Freyja er elsta starfandi sælgætisgerð á Íslandi. Stofnuð árið 1918 af Magnúsi Þorsteinssyni. Í rúmlega öld hefur sælgæti frá Freyju verið partur af tilveru Íslendinga. Fyrstu framleiðsluvörur Freyju voru „Valencia” súkkulaðið og Freyju rjómakaramellur og eru Freyju rjómakaramellurnar ennþá í boði í óbreyttri mynd. Í dag framleiðir Freyja sælgæti af öllum stærðum og gerðum og eru framleiðsluvörur Freyju margar hverjar orðnar partur af íslensku þjóðarsálinni. Árið 2020 hjá Freyju var sérstakt ár eins og allsstaðar annarsstaðar í heiminum. Mikið mæddi á landsmönnum og fyrirtækjum og var áhersla Freyju á árinu að halda dampi þrátt fyrir heimsfaraldur og sinna m.a. áfram vöruþróun af fullum krafti, jafnvel gefa örlítið í. Vöruþróunin gekk framúrskarandi vel og hafa margar gríðarlega vinsælar vörur litið dagsins ljós eins og Sterkur Draumur, Djöflar, Stökkir Bananabitar og Stökkir Kókosbitar.
Eigendur og stjórnendur
Freyja er fjölskyldufyrirtæki og starfa u.þ.b. 50 manns hjá fyrirtækinu og hafa fjölmargir starfsmenn starfað lengi hjá fyrirtækinu. Hjónin Ævar Guðmundsson og Ingibjörg Bjarnadóttir eru eigendur Freyju. Pétur Thor Gunnarsson er framkvæmdastjóri Freyju. Hann var ráðinn til fyrirtækinsins árið 2015 sem sölu- og markaðsstjóri og hóf störf sem framkvæmdastjóri í upphafi árs 2020.
Starfsemin
Freyja hefur ástríðu fyrir sælgætisgerð og eru framúrskarandi gæði, einstakt handbragð og aldagömul hefð máttarstólpar Freyju og grundvöllurinn að langlífinu. Íslenskt sælgæti er að mörgu leyti algjörlega einstakt og leggur Freyja mikinn metnað í það að viðhalda og vernda þær framleiðsluaðferðir sem skapast hafa á þeim rúmlega 100 árum sem fyrirtækið hefur verið starfandi. Hjá Freyju er í grunninn gríðarleg áhersla lögð á gæði, bragð og hefðir. Aðeins heimsklassa karamellur, súkkulaði og lakkrís er framleiddur og notaður til þess að framleiða helsu vörumerki Freyju, eins og, Draumur, Hrís, Rís, Freyju karamellur, Djúpur, Bombur, Djöflar, Staur og Villiköttur.
Íslenkst súkkulaði og íslenskur lakkrís er að mörgu leyti algjörlega einstakt sælgæti. Vörur eins og Djúpur og Sterkar Djúpur hafa sem dæmi leitt vöruþróun hjá mörgum stærstu sælgætisframleiðendum heims, þar sem þær eru fyrstar sinnar tegundar en nú er hægt að finnar samskonar vörur um alla Evprópu. Lakkrís má hinsvegar finna um allan heim og hann er ýmis, sætur, saltur, mjúkur, harður, o.s.frv. Eina leiðin til þess að útskýra íslenskan lakkrís er einmitt að kalla hann íslenskan, þar sem enginn annar lakkrís er eins.
Freyja leggur áherslu á vöruþróun en þó má kappið ekki bera gæðin og bragðið ofurliði. Aðeins eru settar á markað vörur sem Freyja telur að muni skipta máli og muni útvíkka og staðsetja áfram íslenska sælgætisgerð í heimsklassa.
Stærstur hluti af heildarsölu Freyju fer fram á Íslandi en þó hefur Freyja aðeins verið að þreifa fyrir sér á mörkuðum erlendis og gengur það vel. Freyja hyggst áfram þreifa fyrir sér á útflutningsmörkuðum þar sem leitað verður tækifæra til þess að efla viðskipti við góða dreifingaraðila svo hægt verði að kynna heimsbyggðinni fyrir einstökum framleiðsluvörum fyrirtækisins.
Aðsetur
Freyja er til húsa á tveimur stöðum í Kópavogi. Verksmiðja fyrirtækisins er á Kársnesbraut og skrifstofa ásamt lager á Vesturvör 36.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd