Sjóböðin á Húsavík er mikið mannvirki og hefur fengið lof vegna sérstakrar hönnunar og frábærs útsýnis út á Skjálfandaflóa. Sjóböðin standa við Húsavíkurvita að Vitaslóð 1. Það var þann 31. ágúst 2018 sem böðin opnuðu við hátíðlega athöfn, enda eftirvænting bæjarbúa og ferðamanna sem heimsækja bæinn mikil.
Saga Sjóbaðanna
Á Húsavík var borað eftir heitu vatni árin 1961-1966, tilgangurinn var sá að nýta átti vatnið til upphitunar á húsum bæjarins. Holan er 1506 m djúp og mældist hiti mestur 115°c á
1000-1300 metra dýpi. Eftir greiningu á vatninu kom þó í ljós að vatnið var of steinefnaríkt sem gerði það að verkum að ekki var hægt að nýta það til hitaveitu. Eiginleikar vatnsins, sem talið er vera 10.000-12.000 ára gamalt, er sérstakt að því leiti að það er einstaklega steinefnaríkt og vegna þess vaknaði áhugi hjá heimamönnum um mögulega nýtingu á vatninu til baða.
Árið 1992 hófust tilraunir með lækningarmátt vatnsins úr þessari tilteknu borholu. Þá sérstaklega fyrir fólk sem á við húðvandamál að stríða. Lágmarks aðstöðu var komið fyrir við borholuna og hefur staðið í svipuðu horfi síðan þá. Litlum skúr var komið fyrir til fataskipta ásamt sturtu og ostakari sem fengið var frá Mjólkursamlagi Þingeyinga á Húsavík. Baðstaðurinn fékk fljótlega nafngiftina „Ostakarið“. Orkuveita Húsavíkur lagði til dælubúnað frá holunni en einnig var lagt kalt vatn og rafmagn að svæðinu. Ostakarið hefur aldrei verið sérstaklega markaðssett en orðspor gerði hann að vinsælum áfangastað meðal ferðamanna og staðurinn þekktur sem frumlegur og einstakur baðstaður. Í dag er Ostakarið þó eingöngu ætlað þeim sem þurfa á því að halda og borga þau ársgjald til viðhalds á karinu og umhverfinu í kring. Gestum og gangandi er því bent á Sjóböðin, en Ostakarið lokaði fyrir almenning þegar Sjóböðin hófu starfsemi sína.
Vatnið
Vatnið í Sjóböðunum kemur frá tveimur borholum, önnur er við Ostakarið sem er um 99° heitt, það er svo kælt niður með sjó úr borholu við Norðurgarð, (danskalaug). Vatnið úr dönskulauginni var upprunalega 34-37° heitt en hefur þó lækkað örlítið á síðastliðnum tveimur árum. Mikið magn seltu í vatninu gerir það að verkum að fólk flýtur meira en í venjulegu vatni. Vegna efnainnihaldsins í vatninu, sem er mjög steinefnaríkt, þrífast óæskilegar bakteríur ekki, þess vegna þarf ekki að blanda klór eða öðrum sótthreinsi efnum í vatnið. Það er því einstaklega gott til heilsubótar, vatnið vinnur vel á húðsjúkdómum á borð við sóríasis og ýmsa kvilla sem valda bólgum. Vatnið úr laugunum flæðir yfir brúnir pottanna sem gefur útlit óendanleika laugar (e. Infinity pool) og endurnýjar vatnið sig á u.þ.b. þremur klukkustundum.
Vinnulag og framleiðsluferli
Íslendingar hafa í aldanna raðir notað jarðvarma landsins til baða, eins og flestir vita er Ísland eina landið í heiminum sem skiptist í tvennt, sökum jarðskorpuflekana, Norður-Ameríkuflekans annars vegar og Evrasíuflekans hins vegar. Ásamt því að vera einn fárra staða á jörðinni þar sem slíkt má greina á landi, þá sérstaklega á Þingvöllum. Flekarnir færast í sundur og eyjan stækkar örlítið ár hvert. Þessu fylgir að Ísland er gífurlega virkt eldfjallaland, enda sitja langflest eldfjöll jarðarinnar á þessum flekum. Fylgifiskur þessa flekaskila er mikill jarðvarmi, og á mörgum stöðum á landinu eru heitar laugar opnar almenningi.
Skipulag og sérstaða
Sjóböðin eru opin alla daga ársins og eru opnunartímar frá 12:00-22:00 vetrarmánuðina og frá 11:00-23:00 á sumrin. Breyttir opnunartímar taka svo gildi á sérstökum dögum á borð við jól, páska, áramót og þar fram eftir götunum. Sérstaða Sjóbaðanna er svo sannarlega vatnið í laugunum ásamt frábæru útsýni og fallegri hönnun. Á útisvæðinu eru þrjár laugar, ein við útgang klefanna, önnur stærri í vestur, ásamt barlaug þar sem hægt er að panta sér drykki og veitingar. Sjóböðin geta tekið á móti 160 gestum í einu.
Framtíðarsýn
Sjóböðin ætla að halda áfram að þjónusta sína viðskiptavini allan ársins hring, ásamt því að styðja við ferðamannaiðnað á svæðinu. Árið 2019 fengu Sjóböðin í kringum 60.000 gesti, vonin er að það met verði bætt á komandi árum. Á fyrsta heila starfsári baðanna voru umfjallanir á mörgum heimsfrægum miðlum vonum framar. Þar ber helst að nefna fóru þau á lista „World‘s greatest places 2019“ hjá Time Magazine, einnig var löng og ítarleg umfjöllun um böðin í Vogue Magazine. Sjóböðin unnu einnig til verðlauna á innlendum markaði, stjórnarformenn tóku við Nýsköpunarverðlaunum Íslands frá Samtökum Ferðaþjónustunnar við hátíðlega athöfn á Bessastöðum. Markaðsstofa Norðurlands afhenti Sjóböðunum verðlaunin „Sproti ársins“ fyrir framúrskarandi þjónustu og nýjung í ferðaþjónustu á Norðurlandi.
Mannauður og starfsmannafjöldi
Unnið er eftir tólf tíma vaktafyrirkomulagi, almennir starfsmenn sjá um afgreiðslu, þrif, sölu á varningi og öllu sem tengist þjónustunni í böðunum. Sitthvor vakthafandi starfsmaður stjórnar hverri vakt fyrir sig og vinna þau í samstarfi við þjónustustjórann Sólveigu Ásu Arnarsdóttur. Á veturna eru fjórir starfsmenn sem sinna þjónustustörfum, ásamt hlutastarfsfólki. Aftur á móti á sumrin eru tíu eða fleiri fastráðnir starfsmenn, fimm á hverri vakt, ásamt hlutastarfsfólki. Framkvæmdastjóri er Sigurjón Steinsson.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd