Genís ehf

2022

Stofnendur, eigendur og stjórnendur Genís ehf.
Athafnamaðurinn og Siglfirðingurinn, Róbert Guðfinnsson er stofnandi og stærsti eigandi líftæknifyrirtæksins Genís. Stjórnendur fyrirtæksins eru Róbert Guðfinnsson sem forstjóri, Gunnhildur Róbertsdóttir sem yfirmaður upplýsingatækni og markaðssetningar, Jón Garðar Steingrímsson sem framkvæmdastjóri framleiðslu og Dr. Þorlákur Jónsson sem yfirmaður vísindasviðs.

Sagan
Óumflýjanleg aukaafurð rækjuvinnslu er rækjuskel sem lengi vel var urðuð á Íslandi. Hugmyndin að byggingu verksmiðju til að vinna kítín úr rækjuskel á Íslandi á uppruna sinn hjá Ágústi Sveinbjörnssyni, efnaverkfræðingi Genís í Bandaríkjunum. Kítínverksmiðja var tekin í notkun árið 1999 á Siglufirði sem síðar var að Primex, en þá var Róbert einn af eigendum Þormóðs ramma og þar með Primex og rækjuvinnslunnar. Róbert stofnaði Genís upp úr þróunardeild Primex árið 2005 og fjármagnaði sjálfur frumrannsóknir á sviði lífefna- og líffræði. Rannsóknafasinn stóð yfir í um áratug og framleiðslueining innan fyrirtækisins var sett á laggirnar á Siglufirði árið 2014. Árið 2018 var rannsóknarsdeild fyrirtækisins flutt norður á Siglufjörð og er nú öll kjarnastarfsemi fyrirtækisins þar. Vörustofn fyrirtækisins eru svokallaðir meðferðartengdir kítínfásykrungar (T-ChOS, e. therapeutic chitooligosaccharides) sem þróaðir hafa verið af fyrirtækinu. Vörustofninn hefur svo nýst í þróun á fæðubótaefninu Benecta®, næringarlyfinu (e. nutraceutical) SimeCOS og nú að lyfjum.
Starfsemin Genís með tillit til vöruþróunar er hægt að skipta niður í þrjá fasa; þróunarfasa, framleiðslufasa og nú er fyrirtækið statt í markaðs- og sölufasa. Vöruþróunarfasinn hófst með frumrannsókum á sviði lífefna- og líffræði, þar sem þróa þurfti samtímis meðferðartengda kítínfásykrunga, framleiðsluaðferðir ásamt greiningaraðferðum enda bæði varan og framleiðslan mjög sérhæfð. Hlutverk starfsmanna fyrirtækisins á frameiðslufasa hefur verið að sýna fram á að hægt sé að framleiða á áreiðanlegan og hagkvæman máta. Í dag afhendir Genís frá sér fæðubótarefni undir 7 vörurnúmerum úr 3 vöruflokkunum (Benecta® Regular, Benecta® Osis og Second half plus), næringarlyf fyrir klínískar rannsóknir og vinnur nú að því að aðlaga framleiðsluaðstöðuna að lyfjaframleiðslu til að afhenda efni fyrir fyrstu hluta klínískra rannsókna. Starfsmenn Genís annast val og öflun á aðföngum sem nauðsynleg eru fyrir starfsemina sjálfir. Íslenskir lykilbirgjar eru kannaðir gaumgæfilega en þeir sjá fyrirtækinu fyrir helstu rekstrarvöru þar sem gæði vöru og áreiðanleiki í afhendingum skiptir Genís mestu máli. Birgðakeðjan er sterkust í Evrópu en nær einnig til birgja í Asíu.

Vöruflokkar
Benecta® hefur í nokkur ár verið eitt mest selda fæðubótarefni á Íslandi. Benecta® Regular er ætlað breiðum hópi fólks í hækkandi aldri og fyrir þá sem vilja ekki slá slöku við. Varan er einnig vinsæl meðal íþróttamanna þar sem endurheimt skiptir máli. Benecta® Regular er orkuaukandi og flýtir fyrir endurheimt. Hægt er að fá Benecta® Regular í hylkjum og freyðitöfluformi. Benecta® Osis er fyrir einstaklinga með slæma túrverki og legslímuflakk (endometriosis). Við mælum með því að taka vöruna að staðaldri, því innihaldsefni Benecta® Osis stuðla að eðlilegri starfsemi ónæmiskerfsins, draga úr þreytu og viðheldur eðlilegri vöðvastarfsemi. Second Half plus var hannað eftir fjölda fyrirspurna einstaklinga úr hópi viðskiptavina Genís sem vildu að Benecta yrði aðgengilegt fyrir aldraða hunda sína. Samsetning Second Half plus er gerð með þarfir aldraðra hunda sem sýnt er að finni fyrir verkjum eða sársauka. Vörunni hefur verið vel tekið enda þekkja dýrin ekki lyfleysuáhrif og er talað um að margur aldraður hundurinn sé farinn að hreyfa sig meira og örar.

Sérstaða
Genís situr að sérhæfðri þekkingu á greiningar- og framleiðsluaðferðum á umbreytingu á kítíni yfir í meðferðartengda kítínfásykrunga. Alþjóðlega virk einkaleyfi og á Siglufirði geymd viðskiptaleyndarmál tryggja fyrirtækinu samkeppnishæfni við framleiðslu.

Fjöldi starfsmanna og aðsetur
Lengi vel störfuðu einungis þrír starfsmenn hjá Genís en í dag starfa um 25 einstaklingar hjá Genís með fjölbreytta menntun og reynslu. Genís er þekkingarfyrirtæki og því er hátt hlutfall háskólamenntaðra hjá fyrirtækinu. Genís hefur aðsetur á Siglufirði. Vefsíða fyrirtækisins er www.genis.is og fæðubótarefnanna www.benecta.is.

Staðan í dag og framtíðarsýn
Í dag leitar fyrirtækið að frekari fjárfestum til næstu skrefa. Fyrirtækið býr yfir gríðarlega sérhæfðri þróunar- og framleiðsluþekkingu eins og er.
Stefnan er að auka hlutdeild fyrirtækisins í sölu fæðubótarefna til erlendra markaða og takast á við áskoranir lyfjaþróunar og því er útlit er fyrir að það þurfi að margfalda starfsmannafjöldann. Velta fyrirtækisins hefur aukist á milli ára en Genís hefur enn ekki skilað hagnaði. Genís er aðili að Samtökum iðnaðarins og Samtökum atvinnulífsins.

Markaðs- og samfélagsmál
Reynslumarkaðssetning á Íslandi sem veitir nálægð við neytendur. Á Siglufirði er til að merkja mjög hátt hlutfall reglulegra neytenda sem flýtir gríðarlega fyrir endurgjöf á hversu vel samsettar og aðlaðandi vörur fyrirtækisins eru. Genís selur nú Benecta beint til einstaklinga í Bretlandi og Þýskalandi með netsölu. Markaðssetningin fer meðal annars fram í gegnum samfélagsmiðla, tölvupósta og greinaskrif. Með þessu móti ætlar Genís að ná fram góðri kynningu á sínum vörum, stilla af verð og gefa hugmyndir um væntanlegar vörur. Covid-19 sett strik í starfsemi fyrirtækisins sem stefndi á aukna markaðssetningu á árinu 2020 sem fresta þurfti. Genís sinnir nýsköpun á landsbyggðinni og er innlegg í sjálfbærnilegu samhengi. Úrgangi er umbreytt í verðmæti þar sem umhverfi og samfélag njóta góðs af. Genís vill laða að sér hæfileikaríka einstaklinga og skapa velmegun, þar sem allir njóta góðs af; náttúra, samfélag, starfsmenn og hluthafar fyrirtæksins.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd