Garðabær

2022

Garðabær er fallegur bær á miðju höfuðborgarsvæðinu, landssvæði sveitarfélagsins nær frá Álftanesi til suðausturs inn á austurhluta Reykjanesskaga, þar sem eru Reykjanesfólkvangur og Heiðmörk. Í dag er Garðabær fimmta stærsta sveitarfélag landsins með um 18 þúsund íbúa árið 2021. Heildarflatarmál Garðabæjar er rúmlega 46 km². Vegvísir Garðabæjar er að bærinn sé ávallt í fararbroddi um skipulag byggðar og verndun umhverfis og náttúru. Í Garðabæ er lögð áhersla á góða þjónustu við íbúa á öllum aldri, á sviði fræðslumála, umhverfismála, velferðarmála, menningarmála og íþrótta- og tómstundamála. Upplýsingar um starfsemi bæjarins er að finna á vef Garðabæjar, gardabaer.is.

Umhverfismál í brennidepli
Náttúruvernd í bænum er umfangsmikil enda nálægð við haf og uppland eitt af helstu einkennum sveitarfélagsins. Viðamiklar fjörur og strandsvæði einkenna Álftanes og miklar hraunbreiður og merkar jarðmyndanir eru innan bæjarlandsins. Í júní 2020 var staðfest friðlýsing Búrfells, Búrfellsgjár, Selgjár og nágrennis ofan Garðabæjar. Búrfellsgjá og umhverfi hennar er vinsæl útivistarparadís í túnfæti höfuðborgarsvæðisins þar sem ungir sem aldnir geta meðal annars gengið, skokkað, hjólað og riðið út í stórbrotnu landslagi. Fólkvangurinn á Hliði á Álftanesi var einnig stækkaður og friðlýstur á árinu 2020 og markmiðið að tryggja landsvæði til útivistar og almenningsnota. Önnur friðlýst svæði í Garðabæ eru Kasthúsatjörn og aðliggjandi fjara, Gálgahraun, Skerjafjörður, Garðahraun efra og neðra, Vífilsstaðahraun, Maríuhellar, Vífilsstaðavatn og nágrenni, Reykjanes- og Bláfjallafólkvangur. Áformað er að allt að 40% af landssvæði Garðabæjar verði friðlýst sem er einstakt á landsvísu.
Á vorin hefur Garðabær staðið fyrir árlegu hreinsunarátaki og vorhreinsun meðal bæjarbúa. Í hreinsunarátakinu hafa hópar verið hvattir til að hreinsa svæði í nærumhverfi sínu og þar hafa íþróttafélög, skólahópar, kórar, félagasamtök og nágrannar tekið höndum saman og fegrað bæinn. Á sumrin hafa ungmenni verið í sumarvinnu hjá bænum og fjölmargir hópar hafa þar unnið að hreinsun og fegrun bæjarins.

Saga byggðar
Garðabær hlaut kaupstaðarréttindi árið 1976 og þá voru íbúar um 4.100. Saga byggðar í landi Garðabæjar nær þó allt aftur á landnámsöld. Þéttbýlismyndun í Garðabæ hófst ekki að verulegu leyti fyrr en um 1950 þegar byggðakjarni fór að myndast við Silfurtún. Árið 2013 sameinuðust sveitarfélögin Garðabær og Álftanes og við það urðu íbúar sveitarfélagsins tæplega 14 þúsund. Árið 2018 voru íbúar 15.700, árið 2020 voru íbúar orðnir 17.700 og komnir yfir 18 þúsund árið 2021. Byggðin í Garðabæ er nokkuð fjölbreytt, að mestu er þetta lágreist byggð en í seinni tíð hafa verið byggð fleiri fjölbýlishús og þéttleikinn aukist sér í lagi í kringum þjónustukjarna miðbæjarins við Garðatorg. Mikil áhersla hefur verið lögð á vandað skipulag og nýtt aðalskipulag Garðabæjar sem gildir til ársins 2030 var undirritað að vori 2018. Í takt við uppbyggingu einkennist arkitektúr sveitarfélagsins af áherslum hvers tíma og í sveitarfélaginu má finna mörg þekkt kennileiti og fallegar byggingar og má þar nefna ráðhústurninn við Garðatorg, Garðakirkju í Garðahverfi, Vífilsstaði, Bjarnastaði og forsetasetrið á Bessastöðum. Sögu sveitarfélagsins hefur verið gerð góð skil í ritverkinu Saga Garðabæjar eftir Steinar J. Lúðvíksson sem kom út í fjórum bindum árið 2015.

Uppbygging í Garðabæ
Lega Garðabæjar á höfuðborgarsvæðinu og stór óbyggð svæði eru mikilvægar forsendur uppbyggingar fyrir atvinnustarfsemi og íbúðarbyggð. Í aðalskipulagi Garðabæjar er áætlað að árið 2030 geti íbúafjöldi nálgast 25 þúsund og undanfarið ár hefur íbúafjölgun í Garðabæ verið hlutfallslega meiri en á landsvísu og á höfuðborgarsvæðinu. Töluvert atvinnulíf er í Garðabæ og fjöldi öflugra fyrirtækja, smá sem stór. Helstu atvinnusvæðin í Garðabæ eru í Molduhrauni og Kauptúni en einnig eru þjónustu- og verslunarsvæði víðs vegar um bæinn. Mikil og fjölbreytt byggingaráform, íbúðar- og atvinnuhúsnæðis, eru fyrirhuguð í Garðabæ næstu árin, þar má nefna svæði eins og miðsvæði Álftaness, Eskiás, Lyngássvæðið, Urriðaholt, Þorraholt, Hnoðraholt, Vetrarmýri og Arnarland.
Miklar framkvæmdir hafa átt sér stað á vegum Garðabæjar á undanförnum árum samhliða uppbyggingu nýrra hverfa, svo sem gatnaframkvæmdir, endurbætur á leik- og grunnskólum, uppbygging á nýju skólahúsnæði og uppbygging búsetuúrræða fyrir fatlað fólk. Á árinu 2020 var stærsta einstaka framkvæmdin áframhaldandi bygging fjölnota íþróttahúss í Vetrarmýri. Fjölnota íþróttahúsið verður með rými fyrir knattspyrnuvöll í fullri stærð og klifurvegg innanhúss auk upphitunaraðstöðu ásamt tilheyrandi stoðrýmum og verður mikil lyftistöng fyrir íþrótta- og heilsueflandi starfsemi í bænum. Á árinu 2020 var einnig haldið áfram að klára smærri verkefni víðs vegar um bæinn sem íbúar bæjarins kusu í rafrænni íbúakosningu í lýðræðisverkefninu Betri Garðabæ. Með stækkandi bæ er mikilvægt að uppbygging þjónustu og atvinnulífs haldist í hendur við gæði mannlífs. Íbúar í Garðabæ eru almennt ánægðir með sveitarfélagið sem stað til að búa á skv. árlegri þjónustukönnun Gallup og í sömu könnun hefur mælst mikil ánægja með þjónustu sveitarfélagsins á heildina litið.

Góður bæjarbragur og fjölbreytt menningarlíf
Á Garðatorgi hefur mikil þróun átt sér stað með uppbyggingu nýs miðbæjar þar sem þjónusta, veitingastaðir, kaffihús og verslanir hafa bæst við þá starfsemi sem var fyrir. Veitingastaðir og kaffihús hafa einnig opnað á fleiri stöðum í bænum, s.s. á Álftanesi, Sjálandi og Urriðaholti.
Í Garðabæ er mikið félagslíf og á fáum stöðum jafn mikill félagsauður samankominn þar sem íbúar á öllum aldri taka þátt í fjölbreyttu starfi hjá félagasamtökum, íþrótta- og tómstundafélögum. Bæjarbúar sem og aðrir gestir eru duglegir að sækja söfnin heim í Garðabæ. Hönnunarsafn Íslands er með aðsetur á Garðatorgi og er rekið af Garðabæ. Í safninu hafa verið fjölbreyttar sýningar og í anddyri safnsins hafa hönnuðir verið með vinnustofur þar sem hægt hefur verið að fylgjast með þeim að störfum. Bókasafn Garðabæjar er til húsa á Garðatorgi og í Álftanesskóla er útibú safnsins sem er rekið með skólasafninu og í undirbúningi er opnun útibús safnsins í Urriðaholtsskóla. Safnið hefur á undanförnum árum staðið fyrir fjölmörgum fræðslu- og menningarviðburðum sem hafa dregið aukinn fjölda Garðbæinga í safnið allan ársins hring. Fastir menningarviðburðir í Garðabæ á liðnum árum hafa meðal annars verið Jazzhátíð Garðabæjar, Menningaruppskeruhátíð Garðabæjar, Jónsmessugleði myndlistarfélagsins Grósku, Tónlistarveisla í skammdeginu, þátttaka í Vetrarhátíð, hátíðarhöld á sumardaginn fyrsta og 17. júní og aðventudagskrá. Á tímum COVID-19 var lögð sérstök áhersla á menningardagskrá fyrir leikskóla- og grunnskólanemendur með vinnusmiðjum og tónleikum og fjölmargir menningarþættir voru teknir upp og streymt af samfélagsmiðlum til íbúa sem sannarlega kunnu að meta það.

Metnaðarfullt skóla-, íþrótta- og tómstundastarf
Í Garðabæ eru átta grunnskólar, þar af eru tveir einkareknir. Urriðaholtsskóli er nýjasti skólinn en þar er samrekinn leik- og grunnskóli. Garðabær hefur lagt áherslu á fjölbreytni í skólastarfi og foreldrar geta valið sjálfir þann skóla sem þeir telja að henta barni sínu best. Félagsmiðstöðvar fyrir elstu ungmenni grunnskólanna eru þrjár. Garðahraun er nýtt frístundaúrræði sem tók til starfa árið 2019 fyrir börn með sérþarfir í 5.-10. bekk þar sem markmiðið er að bjóða upp á fjölbreytt og skapandi tómstundastarf eftir að hefðbundnum skóladegi lýkur. Mikilvægt er að hlúa að samstarfi skóla og foreldrasamfélagsins í Garðabæ og Grunnstoðir sem er skipað fulltrúum foreldrafélaga grunnskólanna í bænum hefur eflt rödd foreldra og tekið virkan þátt í að stuðla að betra skólasamfélagi. Fjöldi leikskóla í Garðabæ er 12 þar af eru 3 einkareknir. Nýjasti leikskólinn er ungbarnaleikskólinn Mánahvoll sem tók til starfa á árinu 2021 en einnig er í undirbúningi bygging nýs leikskóla í Urriðaholti. Í Garðabæ hefur verið unnið markvisst að því að geta boðið börnum leikskólapláss allt niður í 12 mánaða aldur við upphafi hvers skólaárs. Þróunarsjóðir leik- og grunnskóla voru settir á laggirnar fyrir nokkrum árum síðan og markmið þeirra er að stuðla að framþróun og öflugu innra starfi skóla í Garðabæ. Í Tónlistarskóla Garðabæjar fer fram öflug tónlistarfræðsla þar sem boðið er upp á hljóðfæra- og söngnám við klassískar og rytmískar deildir. Starfsemi skólans fer fram við Kirkjulund, við Breiðamýri og einnig innan grunnskóla bæjarins. Einn framhaldsskóli er í bænum, Fjölbrautaskólinn í Garðabæ.
Öflugt íþrótta- og tómstundastarf er í bænum með fjölmörgum félögum, þar má nefna Ungmennafélagið Stjörnuna, Ungmennafélag Álftaness, Skátafélögin Vífill og Svanir, Klifið, golfklúbbana, hestamannafélög og mörg fleiri. Börn og ungmenni á aldrinum 5-18 ára í Garðabæ geta fengið árlega hvatapeninga til að lækka kostnað við skipulagt íþrótta- og æskulýðsstarf. Í Garðabæ eru reknar tvær sundlaugar fyrir almenning, Ásgarðslaug og Álftaneslaug, en auk þess eru kennslusundlaugar í Sjálandsskóla og í Mýrinni. Fjölmörg íþróttamannvirki eru í bænum með aðstöðu fyrir íþróttakennslu skólanna og starfsemi íþróttafélaga.

Velferð íbúa – heilsueflandi og barnvænt samfélag
Velferð íbúa á öllum aldri er eitt mikilvægasta verkefni sveitarfélagsins. Á árinu 2018 var undirritaður samstarfssamningur við Embætti landlæknis um að Garðabær verði ,,Heilsueflandi samfélag“. Verkefninu er ætlað að ná til allra aldurshópa í samfélaginu og stuðla að góðri heilsu, vellíðan og auknum lífsgæðum. Velferð barna í Garðabæ er verkefni sem hófst árið 2013 og stuðlar að samvinnu allra skólastofnana og íþrótta- og tómstundafélaga um heildstæða stefnu er varðar jafnrétti, kynheilbrigði og velferð barna. Á árinu 2020 bættist Garðabær í hóp sveitarfélaga sem ætla að verða ,,Barnvæn sveitarfélög“ með því að innleiða Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna með markvissum hætti inn í starf sitt. Garðabær vinnur einnig að innleiðingu Heimsmarkmiða Sameinuðu þjóðanna um sjálfbæra þróun og hefur valið sér 38 undirmarkmið til að fylgja eftir. Forvarnavika Garðabæjar hefur verið haldin árlega í samvinnu skóla, félagsmiðstöðva og fleiri aðila þar sem boðið er upp á fjölbreytta dagskrá með mismunandi þemu hverju sinni. Götuvaktin er tilraunaverkefni félagsmiðstöðva Garðabæjar sem var nýlega sett af stað til að vera með virkt vettvangsstarf og mynda tengingar við unglingahópa utan hins hefðbundna starfsumhverfis

Garðabær og mannauðurinn
COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á starfsemi Garðabæjar frá upphafi árs 2020. Reynt hefur mikið á starfsfólk bæjarins við að halda úti órofinni þjónustu í mikilvægum málaflokkum á sviði velferðar- og félagsþjónustu og fræðslumála, s.s. þjónustu við fatlað fólk, barnavernd, þjónustu við eldri borgara og aðra stoðþjónustu auk leik- og grunnskólastarfs.
Hjá Garðabæ eru um 1200 starfsmenn að jafnaði en yfir sumarmánuðina tvöfaldast sú tala með sumarstarfsfólki bæjarins. Í Ráðhúsi Garðabæjar starfa um 55 manns á bæjarskrifstofum Garðabæjar á fjórum sviðum, fjármála- og stjórnsýslusviði, fjölskyldusviði, fræðslu- og menningarsviði og tækni- og umhverfissviði. Bæjarstjóri Garðabæjar frá árinu 2005 er Gunnar Einarsson. Bæjarstjórn Garðabæjar er skipuð 11 fulltrúum og fer með stjórn bæjarins samkvæmt ákvæðum sveitarstjórnarlaga. Í sveitarstjórnarkosningum 2018 fékk D-listi Sjálfstæðisflokks 8 fulltrúa og G-listi Garðabæjarlistans 3 fulltrúa í bæjarstjórn Garðabæjar.

Garðabær er bær í vexti sem leggur mikið upp úr góðri þjónustu og traustum fjárhag. Bærinn hefur upp á margt að bjóða innan bæjarmarkanna, í verslun og þjónustu í nærumhverfi, afþreyingu og menningu og góðri aðstöðu til útivistar með göngustígum innanbæjar sem og stutt í náttúruperlur við sjávarsíðuna, við vötnin, í hrauninu og í upplandinu í Heiðmörk.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd