Á Hveravöllum í Reykjahverfi S-Þing. er Garðræktarfélag Reykhverfinga sem var stofnað árið 1904 og er eitt elsta hlutafélag landsins sem enn lifir. Hlutverk félagsins var í fyrstu aðallega kartöflurækt auk þess sem það hafði engjaheyskap, rófnarækt og túnrækt. Árið 1933 var fyrsta gróðurhúsið byggt og stærð þess var 50 fm. Eftir það var áhersla lögð á ræktun í gróðurhúsum sem voru hituð upp með hveravatni. Smám saman fjölgaði húsunum og 1975 voru þau orðin 9 talsins þar sem stunduð var fjölbreytt ræktun.
Stórt vatnshverasvæði á Hveravöllum
Hveravellir eru staðsettir við mestu goshveri Norðurlands. Jarðhitasvæðið er undir vesturhlíð Reykjafjalls og eru hverirnir 5 að tölu. Það eru Ystihver, Uxahver, Syðstihver, Strútshver og Strokkur. Vatnið er 100 C° heitt, hreint og tært, en Ystihver er vatnsmestur og gýs hæst. Mæld hafa verið 25 metra há gos í Ystahver, en ekki var vitað að hann gysi fyrr en 1905 þegar Baldvin Friðlaugsson, þá framkvæmdstjóri Garðræktarfélags Reykhverfinga, lækkaði vatnsborð hans um 1-2 fet. Árið 1970 var samið um að Húsavík fengi heitt vatn frá Hveravöllum til húshitunar og var hitaveitan lögð á því ári. Leiðslan er 19 km löng og eru öll hús á Húsavík hituð upp með hveravatninu auk þess sem allir sveitabæir í Reykjahverfi hafa notið góðs af hitaveitunni. Þá hefur einnig verið lögð hitaveita niður í Aðaldal, vestur yfir Hvammsheiði og allt vestur í Kinn.
Fyrirtæki fjögurra ættliða
Saga Garðræktarfélags Reykhverfinga er sérstök að því leyti að þar hafa einungis starfað fjórir framkvæmdastjórar á 115 árum og er núverandi framkvæmdastjóri Páll Ólafsson sá fjórði í röðinni í beinan karllegg. Fyrsti framkvæmdastjórinn var Baldvin Friðlaugsson sem starfaði frá 1904-1938. Þá sonur hans Atli Baldvinsson sem var með fyrirtækið árin 1938-1976 og síðan sonur hans Ólafur Atlason 1976-2005. Páll Ólafsson er því á sínu 14 starfsári sem framkvæmdastjóri og nýtur aðstoðar konu sinnar, Heiðbjartar Þóru Ólafsdóttur.
Raflýsing og aukið ræktunarrými
Á undanförnum árum hafa mörg gömlu gróðurhúsin verið endurbætt og meirihluti elstu húsanna hafa verið rifin, en nýtískuleg og stór gróðurhús hafa risið í staðinn fyrir eldri byggingar. Raflýsing hefur verið sett í mörg hús og má segja að nú sé meirihluti framleiðslunnar ræktaður við rafljós. Ekki er langt síðan Garðræktarfélag Reykhverfinga byggði 2030 fermetra gróðurhús sem flutt var inn frá Hollandi og jók það ræktunarrými fyrirtækisins mjög mikið. Á lóð hússins stóðu áður tvö gróðurhús sem voru úr sér gengin auk bragga sem hýsti ýmis áhöld og tæki. Með því að rífa þessar byggingar skapaðist möguleiki á að hafa innangengt í pökkunaraðstöðu fyrirtækisins og var það til mikilla hagsbóta. Nýja gróðurhúsið er svokallað blokkahús með átta burstum. Tíu árum áður var byggt svipað hús sem er 1320 fermetrar og hefur það reynst mjög vel og reynslan af hollenskum húsum því mjög góð. Aðstöðurými í nýjasta gróðurhúsinu er einnig mjög gott eða um 230 fermetrar og þar eru hýstar m.a. tölvur sem sjá um loftslagsstýringu, hita-og rakastig sem og vökvun. Í sama rými er svo miðstöð fyrir áburðargjöf í öll gróðurhús á staðnum auk annars tækjabúnaðar sem til þarf við ræktunina.
Sérhæfingin setur svip sinn á framleiðsluna
Á seinni árum hefur framleiðslan aukist mikið. Til marks um það má geta þess að framleiðsla á tómötum var árið 1974 rúmlega 34 tonn, en var um 330 tonn árið 2018. Gúrkur voru liðlega 7 tonn árið 1974, en 150 tonn árið 2018. Meiri sérhæfing hefur átt sér stað og hefur framleiðslu á hvítkáli, gulrótum og garðjurtum til gróðursetningar verið hætt. Ræktaðar eru nokkur afbrigði af tómötum og hafa kokteiltómatar og heilsutómatar verið með mjög vaxandi markaðshlutdeild á síðustu árum. Þá eru ræktuð nærri 20 tonn af papriku hjá fyrirtækinu í dag en sú ræktun hófst ekki fyrr en árið 1975.
Stór vinnuveitandi og góður starfsandi
Garðræktarfélag Reykhverfinga er einn stærsti tómataframleiðandi landsins og með því að einbeita sér að tómötum, gúrkum og papriku hefur sérhæfing orðið mun meiri hjá fyrirtækinu. Áform eru um stækkun ef markaður verður fyrir hendi og mikið er lagt upp úr tæknivæðingu sem ábúendur hafa kynnt sér víða, m.a. í Finnlandi og telja að þar í landi sé mikið að læra og sjá hvað grænmetisrækt varðar. Á sumrin vinna á þriðja tug manna á Hveravöllum og hefur fyrirtækið verið vinnuveitandi margara Þingeyinga og annarra sem áhuga hafa á ylrækt um langan aldur. Fólkið sem starfar hjá Garðræktarfélagi Reykhverfinga í dag kemur víða að og hafa margir góðir starfskraftar komið erlendis frá á síðustu árum. Innan garðyrkjunnar er góður starfsandi og á Hveravöllum ríkir bjartsýni á framtíð greinarinnar.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd