Húsvískir daglaunamenn réðust í að stofna með sér félag um stéttbundin hagsmunamál sín 14. apríl 1911, Verkamannafélag Húsavíkur. Nokkrum árum síðar eða 28. apríl 1918 stofnuðu verkakonur á Húsavík með sér eigið félag, Verkakvennafélagið Von. Vorið 1964 sameinuðust félögin undir nýju nafni, Verkalýðsfélag Húsavíkur.
Sameiningar
Síðan þá hafa orðið frekari sameiningar stéttarfélaga í Þingeyjarsýslum. Verkalýðsfélag Raufarhafnar, Verkalýðsfélag Öxarfjarðar og Verslunarmannafélag Húsavíkur mynda nú ásamt Verkalýðsfélagi Húsavíkur, Framsýn stéttarfélag. Endanleg sameining félaganna gekk í gegn 1. maí 2008. Starfssvæði Framsýnar nær yfir sveitarfélögin Norðurþing, Skútustaðahrepp, Þingeyjarsveit og Tjörneshrepp. Innan félagsins eru rúmlega 3000 félagsmenn sem flestir starfa við almenn verkamannastörf. Höfuðstöðvar Framsýnar stéttarfélags eru að Garðarsbraut 26 á Húsavík. Þar heldur félagið úti öflugri þjónustu við félagsmenn.
Sagan
Saga verkalýðsbaráttu í Þingeyjarsýslum er um margt mjög merkileg. Allt frá fyrstu tíð höfðu Verkamannafélagið og Verkakvennafélagið Von á stefnuskrám sínum að sinna kaupgjaldsmálum félagsmanna. En það var líka jafnljóst að hagsbótina mátti einnig sækja í aðra staði, hagkvæma verslun og samhjálparstarf af ýmsu tagi. Næg atvinna, öflugt mannlíf, vöxtur og viðgangur Þingeyjarsýslna hefur alla tíð verið í öndvegi félaganna. Með tímanum rótfestist sú áhersla í starfi þeirra og allar götur síðan hafa þau og síðar Framsýn stéttarfélag, haft mikil áhrif á alla umræðu um byggða- og atvinnumál. Stéttarfélögin hafa tekið virkan þátt og jafnvel verið frumkvæðisaðili að ýmsum meiriháttar atvinnufyrirtækjum á félagssvæðinu, fyrirtækjum sem skipt hafa sköpum fyrir viðgang svæðisins.
Á síðari áratugum hefur viðfangsefnum íslenskrar verkalýðshreyfingar fjölgað og allt starf stéttarfélaganna orðið faglegra í eðli sínu, jafnvel sérfræðilegt í sumum tilvikum. Þörfin fyrir öflug stéttarfélög verður áfram inn í framtíðina, samfélaginu og félagsmönnum þeirra til hagsbóta.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd