Byggingastarfsemi í Skagafirði hefur verið í blóma síðustu árin. Eitt af verktakafyrirtækjum á Sauðárkróki er kennt við stofnandann Friðrik Jónsson (1925) húsasmíðameistara. Hann hóf reksturinn árið 1980 ásamt sonum sínum Ólafi Elliða (1957) og Jóni Eðvald (1954).
Í dag er framkvæmdastjórn og eignarhald fyrirtækisins alfarið innan fjölskyldu Ólafs. Auk Ólafs eru synir hans, Friðrik Þór (1978) , Ari Freyr (1980) og Einar I. (1990) hluthafar í Friðriki Jónssyni ehf.
Starfsfólk og aðsetur
Hjá fyrirtækinu starfa um 25 manns. Aðsetur þess er að Borgarröst 8 á Sauðárkróki. Þar er starfrækt verkfræðistofa ásamt trésmíðaverkstæði, sem annast að mestu sérsmíði á gluggum og útihurðum.
Sagan
Eitt af fyrstu stærri verkefnum Friðriks Jónssonar ehf. voru byggingar félagslegra íbúða á Sauðárkróki. Þá tók fyrirtækið þátt í uppbyggingu tengdri Hólaskóla eða Háskólans á Hólum í Hjaltadal. Má þar nefna að fyrirtækið byggði 80 íbúðir í nemendagörðum, ásamt 1.500 fm2 reiðhöll og 3.200 fm2 hesthús með rými fyrir um 200 hross í stíum. Þá hefur fyrirtækið tekið að sér ýmis verkefni fyrir Kaupfélag Skagfirðinga svo sem byggingu 3.300 fm2 verkstæðishúss að Hesteyri 4 á Sauðárkróki. Fyrirtækið hefur einnig tekið að sér uppbyggingu fyrir Höfðaströnd ehf. en á vegum þess hefur t.d risið listasetur, hesthús og reiðhöll. Friðrik Jónsson ehf. hefur í samstarfi við önnur verktakafyrirtæki á svæðinu komið meðal annars að byggingu Steinullarverksmiðjunnar, byggingu leik- og grunnskóla á Sauðárkróki, auk ýmissa annarra verkefna. Fyrir utan almennar húsbyggingar hefur fyrirtækið tekið að sér ýmis verkefni, sem aðalverktaki eða undirverktaki.
Síðustu ár
Stærsta einstaka verkefni síðustu ára var bygging höfuðstöðva Byggðastofnunar á Sauðár-króki. Húsið er tveggja hæða, auk kjallara undir hluta byggingarinnar. Húsinu var skilað fullbúnu að utan og innan, ásamt frágenginni lóð á tilsettum tíma. Þá keypti fyrirtækið gamla barnaskólahúsið á Sauðárkróki og er nú verið að breyta því í 13 íbúðir sem boðnar verða til sölu á næstu mánuðum. Íbúðirnar eru misstórar eða frá 48 fm2 og upp í 113 fm2. Einnig áformar fyrirtækið að byggja þrjú parhús á lóðinni við gamla barnaskólann. Bændur í héraði hafa staðið fyrir mikilli uppbyggingu fjósa síðustu árin og hefur fyrirtækið tekið þátt í þeirri uppbyggingu bæði hvað varðar endurbætur og nýbyggingar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd