Geislatækni ehf., Laser-þjónustan

2022

Geislatækni ehf. var stofnað í ársbyrjun 1998 af feðgunum Grétari Jónssyni og Jóni Leóssyni, ásamt þriðja aðila, Sigurjóni Jónssyni, sem síðan gekk úr félaginu skömmu síðar. Tilgangurinn með stofnun fyrirtækisins var að kaupa og annast rekstur á laserskurðarvél sem hentaði íslenskum markaði, en fram að stofnun Geislatæknis hafði þjónusta á sviði laserskurðar ekki verið fáanleg hérlendis og þurfti að leita út fyrir landsteinana eftir henni. Keypt var vél af gerðini Trumpf 2.6 kw frá Bandaríkjunum og húsnæði að Krókhálsi 5B. Voru starfsmenn Geislatækni fyrsta árið þrír að meðtöldum Jóni og Grétari. Í upphafi var gert ráð fyrir að vera eingöngu í undirverktöki í plötuvinnslu en fljótlega sýndi það sig að markaðurinn kallaði á enn frekari þjónustu við iðnaðinn og þar með talið fullvinnslu á ýmisskonar verkum, eftir tveggja ára starfsemi var tekin ákvörðun um kaup á notaðri beygjuvél af gerðini Haco 135 og með henni kom grunnur af heildarþjónustu á sviði plötuvinnslu. Fljótlega upp úr því var bætt við u.þ.b. 3-4 stöðugildum og er einn af þeim starfsmönnum, Aðalsteinn Þorvaldsson, núna 22 árum seinna, ennþá starfandi hjá fyrirtækinu, en hann hefur frá upphafi verið einn af lykilmönnum Geislatækni.

Starfsemin
Það var síðan árið 2006 að tekin var ákvörðun um kaup á nýjum vélbúnaði þ.m.t. nýjum laser Trumatic L 3030 afl- 4kw og beygjuvél Trumabend V1700 frá Trumpf í Þýskalandi. Vélarnar voru teknar í notkun í desember 2006, ásamt nýju húsnæði að Suðurhrauni 12c í Garðabæ. Samhliða þessum kaupum héldu þeir Grétar og Aðalsteinn til höfuðstöðva Trumpf í Ditzingen, Þýskalandi og settust á skólabekk, þeir dvöldu þar samtals í 6 vikur, sem mun hafa verið frekar sjaldgæft á þeim tíma, þar gengust þeir bæði undir bóklegt nám og verklega þjálfun og hlutu að lokum vottanir/viðukenningar í forritun og keyrslu þessarra nýju véla. Þessi nýju plötuvinnslutæki sönnuðu sig fljótt, strax á fyrsta rekstrarári þeirra margfölduðust afköst og gæði vinnslunar, þá miðað við gamla búnaðinn sem var kominn til ára sinna og orðinn dýr í viðhaldi o.fl. Það var síðan árið 2010 að ákveðið var að stofna nýja deild innan fyrirtækisins, sem myndi annast smíði og framleiðslu á búnaði úr ryðfríu stáli ásamt ýmis konar sérsmíði. Tekið var til við að stækka húsnæði og fleiri starfsmenn ráðnir inn, flestir þeirra voru fyrrum vinnufélagar og vinir Grétars úr gömlu Landsmiðjunni sem var og hét, allt menn með mikla og góða reynslu af stálsmíði. Helstu viðskiptavinir félagsins voru og eru enn, Baader Ísland, Marel, Valka, Vaki, ásamt fleiri góðum og traustum fyrirtækjum. Í kjölfarið jukust afköst til muna með auknum verkefnum á sviði smíða og undirverktöku í plötuvinnslu og ennþá var aukið við vélbúnaðinn með kaupum á Lissmac slípivél, sem sér um vinna partana sem koma úr laserskurði og gefa þeim betra útlit og gráðuhreinsa.Sú vinna hafði fram að því verið gerð handvirkt með slípirokkum, sem var bæði mannfrek og dýr, einnig var bætt við 6 ása beygjuvél Trubend 5130 sem opnaði enn frekari möguleika í plötuvinnslu.

Starfsfólk og aðsetur
Á árunum 2011-2015 var mjög mikill uppgangur hjá félaginu sem kallaði á enn frekari mannaráðningar og má segja að fjöldi starfsmanna hafi þrefaldaðist á tímanum, með því og auknum verkefnum var aukið við húsakostinn og fjárfest í 1.050 fermetrum í sama húsi sem renndi stoðum undir frekari véla og tækjakaup, það varð úr að pantaðar voru þrjár nýjar vélar frá sama vélaframleiðanda og fyrir var, þ.á.m. ný laserskurðavél L52 6kw Co2 , ásamt tveimur beygjuvélum af gerðinni Trubend 5230 og ein af gerðinni Trubend 3100, þessa vélar voru teknar í notkun í mars 2017. Árið 2020 tók félagið síðan í notkun nýjar skrifstofur, samtals 250 fermetra að stærð sem gjörbreytti allri aðstöðu tæknideildar og bókhalds.

Sérhæfing
Eins og fram hefur komið hefur margt breyst frá stofnun Geislatæknis ehf. tækjakostur og hugbúnaður hefur tekið miklum framförum, meiri sérhæfni er nú krafist af starfsmönnum og má segja að hver og einn starfsmaður sé sérfræðingur á sínu sviði, það er þó nokkur breyting frá árum áður, þar sem hver starfsmaður þurfti að geta leyst nánast öll verkefni innan fyrirtækisins. Mikil áhersla hefur verið lögð á hraða og örugga þjónustu við viðskiptavini. Í dag eru á þriðja tug starfsmanna starfandi hjá Geislatækni, í þremur deildum. Þessum uppgangi má ekki síður en vélbúnaði þakka því láni sem liggur í miklum mannauði í starfsmönnum sem margir hverjir hafa haldið tryggð við fyrirtækið árum og áratugum saman. Geislatækni býður upp á þjónustu byggða á laserskurði, beygingu og suðu á málmum, hún opnar möguleika sem nýtast á sviði fjöldaframleiðslu eða sérsmíði. Þjónustan saman stendur af þremur deildum eins og áður sagði: Deild sem sér um hönnun og tölvuvinnslu þar sem vinna við hönnun á hinum ýmsu hlutum fer fram auk úrvinnslu gagna frá hinum ýmsu fyrirtækjum, frá deildinni berast gögn til plötuvinnslu eða suðudeildar svo hægt sé að hefjast handa við framleiðslu. Plötuvinnslan er vel tækjum búin þar starfa að jafnaði 8 manns í u.þ.b. 1.500 fermetra húsnæði. Annast hún skurð og beygingu á hinum ýmsu hlutum sem annað hvort fara til verkkaupa eða í suðu- og samsetningardeild innan fyrirtækisins. Samsetningar- og suðudeild, Þar starfa að jafnaði 8 manns í u.þ.b. 600 fm húsnæði og er verksvið þeirra mjög fjölbreytt allt frá einföldum smáverkum upp í flókna smíði.

Framtíðarsýn
Vöxtur Geislatæknis hefur verið jafn og stöðugur frá stofnun, það eru nokkrir vendipunktar í starfseminni þar sem stór stökk voru tekin. Á komandi árum má gera ráð fyrir aukinni sjálfvirkni í framleiðslu. Meðal annars tekur hugbúnaður stöðugum framförum og bætir yfirsýn og afköst. Eigendur Geislatækni hafa ávallt lagt mikla áherslu á framfarir og gera ráð fyrir að fylgja þróun í sínum geira og vera í fararbroddi með nýjungar sem geta nýst hinum ýmsu framleiðslufyrirtækjum hér innanlands.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd