Framsóknarflokkurinn

2022

Upphaf
Framsóknarflokkurinn var stofnaður þann 16. desember 1916 á Alþingi. Í nóvember það sama ár komu átta þingmenn saman á Seyðisfirði á leið til Reykjavíkur á þing. Þeir komu sér saman um að stofna þingflokk sem hlaut nafnið Framsóknarflokkurinn. Fyrsti ráðherra Framsóknarflokksins var Sigurður Jónsson sem sat sem atvinnumálaráðherra í þriggja ráðherra ríkisstjórn með Heimastjórnarflokki og Sjálfstæðisflokknum eldri frá 1917 til 1920. Fyrsti formaður Framsóknarflokksins var Ólafur Briem.
Fyrsta flokksþing Framsóknarmanna var haldið á Þingvöllum árið 1919. Fram að 1930 starfaði flokkurinn eingöngu sem þingflokkur og voru þingmenn þá einu félagar flokksins. Eftir flokksþingið 1931 komst hins vegar það skipulag á starfsemi flokksins sem hefur haldist í meginatriðum síðan, að flokkurinn er byggður upp af sjálfstæðum Framsóknarfélögum um land allt. Framsóknarfélögin eru nú um 90 talsins. Samband ungra Framsóknarmanna var svo stofnað árið 1938, Landssamband Framsóknarkvenna árið 1981 og Samband eldri Framsóknarmanna 2013.

Saga
Stéttaflokkakerfið sem myndaðist á öðrum og þriðja áratug aldarinnar var stutt skýrum búsetuandstæðum. Framsóknarflokkurinn var fyrst og fremst flokkur bænda og dreifbýlisfólks og bauð ekki fram í kaupstöðum fyrr en undir lok þriðja áratugarins. Siðar varð búsetugrundvöllur flokkanna líkt og stéttagrundvöllurinn mun blandaðri en Framsóknarflokkurinn hefur samt ætíð síðan lagt áherslu á atvinnu- og byggðamál og verið tengdur dreifbýlinu sterkum böndum. Framsóknarflokkurinn var frá upphafi byggður á hugsjón samvinnustefnunnar og var því nokkurs konar arftaki samvinnufélaganna og ungmennafélaganna, sem eftir aldamótin beittu sér fyrir því að efla samtakamátt íslenskrar alþýðu og glæða trú hennar á þjóðernisleg verðmæti. Þessi andi ríkti sem endranær í Framsóknarflokknum þegar heimskreppan mikla skall á Íslandi í byrjun fjórða áratugarins. Þá sat ríkisstjórn Framsóknarflokksins eins undir forsæti Tryggva Þórhallssonar sem með stefnufestu lagði grunn því velferðarsamfélagi sem byggt var upp á Íslandi á 20. öld. Framsóknarmenn lögðu ofurkapp á að byggja upp innviði samfélagsins. Lengd vega margfaldaðist á fáum árum og brýr sameinuðu landshluta sem höfðu verið aðskildir frá landnámi. Hafnarmannvirki voru bætt, vitar byggðir til að vísa sjómönnum leið og Landhelgisgæslan var efld til að verja sjávarauðlindina. Sérstakt átak var gert í að byggja upp atvinnutæki og bátar smíðaðir um allt land. Verksmiðjur risu og innlend framleiðsla varð fjölbreytilegri og betri en nokkru sinni. Til að auka atvinnu var lagt í byggingaframkvæmdir og á þessum árum risu mörg af glæsilegustu húsum landsins. En umfram allt lögðu Framsóknarmenn þó grunn að framtíðinni með áherslu á menntun, enda hefur góð menntun Íslendinga verið grunnþáttur í stefnu flokksins frá upphafi og fram til dagsins í dag. Héraðsskólar voru reistir víða um land auk grunnskóla, þeirra á meðal best búni grunnskóli Norðurlanda á þeim tíma, Austurbæjarskólinn í Reykjavík. Heilbrigðismál nutu líka forgangs í stefnu flokksins eins og þau hafa gert alla tíð síðan. Landsspítalinn tók m.a. til starfa eftir mikið söfnunarátak kvenfélaga og sjúkrahús voru reist á landsbyggðinni. Lög um verkamannabústaði voru samþykkt og hugað var að menningu landsins, m.a. með byggingu þjóðleikhúss. Náttúran og sagan gleymdust ekki heldur, því Þingvellir voru verndaðir og gerðir að þjóðgarði og til að efla lýðræðisumræðu og fræða þjóðina var Ríkisútvarpið stofnað. Allt þetta gerði ríkisstjórn Framsóknarflokksins á fimm árum og alla tíð síðan hefur þessi kraftur, þor og dugnaður einkennt framsóknarstefnuna. Og þjóðin hefur vissulega notið þessa krafts.

Stefna
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi. Samkvæmt, grundvallarstefnuskrá flokksins, sem var samþykkt á 26. flokksþingi Framsóknarmanna árið 2001, hafa Framsóknarmenn eftirfarandi málefni að leiðarljósi:
I. Þjóðfélagsgerð
Við viljum áfram byggja upp þjóðfélag á grunngildum lýðræðis, persónufrelsis, jafnræðis og samfélagslegrar ábyrgðar.
II. Mannréttindi
Við berjumst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni. Við höfnum hvers konar mismunun sem gerir greinarmun á fólki, t.d. eftir kynþætti, kynferði, tungu, trú, þjóðerni, kynhneigð, búsetu eða stjórnmálaskoðunum. Við munum ávallt verja skoðana- og tjáningarfrelsi, trúfrelsi og friðhelgi einkalífs.
III. Jafnræði þegnanna
Við setjum manngildi ofar auðgildi og viljum að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag.
IV. Mannauður
Við viljum efla mannauð með því að sérhver einstaklingur fái örvun og tækifæri til að þroskast og vaxa í leik og starfi. Við stefnum að samfélagi umburðarlyndis og víðsýni svo margbreytileiki þjóðlífs og einstaklinga fái notið sín.
V. Stjórnarfar
Við viljum að þjóðin fari með æðsta ákvörðunarvald og handhafar valdsins stjórni aðeins í umboði hennar. Við vinnum ötullega að réttlátu stjórnarfari, opnum stjórnarháttum og valddreifingu.
VI. Hagkerfi
Við viljum byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls.
VII. Alþjóðasamfélagið
Við höfum ríkum skyldum að gegna varðandi samvinnu við aðrar þjóðir um lausn sameiginlegra verkefna. Við viljum að þátttaka okkar í alþjóðlegum samskiptum eigi að byggjast á viðurkenningu á rétti þjóða til sjálfstæðis og sjálfsákvörðunar.
VIII. Náttúrugæði
Við viljum skynsamlega og sjálfbæra nýtingu á gæðum jarðar sem skaði ekki hagsmuni komandi kynslóða. Við teljum að allar innlendar náttúruauðlindir skuli óskorað lúta íslenskri stjórn.
IX. Búsetuskilyrði
Við teljum það til grundvallarréttinda að fólki verði gert kleift að velja sér búsetu þar sem það kýs. Greiðar samgöngur, alhliða fjarskipti, fjölbreytt atvinnutækifæri, fjölþætt framboð menntunar, menningar og heilbrigðisþjónustu eru þættir sem jafna búsetuskilyrði.
X. Stjórnmálin
Við byggjum á frjálslyndri hugmyndafræði og teljum því farsælast að ná fram niðurstöðu með samvinnu ólíkra afla og hagsmuna sem byggð er á hófsemi og heiðarleika.

Auk grundvallarstefnuskrár flokksins álykta flokksþing Framsóknarmanna ítarlegar um einstaka málaflokka en flokksþingin eru að jafnaði haldin á tveggja ára fresti. Stefna Framsóknarflokksins, þ.m.t. grundvallarstefnuskrá, ályktanir flokksþings og kosningastefna á hverjum tíma er ávallt aðgengileg á vef flokksins www.framsokn.is.
Grundvöllur framsóknarstefnunnar er því, nú sem í upphafi, óbilandi trú á getu og framfarir íslensku þjóðarinnar, sóknarfæri hennar og mikilvægi þess að efla með Íslendingum þann uppbyggingar- og framfaraanda sem þarf til að nýta tækifærin og auka lífsgæði allra. Því auðlindir og mannauður og tækifæri Íslands eru slík að það er engin ástæða til að nokkur maður búi hér við skort.

2012

Framsóknarflokkurinn var stofnaður þann 16. desember 1916 á Alþingi. Í nóvember það sama ár komu átta þingmenn saman á Seyðisfirði á leið til Reykjavíkur á þing og komu sér saman um að stofna þingflokk sem hlaut nafnið Framsóknarflokkurinn. Fyrsti formaður Framsóknarflokksins var Ólafur Briem.
Fram að 1930 starfaði flokkurinn eingöngu sem þingflokkur og voru þingmenn þá einu félagar flokksins. Eftir flokksþingið 1931 komst hins vegar það skipulag á starfsemi flokksins sem hefur haldist í meginatriðum síðan, að flokkurinn er byggður upp af sjálfstæðum Framsóknarfélögum um land allt. Framsóknarfélögin eru nú um 90 talsins. Samband ungra framsóknarmanna var svo stofnað árið 1938 og Landssamband framsóknarkvenna árið 1981.

Ljósmyndari: Rut Rúnars

Saga
Stéttaflokkakerfið sem myndaðist á öðrum og þriðja áratug aldarinnar var stutt skýrum búsetuandstæðum. Framsóknarflokkurinn var fyrst og fremst flokkur bænda og dreifbýlisfólks og bauð ekki einu sinni fram í kaupstöðum fyrr en undir lok þriðja áratugarins. Síðar varð búsetugrundvöllur flokkanna líkt og stéttagrundvöllurinn mun blandaðri en Framsóknarflokkurinn hefur samt ætíð síðan lagt áherslu á atvinnu- og byggðamál og verið tengdur dreifbýlinu sterkum böndum.
Framsóknarflokkurinn var frá upphafi byggður á hugsjón samvinnustefnunnar og var því nokkurs konar arftaki samvinnufélaganna og ungmennafélaganna, sem eftir aldamótin beittu sér fyrir því að efla samtakamátt íslenskrar alþýðu og glæða trú hennar á þjóðleg verðmæti.
Þessi andi ríkti sem endranær í Framsóknarflokknum þegar heimskreppan mikla skall á Íslandi í byrjun fjórða áratugarins. Þá sat ríkisstjórn Framsóknarflokksins eins undir forsæti Tryggva Þórhallssonar sem með stefnufestu lagði grunn því velferðarsamfélagi sem byggt var upp á Íslandi á 20.öld.
Árið 2011 varð Framsóknarflokkurinn 95 ára og af þessum 95 árum hafði hann verið 60 ár í ríkisstjórn. Margir þekktustu, áhrifamestu og umdeildustu stjórnmálamenn 20. aldarinnar á Íslandi, eins og Jónas Jónsson frá Hriflu (1885-1968), Hermann Jónasson (1896-1976), Eysteinn Jónsson (1906-1993), Ólafur Jóhannesson (1913-1984) og Steingrímur Hermannsson (1928-2010), komu úr röðum formanna Framsóknarflokksins.

Stefna
Framsóknarflokkurinn er frjálslyndur félagshyggjuflokkur sem vinnur að stöðugum umbótum á samfélaginu og lausn sameiginlegra viðfangsefna þjóðfélagsins á grunni samvinnu og jafnaðar. Hann stendur vörð um stjórnarfarslegt, efnahagslegt og menningarlegt sjálfstæði Íslendinga, byggt á lýðræði, þingræði og réttaröryggi. Framsóknarstefnan setur manninn og velferð hans í öndvegi.
Grundvallarstefnuskrá flokksins setur í öndvegi lýðræði, persónufrelsi, jafnræði og samfélagslega ábyrgð. Flokkurinn berst fyrir mannréttindum, virðingu fyrir einstaklingnum og fjölskyldunni og hafnar hvers konar mismunun. Flokkurinn leggur áherslu á að setja manngildi ofar auðgildi og að hver og einn hafi sama rétt til menntunar, þroska og grundvallarlífskjara óháð uppruna, heilsu og efnahag. Flokkurinn vill byggja efnahagslíf þjóðarinnar á markaðshagkerfi einkarekstrar og samvinnurekstrar þannig að framtak einstaklinga og samtaka þeirra njóti sín til fulls. Auk grundvallarstefnuskrár flokksins álykta flokksþing framsóknarmanna ítarlegar um einstaka málaflokka en flokksþingin eru að jafnaði haldin á tveggja ára fresti. Stefna Framsóknarflokksins, þ.m.t. grundvallarstefnuskrá, ályktanir flokksþings og kosningastefna á hverjum tíma er ávallt aðgengileg á vef flokksins www.framsokn.is.

Endurnýjun
Eftir efnahagshrunið 2008 heyrðust háværar kröfur um að íslenskir stjórnmálaflokkar endurskoðuðu stefnu sína, skipulag og vinnuaðferðir og endurnýjuðu sig til að vinna á ný traust almennings. Framsóknarflokkurinn brást við þessu ákalli með skýrum hætti, bæði með kosningu nýrrar forystu og með gagngeri og lýðræðislegri endurskoðun á skipulagi, uppbyggingu og skipulagi flokksins. Árin 2009-2011 varð því mikil endurnýjun í forystusveit, þingflokki og sveitarstjórnarliði flokksins auk þess sem lög flokksins, reglur og skipulag flokksstarfsins var endurskoðað í þeim tilgangi að gera starfið aðgengilegra, opnara og lýðræðislegra.
Á fjölmennu flokksþingi árið 2009 gáfu framsóknarmenn öðrum stjórnmálaflokkum tóninn varðandi endurnýjun. Kosið var til forystu í flokknum ungt fólk sem ekki hafði áður verið í slíkum áhrifastöðum innan stjórnmálakerfisins. Þessi endurnýjun náði hámarki þegar Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (f.1975) var kosinn formaður flokksins 18. janúar 2009, þá aðeins tveim vikum eftir að hann gekk í flokkinn.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Framsóknarflokksins.
Ljósmynd: Arnþór Birkisson

Sigmundur Davíð hefur lagt áherslu á að ef markmiðið um réttlát lífsgæði fyrir alla Íslendinga eigi að nást þurfi Framsóknarstefnan, með frjálslyndi, jöfnuð og samvinnustefnu að leiðarljósi, að leiða nýtingu auðlinda og tækifæra Íslands til framtíðar á umbrotatímum. Undir formennsku Sigmundar hefur Framsóknarflokkurinn litið til róta sinna og byggt á því að leita lausna við hverju vandamáli með skynsemisstefnu að vopni. Sigmundur hefur þannig gjarnan sagt að stefna flokksins þurfi að byggja á róttækri rökhyggju, þ.e. að vera opinn fyrir öllum hugmyndum og vega og meta hverja þeirra með skynsemi og rökhyggju án þess að reyna að sveigja raunveruleikann að fyrirfram mótaðri hugmyndafræði.
Grundvöllur framsóknarstefnunnar er því, nú sem í upphafi, óbilandi trú á getu og framfarir íslensku þjóðarinar, sóknarfæri hennar og mikilvægi þess að efla með Íslendingum þann uppbyggingar- og framfaraanda sem þarf til að nýta tækifærin og auka lífsgæði allra. Því auðlindir og mannauður og tækifæri Íslands eru slík að það er engin ástæða til að nokkur maður búi hér við skort.

Framsóknarflokkurinn í dag – handhægar upplýsingar
Framsóknarflokkurinn er í dag ein fjölmennasta fjöldahreyfing landsins með um þrettán þúsund meðlimi. Á aðalskrifstofu flokksins að Hverfisgötu 33 í Reykjavík og Alþingi sinna 4 starfsmenn vinnu fyrir Framsóknarfélög landsins eftir þörfum, sinna verkefnum fyrir þingflokk framsóknarmanna, samskiptum við fjölmiðla og stuðla að öflugu félagsstarfi svo eitthvað sé nefnt.
Í kosningum til Alþingis árið 2009 fékk Framsóknarflokkurinn tæp 15% atkvæða og hlaut níu þingmenn kjörna og jók styrk sinn um tvö þingsæti. Eftir sveitarstjórnarkosningar 2010 á flokkurinn 96 fulltrúa í sveitarstjórnum fimmtíu og þriggja sveitarfélaga víða um land.

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd