Geisli Raftækjavinnustofa

2022

Geisli er jafngamall gosinu á Heimaey; var formlega stofnaður af hjónunum Guðrúnu R. Jóhannsdóttur og Þórarni Sigurðssyni á afmælisdegi Guðrúnar 10. október 1973. Stofnun fyrirtækisins tengdist raunar goslokunum beint því það verður til í kjölfar þess að Viðlagasjóður hætti afskiptum af almennri verktakastarfsemi í Vestmannaeyjum, þ.m.t. rafmagnsvinnu, þegar hreinsun bæjarins var að mestu lokið. Allar götur síðan, í bráðum 50 ár, hefur Geisli veitt Eyjamönnum og fyrirtækjum þeirra víðtæka og alhliða þjónustu í öllu, smáu og stóru, sem snýr að rafmagni og raftækjum.

Sagan
En þetta byrjaði smátt fyrir tæpri hálfri öld; og það er kannski við hæfi að þetta „hjónafyrirtæki‘‘ hafi byrjað starfsemi sína í húsnæði sem kallaðist „Keleríið‘‘ – 20 fermetra bakhúsi sem var í eigu Vélsmiðjunnar Magna við Strandveginn. Starfsmennirnir voru í upphafi þrír með þeim hjónum og höfðu allir starfað áður hjá Viðlagasjóði í kjölfar gossins. Strax í upphafi byggðist starfsemi Geisla á allri almennri rafmagnsvinnu fyrir einstaklinga og fyrirtæki. Þjónusta við fiskiskipaflotann vóg strax mjög þungt í starfseminni og fólst mest í viðhaldi og nýlögnum á rafmagni í flotanum, ásamt uppsetningu og viðgerðum á fiskileitar- og siglingatækjum; og kæli- og frystikerfum. Verkefnum Geisla fjölgaði hratt næstu árin og starfsemin óx hröðum skrefum. Reksturinn sprengdi fljótlega utan af sér húsnæðið og ráðist var í 300 fermetra nýbyggingu við Flatir 29 sem flutt var inn í haustið 1976. Geisli færði svo enn út kvíarnar 1980 með opnun raftækjaverslunar og í kjölfarið þurfti aftur að stækka húsnæðið. Árið 2006 keypti Geisli rekstur fyrirtækisins Eyjaradíó og sameinaði það rekstri sínum og þá bættist viðgerðarþjónusta á hverskyns rafeindatækjum við starfsemina. Ákveðin þáttaskil verða síðan 2009 þegar Geisli flutti inn í 1000 fermetra nýbyggingu og færði enn út verslunarreksturinn með kaupum á gjafavöruversluninni Callas. Öll starfsemin var þar með komin á einn stað og er þar enn. Til hliðar við meginstarfsemina stofnaði Geisli svo Skipalyftuna hf. árið 1981 ásamt vélsmiðjunum Magna og Völundi. Allar götur síðan hefur verið mikið og gott samstarf á milli Geisla og Skipalyftunnar. Árið 2010 hófst samstarf Geisla við Múrbúðina undir nafninu Múrbúðin í Vestmannaeyjum sem seldi byggingavörur.

Verkefnin
Til að nefna örfá dæmi um stór verkefni sem Geisli hefur fengist við á síðustu misserum og árum mætti tiltaka nýtt tengivirki fyrir Landsnet; nýja varmadælustöð fyrir HS Veitur; raflagnir fyrir Ægisgötu 4 þar sem m.a. er að finna hvalalaugina fyrir mjaldrana góðkunnu og annan búnað fyrir Sealife Trust og Þekkingarsetur Vestmannaeyja – og svona mætti áfram telja.
Umtalsverður þáttur í starfsemi Geisla er einnig þjónusta við Mílu og dreifikerfi fyrirtækisins í Eyjum. Geisli kemur einnig að uppbyggingu ljósleiðarakerfisins í bænum og þjónustu og viðhaldi á senda- og móttökubúnaði uppi á Klifi í Vestmannaeyjum. Eins og áður sagði varð þjónusta við fiskiskipaflotann strax ákveðin þungamiðja í starfsemi Geisla og svo er enn. Skipa- og bátafloti Eyjamanna treystir á Geisla þegar kemur að uppsetningu, nýlögnum, viðhaldi og viðgerðum á fiskileitartækjum og kæli- og frystikerfum. Einnig sér Geisli um eftirlit og viðhald með frysti- og kæligámum fyrir fyrirtæki á borð við Eimskip og Samskip. Þetta eru einungis örfá dæmi um starfsemi Geisla – fyrir utan hefðbundna rafmagnsvinnu fyrir einstaklinga og fyrirtæki.

Staðan í dag
Starfssvið Geisla er afar breitt og nær yfir alla þætti rafmagnsvinnu fyrir bæði einstaklinga og fyrirtæki í Vestmannaeyjum. Allir þættir raflagna eru undir; allt frá uppsteypu þar sem það á við til lokafrágangs. Þetta gildir um m.a. lýsingu, eldvarnarkerfi, ljósastýringar, aðgangsstýrikerfi, myndavélakerfi og tölvukerfi.

Starfsfólk og markmið
Starfsfólk Geisla losar nú þriðja tuginn; rafvirkjar, rafeindavirkjar, tölvunarfræðingar og verslunar- og skrifstofufólk. Markmið Geisla er enn sem fyrr að veita einstaklingum og fyrirtækjum í Vestmannaeyjum fyrsta flokks þjónustu í öllu því sem lýtur að rafmagni – og búa á hverjum tíma yfir nýjustu þekkingu og færni á því sviði.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd