Fræðslusetrið Starfsmennt

2022

Fræðslusetrið Starfsmennt var stofnað árið 2001 í kjölfar kjarasamninga sem gerðir voru á opinbera markaðinum. Þá sömdu fjármálaráðherra fyrir hönd ríkissjóðs og 19 stéttar-félög innan BSRB um stofnun samstarfsvettvangs um starfstengt nám, starfsþróun og ráðgjöf á sviði mannauðseflingar. Stofnun Starfsmenntar var afsprengi þeirrar auknu áherslu sem farið var að leggja á endur- og símenntun starfsmanna ríkisins. Fræðslusetrið byggir á þeirri hugmyndafræði að það sé æskilegt að þjálfa, viðhalda og auka þekkingu starfsfólks til að auka gæði starfseminnar og efla jákvæðan starfsanda á stofnunum.
Í upphafi náði þjónusta Starfsmenntar aðeins til ríkisstarfsmanna en með árunum hefur þeim fjölgað sem eiga aðild að Fræðslusetrinu ýmist með samningum um bein framlög eða í gegnum samstarfssamninga. Þjónustan nær því einnig til opinberra starfsmanna sem eiga aðild að bæjarstarfsmannafélögum og aðildarfélögum Starfsgreinasambandsins og starfsfólks sjálfseignarstofnana með kjarasamning við Sameyki.

Starfsemin
Hlutverk Starfsmenntar er að efla símenntun opinberra starfsmanna með það fyrir augum að þeir verði færari til að takast á við sífellt fjölbreyttari verkefni og jafnframt að auka möguleika stofnana á að þróa starfssvið sitt þannig að það samræmist þeim kröfum sem gerðar eru til þeirra á hverjum tíma. Fræðslusetrið er þjónustuaðili fræðslumála fyrir félagsmenn þeirra fjölmörgu aðildarfélaga sem að setrinu standa. Það metur þörf fyrir fræðslu hjá einstökum stofnunum, stofnanahópum og starfsgreinum, kemur á starfstengdum námskeiðum, leggur fram nýjar hugmyndir að starfsþróunarverkefnum og veitir stofnunum ráðgjöf á sviði mannauðseflingar og fræðslu. Starfsmennt á í samstarfi við stóran hóp fræðsluaðila og kennarar eru margir enda ávallt leitað til þeirra sem teljast sérfræðingar í viðfangsefninu hverju sinni. Fjöldi árlegra námsframboða og þátttakenda hjá Starfsmennt er breytilegur en árið 2021 var boðið upp á 425 námskeið, námsleiðir eða aðra viðburði tengda starfsþróun og fjöldi skráninga nam 6.035.
Starfsmennt miðar að því að vera leiðandi starfsmenntar- og ráðgjafamiðstöð og eftir-sóknarverður samstarfsaðili í viðleitni opinberra stofnana til að efla fagmennsku og færni í starfi og í að skapa uppbyggilegt og hvetjandi vinnuumhverfi. Fræðslusetrið er öflugur samstarfsaðili einstaklinga og stofnana í verkefnum á sviði stefnumiðaðrar starfsþróunar.

Stjórn
Stjórn Starfsmenntar er skipuð fulltrúum eigenda, tveimur fulltrúum stéttarfélaga og tveimur fulltrúum vinnuveitenda og jafnmörgum varafulltrúum. Fyrsti framkvæmdastjóri var Þórarinn Eyfjörð og gegndi hann því starfi þar til hann tók við starfi framkvæmdastjóra SFR stéttarfélags í almannaþjónustu árið 2006, SFR varð síðar að Sameyki. Hulda Anna Arnljótsdóttir tók þá við og stýrði starfinu í rúm tíu ár eða til ársins 2017 þegar Guðfinna Harðardóttir var ráðin framkvæmdastjóri.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2025 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd