Geitey ehf. er fjölskyldufyrirtæki á Geiteyjarströnd í Mývatnssveit. Starfsemi félagsins byggir á þremur stoðum. Landbúnaði, fiskvinnslu og ferðaþjónustu. Starfsemi félagsins byggir á aldagömlum grunni mývetnskrar matvælahefðar. Grunnurinn að starfseminni er vinnsla og reyking á hinum rómaða Mývatnssilungi sem seldur er um land allt, frá Reykhúsinu á Geiteyjarströnd. Samhliða fiskvinnslunni hefur fjölskyldan rekið sauðfjárbú. Um tíma voru um 440 fjár á vetrarfóðrum, en nú hefur fénu verið fækkað talsvert. Sérstaða búsins felst í því að um árabil hafa afurðirnar ekki verið lagðar inn í afurðastöðvar eins og tíðkast í sauðfjárbúskap, heldur eru þær unnar í tengslum við Reykhúsið. Þriðja stoðin er svo gistiheimilið Dimmuborgir, en það var sett á laggirnar árið 2005 og hefur vaxið stöðugt síðan.
Upphafið
Héðinn Sverrisson húsasmíðameistari hefur frá upphafi leitt uppbygginguna á Geiteyjarströnd, en Héðinn fluttist að Geiteyjarströnd ásamt Huldu Finnlaugsdóttur 1971. Fyrstu árin og áratugina einkenndist starfsemin af landbúnaði og veiðiskap í Mývatni, en silungurinn sem veiddist var unninn og seldur. Breyttir tímar kölluðu á breytta hugsun, en þegar veiði þvarr í Mývatni þurftu þau hjónin að leita annarra tekjuleiða, við kennslu, verktöku og annað tilfallandi. Til að missa ekki markaðsaðgengi og halda stöðugu framboði var farið að nýta vinnsluaðferð Mývatnssilungsins á hágæða eldissilung með ágætis árangri. Slíkt gerði kleift að halda uppi framleiðslu án tillits til aðstæðna í vatninu sem um árabil voru mjög erfiðar.
Búreksturinn var rekinn að hluta á Geiteyjarströnd, en samhliða í Reynihlíð, skammt norðan Reykjahlíðarþéttbýlisins og er þar enn. Aðstæður í Mývatnssveit, þar sem fremur lítið er af túnakosti og byggð stendur í um 300 metra hæð yfir sjávarmáli, eru nokkuð erfiðar og árið 2010 var brugðið á það ráð að fækka fé verulega og einblína heldur á verðmætasköpun og almenna ánægju af búskapnum. Nú er almennur rekstur búsins á höndum Daða Lange Friðrikssonar, landnýtingar- og búfræðings.
Gistihúsið Dimmuborgir var sett á laggirnar 2005 og hefur verið byggt upp í áföngum af börnum Héðins og mökum þeirra. Árið 2020 samanstóð það af um 60 rúmum í 9 sumarhúsum og 8 herbergjum með baði.
Reykhúsið á Geiteyjarströnd
Reykhúsið á Geiteyjarströnd er landsþekkt fyrir einstakan reyktan Mývatnssilung. Framleiðsluaðferin byggir á aldagamalli hefð. Silungurinn er þverskorinn, þurrsaltaður af kostgæfni, þveginn upp úr köldu vatni og hengdur til þerris. Að því loknu er hann reyktur í 4-5 daga við taðreyk. Aðferð þessi þróaðist á tímum þar sem fyrst og síðast var verið að huga að geymsluaðferð, en hefðin hefur lifað og bragðinu gleyma þeir ekki sem reynt hafa. Héðinn Sverrisson, reykmeistari, hefur þróað aðferðina lítillega á síðustu 50 árum en leggur mikla áherslu á að haldið sé í gömlu hefðina um vandlega og rólega meðhöndlun, en stundum líkir hann afurðinni við handverk eða listaverk fremur en matvæli. Reykhúsið byggði Héðinn árið 1979 og enn er í meginatriðum verið að gera sömu hlutina þar innandyra, rúmum 40 árum siðar.
Að lokinni vinnslu er silungurinn snyrtur, pakkaður og seldur um land allt. Þá er hann ómetanlegur hluti gististarfseminnar og vekur sérstaka athygli erlendra matgæðinga og fólks sem er fróðleiksfúst um sögu og menningu matarins.
Gistiheimilið Dimmuborgir
Ferðamenn hafa sótt Mývatnssveit heim í nokkrum mæli allt frá lokum síðari heimsstyrjaldarinnar. Fjöldi þeirra hefur aukist mikið síðasta áratuginn, en árið 2005 tók fjölskyldan á Geiteyarströnd að taka á móti gestum. Í upphafi voru byggð 4 smáhýsi, með útsýni yfir Mývatn til vesturs en til austurs er Hverfjall ráðandi kennileyti. Á þeim tíma var algengt að gestakomur væru nánast eingöngu bundnar við sumartímann og starfsemin því mjög árstíðabundin.
Smám saman síðustu 15 árin hefur verið byggt við gististarfsemina sem nú er rekin allt árið og rúmar um 60 manns í 9 sumarhúsum og 8 herbergjum með baði. Áherslan hefur frá upphafi verið á að taka einstaklega vel á móti fjölskyldufólki með náttúruupplifun, kyrrð og sveitarómantík í fyrirrúmi. Hápunktur margra er að geta snætt morgunverð sem inniheldur kræsingar frá búinu og Reykhúsinu og notið stórbrotins útsýnis yfir Mývatn.
Í dag
Hjá Geitey starfa á bilinu 4 til 10 starfsmenn á ársgrundvelli við búskap, fiskvinnsluna og ferðaþjónustuna og má segja að reksturinn sé ágætt dæmi um það hvernig fjölskylda getur skapað verðmæti og störf með samblöndu hinna hefðbundnu atvinnugreina og ferðaþjónustu sem hleypt hefur miklu lífi í Mývatnssveit.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd