Garðyrkjustöðin Reykás ehf. var stofnuð af þeim Sólveigu Sigfúsdóttir og Reyni Jónssyni árið 1998 en áður höfðu þau verið með rekstur á eigin kennitölu frá 1987. Fyrstu árin var ræktað kál og rófur og smávegis af gúrkum. Fljótlega var farið að kæla hvítkál og kínakál þannig að hægt var að geyma kál fram í mars. Fyrst var starfsemin rétt hjá Flúðum, en árið 2000 var helmingur jarðarinnar Götu í Hrunamannahreppi, keyptur og hluti útiræktarinnar fluttur þangað. Útihúsum var breytt í starfsmannahús, þar sem garðyrkja er frekar mannfrek.
Starfsemin
Árið 2005 var tekin áhvörðn um að byggja gróðurhús 2016 fm fyrir gúrkurækt, var það hitað upp með vatni frá Hitaveitu Flúða. Priva tölvukerfi sér um loftlagsstýringu í húsinu, það er, að vökva, opna og loka gluggum, kveikja og slökkva ljós, kolsýrugjöf og stýra hita og raka með sérstöku rakatæki. Gróðurhúsið var tekið í notkun haustið 2006 og í janúar 2007 sett upp lýsing. Í janúar árið 2009 var byrjað að flytja inn áburð og fljótlega farið að selja öðrum garðyrkjustöðvum. Umfangið jókst það hratt að stofnað var sér fyrirtæki um innflutninginn árið 2010 sem heitir NPK ehf. og er í eigu Reynis og Gunnars Th. Gunnarssonar. Um haustið 2009 var ráðist í það að byggja uppeldishús 288 fm. 2011 var byggt 1440 fm gróðurhús og þar ræktaðir tómatar. Ljóst var að hitaveitulögnin frá Flúðum annaði ekki því vatnsmagni sem þurfti til upphitunar. Árið 2015 var keyptur Nemek jarðbor og farið að bora eftir heitu vatni. Haustið 2015 fannst 73 gráðu heitt vatn í miklu magni á 140 metra dýpi, 360 metra frá gróðurhúsinu. Vorið 2016 var keypt gróðurhús í Þýskalandi, það rifið og flutt til Íslands. Haustið 2016 var byrjað að byggja gróðurhús með pökkunaraðstöðu 1.440 fm. 2018 var byrjað að rækta salat með nýrri tækni, Viscon Hydroponics þar sem salatið flýtur á vatni fer í hring byrjar sem smá planta og að loknum hringnum fullvaxið salat, hringurinn tekur u.þ.b. 3 vikur. Núna er að fara af stað tilraun með spínatrækt með sömu aðferð í samstarfi með fyrirtækinu Vivi í Hollandi. Ekkert eitur er notað í gróðurhúsunum við ræktunina, eingöngu lífrænar lausnir sem NPK ehf. hefur sérhæft sig í innflutningi á.
10-12 manns vinna í garðyrkjustöðinni allt árið og er keypt rafmagn fyrir u.þ.b. 3-4 milljónir á mánuði .
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd