Guðmundur Hjálmarsson og María Bergþórsdóttir stofnuðu fyrirtækið G. Hjálmarsson hf. árið 1979 eða fyrir 42 árum. Síðan þá hefur mikið vatn til sjávar runnið. Fyrsta árið var einungis ein jarðýta í tækjaflotanum sem í dag telur á milli 50 og 60 tæki af ýmsum gerðum. Mikil endurnýjun og kaup á tækjum er ávallt á döfinni. Fyrirtækið telst til stærri jarðvinnuverktaka á Íslandi og fæst við vega- og gatnagerð, að taka húsgrunna, lóðagerð, snjómokstur, vélaflutninga og alls konar jarðvinnu.
G. Hjálmarsson hf. var fyrst til húsa Draupnisgötu 7 á Akureyri í um 150 fm húsnæði en starfsemin var flutt að Goðanesi 2 árið 2009 í 1400 fm eigið húsnæði.
G. Hjálmarsson hf. er öflugt einkafyrirtæki sem áunnið hefur sér mikið traust verkkaupa, bæði einkaðila og opinberra aðila.
Starfsemin
Upphaflega var aðeins um einn starfsmann að ræða en um þessar mundir eru starfsmenn á bilinu 12 til 25 eftir árstíð og verkefnastöðu. Lögð er áhersla á að starfsmennirnir séu samstilltir og ánægðir í störfum sínum. Verkefnastaða er góð og lítur vel út í náinni framtíð. Fyrirtækið hefur komið að ýmsum stórverkefnum undanfarin ár og má sem dæmi nefna undirbúningsvinnu fyrir bráðarbirgðabrú við Vaðlaheiðargöng, jarðvinnu fyrir byggingu stöðvarhúss að Þeistareykjum.
Stærstu verkefni G. Hjálmarssonar hf. undanfarin ár eru, meðal annars, öll jarðvinna við Útgerðarfélag Akureyrar, Kröflulína 4, allur lóðarfrágangur og malbikun við Þeistareykjavirkjun, Dettifossvegur, Vesturdalur, Hólmatungur og Hóla-sandslína 3. Einnig sinnir G. Hjálmarsson hf., sem verktaki, vetrarþjónustu fyrir ýmis fyrirtæki, stofnanir og sveitarfélög og má þar nefna Hörgárbyggð, Ársskógsand og Hauganes.
Fyrirtækið
Opnunartímar eru sveigjnalegir og fara eftir óskum og þörfum viðskiptavina, kallinu er sinnt þegar það kemur.
Velta G. Hjálmarsson hf. hefur vaxið jafnt og þétt á liðnum árum og vex enn.
Fyrirtækið er ekki aðili að Samtökum atvinnulífsins en hefur verið í hópi framúskarandi fyrirtækja á lista Creditinfo frá árinu 2015.
Vegna COVID-19 faraldursins þurfti að grípa til aðgerða svo að sóttvarnarreglum væri fylgt.
Var starfsmannahópnum skipt í tvennt á milli tveggja stórra verkefna á sitt hvorum staðnum.
Framkvæmdastjóri telur að fyrirtækið mætti vera sýnilegra en þó hefur verið vandað til heimasíðu fyrirtækisins á Facebook og má þar sjá, í máli og myndum, hvað er verið að vinna frá einum tíma til annars.
G. Hjálmarsson hf. hefur ríka samfélagsvitund og styður ýmis íþróttafélög og góðgerðarfélög. Aðsetur G. Hjálmarsson hf. er að Goðanesi 2 á Akureyri, eins og áður kom fram.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd