í Borgarnesi árið 2011 þar sem fyrstu flöskurnar voru átappaðar en síðan kom fyritækið sér upp eigin verksmiðju í Mosfellsbæ 2015. Þaðan var svo flutt í rúmgott húsnæði við Vesturvör í Kópavogi þar sem starfsemin fer fram í dag.
Þróunarverkefni
Foss Distillery er þáttakandi í stóru þróunarverkefni á Sauðárkróki þar sem verið er að gera tilraunir með að breyta mjólkursykri í alkóhól og nýta mysu í því augnamiði. Mjólkuriðnaðurinn fékk mjólkurfræðinginn Jakob til að vinna að þessu verkefni en hann var í þrjú ár að þróa aðferð sem dugði. Þannig að nú er verið að reisa verksmiðju á Sauðárkróki í samvinnu Kaupfélags Skagfirðinga og Mjólkursamsölunnar. Þar verður búið til alkóhól úr þeim sykri sem fæst úr mysunni sem annars yrði að hella niður. Til framtíðar verður þetta til heilla fyrir umhverfið, að sögn.
Framleiðsla
Foss Distillery horfði fram á afar minnkandi halla þegar Covid brast á í byrjun 2020 því 95% af framleiðslu og sölu vörunnar var til erlendra ferðamanna. Einkum hafa Bandaríkjamenn öðrum fremur sóst eftir vörunni af einhverjum ástæðum. En af einskærri útsjónarsemi og hugkvæmni tókst að snúa dæminu við þegar fyrirtækið hóf framleiðslu á handspritti með ilmkjarnaolíum undir heitinu: „númer eitt“ . Frá því að framleiða og selja um 30 – 50 þúsund lítra af Björk og Birki á ársgrundvelli stóð fyrirtækið frammi fyrir því að loka fyrir framleiðsluna en stundum er sókn besta vörnin og eftirspurnin sem skapaðist fyrir handsprittið bjargaði því sem bjargað varð ásamt öðru.
Foss Distillery er auk þess framleiðandi fyrir önnur vörumerki svo sem Gin og Vodka. Fyrirtækið er í afar farsælu samstarfi við Globus sem selur vörur þess og dreifir. Rekstrarformið hjá Foss Distillery er í grunninn fjölskyldufyrirtæki og Jakob stendur sjálfur vaktina við annan mann, en svo er hóað í mannskap þegar á þarf að halda til aðstoðar við pökkun og önnur viðvik.
Það hillir loks undir betri tíð og Foss Distillery er með ýmis járn í eldinum í sókn sinni til framtíðar. Auk handsprittsins framleiðir fyrirtækið rúðuvökva fyrir Skeljung og hreinsiefni fyrir Rekstrarvörur svo nokkuð sé nefnt. Útflutningur er sömuleiðis hluti af starfseminni og
þá er einkum horft til Bandaríkjanna.
Framtíðarsýn
Það er unnið þessa daga með nýjum dreifingaraðilum og vonir standa til að sækja á markaði þar í landi. Önnur framtíðarhugmynd er að nýta það alkóhól sem vinnst úr mysunni síðar meir til vínframleiðslu og draga þannig úr innflutningi á því eins og nú er.
Þannig hefur Foss Distellery vaxið frá því að vera lítið sprotafyrirtæki upp í að vera afkastamikið framleiðslufyrirtæki sem hefur haslað sér völl á markaði hérlendis sem erlendis. Þrátt fyrir ýmsar dýfur og brotsjói á skömmum tíma þá eru bjartir tímar framundan hjá Jakobi og félögum þar sem mörg áhugaverð og spennandi verkefni eru í þróun.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd