Garðyrkjustöðin Silfurtún er rekin af þeim hjónum Eiríki Ágústssyni og Olgu Lind Guðmundsdóttur. Þau keyptu Silfurtún árið 2002 og tóku við þeirri ræktun sem þar var fyrir. Garðyrkjustöðin er hluti af Sölufélagi Garðyrkjumanna sem stofnað var fyrir margt löngu eða árið 1940 með það að markmiði að skapa grundvöll fyrir grænmetisbændur að koma vörum sínum á markað og búa þeim gott starfsumhverfi á stækkandi matvælamarkaði. Jarðhiti á Íslandi kemur sér vel til að hita upp gróðurhús þar sem ræktun á hvers kyns grænmeti fer fram og sendinn jarðveg er víða að finna hér á landi fyrir kartöfluræktun. Fyrsta kynslóð hinna svokölluðu grænmetisbænda undirbjó jarðveginn fyrir nýja tíma í framleiðslu matvæla og með hverri kynslóð hefur orðið til ný tækni og nýjar aðferðir til að rækta mismundandi tegundir grænmetis. Í dag er grænmetisúrvalið meira en nokkru sinni og má þakka það ötulu starfi og samtakamætti garðyrkjubænda sem leggja ofuráherslu á að kröfuharðir neytendur geti verið vissir um hvaðan vörurnar koma og að framleiðsla þeirra sé umhverfisvæn og holl.
Silfurtún var um tíma eina garðyrkjustöðin sem framleiddi jarðarber og sú ræktun hefur farið sístækkandi síðan Eiríkur og Olga tóku við rekstrinum.
Ræktunin
Jarðarberin eru ræktuð í nokkrum misstórum gróðurhúsum eða um 5000 fm samtals. Tómatar eru sömuleiðis stór hluti framleiðslunnar og undir þá ræktun eru teknir um það bil 800 fm. Þess ber að geta að ræktunin vistvæn þar sem allar varnir, sem viðhafðar eru í kringum plönturnar eru lífrænar. Býflugur sjá um að frjóvga blóm jarðarberjaplantnanna. Berjunum er pakkað í neytendaumbúðir og sendar í verslanir samdægurs svo ferskara getur það varla verið. Jarðarberin frá Silfurtúni þykja afspyrnu bragðgóð og talið að það megi rekja til notkunar íslenska vatnsins við ræktunina. Hindberjum hefur nú verið bætt við framleiðsluna og er útkoman vonum framar.
Silfurtún er staðsett að Flúðum í Hrunamannahreppi. Húsakostur er þar góður og stendur inni í skjólsælu rjóðri. Framleiðsluvörurnar eru líka seldar á staðnum fyrir gesti og gangandi og ganga kaupin þannig fyrir sig að fólk afgreiðir sig sjálft. Það fyrirkomulag virðist ganga prýðilega fyrir viðskiptavinina enda er 99% fólks heiðarlegt. Slíkt traust til viðskiptavinanna er til þess fallið að þeir taka sér sínar vörur og greiða á staðnum. Megin söluvörurnar eru jarðarber, hindber og tómatar.
Garðyrkjubúskapur á sér langa sögu á Flúðasvæðinu og má geta þess að ræktun í Silfurtúni hefur verið þar frá því á sjöunda áratugnum. Eiríkur og Olga hafa komið Silfurtúni á þann stað sem það er í dag.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd