G.Á. húsgögn ehf.

2022

Fyrirtækið G.Á. húsgögn var stofnað af Grétari Árnasyni bólstrarameistara sumarið 1975. Hann var ákveðinn í því þegar hann lauk sveinsprófi 1974 að hann skyldi verða sjálfstæður og sinn eigin herra. Hann var stórhuga og er enn, en byrjaði engu að síður smátt. Starfsemin hófst með því að hann var einn í bílskúr að sýsla við sitt fag og í byrjun vann hann mest fyrir TM-húsgögn sem reyndist happadrjúgt; en strax ári síðar flutti hann með starfsemina í Stórholt þar sem hann hóf framleiðslu m.a. á eigin húsgögnum sem hann hafði teiknað, enda með mikinn áhuga á húsgagnahönnun. Hann hannaði og framleiddi t.d. hægindastól sem kallaður var Kiwi og ekki leið á löngu áður en hann sló svo vel í gegn að vart hafðist undan að framleiða fyrir þær verslanir í Reykjavík sem höfðu stólinn til sölu. Auk þess hannaði hann raðsófasett sem varð álíka vinsælt svo hann við annan mann var að hamast við að framleiða til að anna eftirspurn.
Má segja að þarna hafi orðið til sá grunnur sem skapaði G.Á húsgögn til framtíðar. Grétar vildi víkka út sjóndeildarhring sinn og bæta húsgagnaúrvalið Íslandi. Hann brá sér á nokkrar húsgagnasýningar erlendis og í kjölfarið hóf hann innflutning á húsgögnum, leðri og öðru efni í áklæði samhliða þeirri framleiðslu sem þegar átti sér stað. Svo það var aðeins tímaspursmál hvernær yrði farið út í verslunarrekstur.

Sagan
Árið 1980 var opnuð verslun í Skeifunni 8 sem hét G.Á. húsgögn og gekk vel fyrstu tvö árin; allt fram til ársins 1986 þegar Grétar ákvað að hætta verslunarrekstri þar sem aðstæður í efnhagsmálum á Íslandi höfðu verið of sveiflukenndar sbr. myntbreyting, óðaverðbólga, samdráttur o.s.frv. Þannig að hann tók ákvörðun um flytja sig inn í Brautarholt þar sem hann hugðist einbeita sér að bólstrun, viðgerðum og viðhaldi á húsgögnum. Með öðrum orðum, að hafa það fremur rólegt. En mikil vatnaskil voru í nánd. Til Grétars var leitað eftir því að smíða og klæða nýja stóla fyrir Alþingi. Arkitektinn hafði gengið á milli bólstrara en enginn treysti sér til að vinna með leðrið sem átti að nota í stólana; en það var einmitt Grétar sjálfur sem hafði flutt leðrið inn og selt það í stólana. Eftir nokkurra daga umhugsun eftir að hafa vegið og metið umfang og tilhögun verksins ákvað hann að taka það að sér. Svo fyrirtækið í samvinnu við GKS smíðaði og klæddi alla stóla og borð í þingsalnum. Fleiri ámóta stór verk áttu eftir að koma inn á borð hjá G.Á. húsgögnum og næsta stóra verkefni var hin nýja Flugstöð Leifs Eiríkssonar, en allt leður sem fór á stóla og sófa þar var unnið og klætt af þeim. Gott orðspor fyrirtækisins fór vaxandi og Grétar vildi leita leiða til að byggja upp fyrirtækið. Hann fór að velta því fyrir sér hvernig hann gæti tryggt sér fasta viðskiptavini og skundaði á fund með framkvæmdastjóra Hótel Loftleiða sem þá var og bauð fram þjónustu sína. Því boði var tekið og þannig hófst langt og farsælt samstarf við Icelandair en G.Á. húsgögn hafa séð um klæðningu og viðhald á húsgögnum á hótelum þess í Reykjavík og út um land. Enn voru einungis Grétar og félagi hans á verkstæðinu að vinna svo fyrir utan að sinna utanaðkomandi verkefnum var framleiðslunni haldið áfram. Stuttu seinna náðust samningar við Landspítalann um klæðningu og viðhald á stólum og öðrum húsgögnum svo næg urðu verkefnin. Veitingahús urðu næsta viðfangsefni Grétars og félaga. Þrátt fyrir hrakspár reyndust þau prýðis sóknarfæri og hafa G.Á. húsgögn tekið þátt í hönnun og bólstrað fjöldann allan af innréttingum fyrir veitingastaði í Reykjavík og víðar. Má nefna stærstan hluta af veitingahúsum og krám í miðbænum. Má nefna t.d. Kjarvalsstofu, Lækjarbrekku, Monkey’s, Kol, Bastard, Irishman, Sæta svínið, Fjallakonuna, Ameríska barinn og svona mætti lengi telja.
Í lok níunda áratugarins var Grétar hugsi yfir skorti á fjölbreytileika á íslenskum húsgagnamarkaði. Þá fór hann í kringum 1990 ásamt félögum sínum að gæla við þá hugmynd að fara út í verslunarrekstur eina ferðina enn og bjóða upp á eitthvað annað en það sem aðrir voru með. Í þeim tilgangi fóru þeir á húsgagnasýningar erlendis sem ekki endilega allir fóru til að skoða. Þeir voru að leita að einhverju alveg sérstöku. Þeim leist vel á eitt og annað og ákváðu að láta til skarar skríða. Stefnt var að því að opna verslunina í maí 1991 og eitt kvöldið voru þeir saman að brjóta heilan um nafnið á nýju búðinni. Þeir skáluðu í XO koníaki en ekki vildi nafnið vitrast þeim fyrr en komið var að kveðjustund, en þá rak Grétar augun kassann utan af koníaksflöskunni og slær því fram hvort búðin gæti heitið EXO. Það var gripið á lofti og merkið var teiknað á staðnum. Þessa verslun ráku þeir félagar saman til ársins 1997 en þá skildi leiðir og Grétar einhenti sér í að gera það sem hann var bestur í að gera og hafði verið að byggja upp fimm árum fyrr. 2001 flutti hann með starfssemina í Ármúla 19, þar sem það er enn í dag í 900 fermetrum og sinnir framleiðslu og þjónustu við þau fyrirtæki sem G.Á. er í viðskiptum við. Styrkur fyrirtækisins liggur fyrst og fremst í sérsmíði á húsgögnum og innréttingum eftir pöntun. Grétar er með lærða bólstrara í vinnu hjá sér og telur það mikilvægt fyrir fagið og það sem fyrirtækið er að fást við. Fyrir utan öll verkefnin hér heima við þá hafa G.Á húsgögn tekið að sér verkefni erlendis, t.d. í Svíþjóð.

Starfsfólk og stjórnendur
Á bilinu 10-15 manns starfa með einum eða öðrum hætti hjá fyrirtækinu. Flestir sem starfa við bólstrun í dag eru að vinna við endurbólstrun. G.Á. húsgögn er öflugasta bólstrunarfyrirtæki í framleiðslu hér á landi þótt fyrirtækið taki að sér klæðningu endrum og sinnum.
Fjölskyldan hefur komið sterk inn í fyrirtækið. Eiginkonan hefur séð um fjármálastjórn og bókhald, og sonurinn hefur starfað í bólstuninni og er vöruhönnuður að mennt.

Framtíðarsýn
Grétar telur framtíðarhorfur góðar og er stöðugt á höttunum eftir nýjum hugmyndum og aðferðum til að vinna efni í áklæði eins t.d. gærur.
Samkeppnin er fyrst og síðast við innflutning þar sem framleiðslukostnaður er meiri innanlands, en gæði og ending er eitthvað sem G.Á. húsgögn horfir til þegar ráðist er í framleiðslu og framkvæmdir. Þar kemur til áratuga reynsla og þekking, enda fyrirtækið orðið 47 ára gamalt og starfar enn á sömu kennitölu.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd