Framhaldsskólinn á Laugum

2022

Árið 1925 tók Laugaskóli til starfa. Fyrsti skólastjóri Laugaskóla var Arnór Sigurjónsson. Saga Laugaskóla spannar yfir stóran hluta 20. aldar og hefur skólinn að miklu leyti mótað samfélag Þingeyinga. Árið 1988 var Framhaldsskólinn á Laugum formlega stofnaður, með sameiningu Héraðsskólans og Húsmæðraskóla Þingeyinga. Fyrsti skólastjóri hans var Steinþór Þráinsson. Skólinn býður upp á fjórar brautir til stúdentsprófs auk undirbúningsnáms á almennri braut.

Skólastarfið
Laugaskóli er lítill heimavistarskóli í sveit sem sóttur er af nemendum alls staðar að af landinu. Skóladagurinn er samfelldur frá klukkan 09:10-15:30 og stundataflan er fljótandi og breytileg frá viku til viku. Skipulag námsins eru annars vegar hefðbundnir kennslutímar (um þriðjungur námsins) og hins vegar vinnustofur þar sem nemendur vinna á vinnustöðvum sínum undir handleiðslu kennara að því námi sem þeir vilja leggja áherslu á hverju sinni. Vinnustofukerfið kallar á aukið sjálfstæði og aukna ábyrgð nemenda á námi sínu Á Vopnafirði er starfrækt framhaldsskóladeild þar sem nemendur geta stundað nám í heimbyggð en dvelja eina viku í mánuði á Laugum. Nemendafélag skólans er mjög virkt og ýmsar uppákomur haldnar, til dæmis Tónkvíslin, sem er stærsta söngkeppni framhaldsskóla sem er haldin á Norðurlandi. Auk þess taka nemendur meðal annars þátt í Morfís og Gettu betur sem og leiklistarstarfi á vegum Ungmennafélagsins Eflingar.
Skólinn er starfræktur í sjö stórum húsum. Aðalskólahúsnæðið er Gamli skóli, hjarta skólans en þar má m.a. finna skrifstofur, vinnustöðvar nemenda og kennara, mötuneyti, bókasafn og þvottahús. Fagtímar eru kenndir í Álfasteini og Dvergasteini og gamla íþróttahúsið, Þróttó, nýtist fyrir fyrirlestra, fundi, tónleika o.þ.h. Heimavistir skólans eru í Tröllasteini, Álfasteini og Draugasteini (Fjalli) og skólinn á sitt eigið íþróttahús.

Starfsfólk
Sigurbjörn Árni Arngrímsson tók við 2015 sem skólameistari Laugaskóla. Hallur B. Reynisson er áfangastjóri og Þórunn Sigtryggsdóttir er fjármálastjóri. Í Laugaskóla starfa í heildina 29 manns, auk ofangreindra eru starfandi 11 kennarar, brautarstjóri almennrar brautar, verkefnastjóri Vopnafjarðardeildar, náms- og starfsráðgjafi, ritari, kerfisstjóri, húsvörður, ræstitæknar, húsbændur, bryti, eldhússtarfsfólk og þvottastjóri.

Framtíðarsýn
Undanfarin ár hefur verið unnið að breytingum á innra starfi skólans, s.s. aukinni áherslu á einstaklingsmiðað nám, símat og rafrænt kennsluumhverfi og -hætti. Skólinn hefur lagt mikið í markaðssetningu og hefur aðsókn nemenda aukist verulega. Stefnt er að því að hverju sinni stundi rúmlega 100 nemendur nám við skólann og að um 80 nemendur búi á heimavistum hans.

2012

Framhaldsskólinn á Laugum var stofnaður árið 1988 en samfellt skólahald hefur verið á staðnum allt frá 1925. Það ár hóf göngu sína Alþýðuskóli Þingeyinga sem stofnaður var að frumkvæði Sambands þingeyskra ungmennafélaga. Markmið þess skóla tók mið af norrænu lýðskólunum. Fyrsti skólastjóri og forystumaður að stofnun Alþýðuskólans var Arnór Sigurjónsson frá Litlulaugum. Laugaskóli, eins og skólinn er oftast nefndur, starfaði síðar sem héraðsskóli allt fram að stofnun framhaldsskólans. Lengst gegndi starfi skólastjóra héraðsskólans Sigurður Kristjánsson frá Brautarhóli. Árið 2005 kom út Saga Laugaskóla 1925–1988 eftir Steinþór Þráinsson. Þangað getur áhugafólk um skólahald á Laugum sótt frekari upplýsingar.

Framhaldsskólinn á Laugum er ríkisstofnun og rekin samkvæmt fjárlögum hvers árs. Við skólann er heimavist með mötuneyti og íþróttahús, auk þess sem nemendur hafa aðgang að nýrri sundlaug, íþróttaaðstöðu utan húss og kvikmyndahúsi. Þá starfrækja nemendur öflugt félagslíf. Nemendur skólans koma alls staðar að af landinu og er fjöldi þeirra að jafnaði um 110 talsins. Árið 2008 voru ársverk við stofnunina 25,6 og starfsmenn 35. Á sumrin er starfrækt hótel í húsum skólans.

Við skólann eru starfræktar fjórar námsbrautir, félagsfræðibraut og náttúrufræðibraut til stúdentsprófs, starfsnám í íþróttafræði og íþróttagreinum og almenn námsbraut. Síðastliðin ár hefur starfsfólk unnið að þróunarverkefni við skólann en það miðar að því að breyta öllu námsumhverfi og gera það sveigjanlegra og einstaklingsmiðaðra en áður var.

Skólameistari Framhaldsskólans á Laugum er Valgerður Gunnarsdóttir íslenskufræðingur.

Framhaldsskólinn á Laugum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd