Gilbert úrsmiður – Fagmaður í yfir 50 ár
JS Watch Co. Reykjavik úrin eru íslensk frá grunni. Þau eru hönnuð hér heima á Íslandi. Allir íhlutir úrsins eru síðan sérframleiddir í sérhæfðum verksmiðjum í Þýskalandi og Sviss og settir saman hér á landi undir ströngu gæðaeftirliti Gilberts Ó. Guðjónssonar úrsmiðameistara sem nýtir áralanga þekkingu og reynslu sína af úrsmíði til að tryggja að hvert og eitt úr standist ströngustu kröfur.
Frá upphafi framleiðslunnar var leitast við að sameina, glæsilega hönnun, gæði, fyrsta flokks mekanísk úrverk og falleg armbönd. Sérstaða úranna á íslenskum markaði ásamt persónulegri þjónustu og árangursríku markaðs- og kynningarstarfi hefur leitt til þess að úrin hafa orðið eftirsótt bæði hérlendis og erlendis. Áhugi á vönduðum armbandsúrum hefur aukist jafnt og þétt og sjálftrekkt armbandsúr framleidd í dag eru betri og vandaðri en nokkru sinni fyrr. Kröfuharðir viðskiptavinir kjósa sér armbandsúr sem er ekki eingöngu tímamælir, heldur einnig fallegur skartgripur, smíðaður eftir aldagamalli hefð.
Þann 8. nóvember 2005 stofnuðu Grímkell Pétur Sigurþórsson, Sigurður Björn Gilbertsson og Júlíus Steinar Heiðarsson formlega JS Watch Co. Reykjavik. Stofnendur eru hönnuðir og hugmyndasmiðir úranna. Hugmynd fyrirtækisins var frá upphafi að framleiða klassísk tímalaus úr sem væru fullkomlega samkeppnishæf við þekkt erlend hágæða merki þar sem notagildi og gæði færu saman. Framleiðslan er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og fékk strax frá upphafi frábærar viðtökur.
Úrsmíðameistari
Úrsmíðameistari og gæðastjóri JS er Gilbert Ó. Guðjónsson sem landsmenn þekkja fyrir vandaða þjónustu síðustu 50 ár. Hann er einnig einkasöluaðili JS Watch Co. Reykjavik á Íslandi. Hjá honum geta viðskiptavinir rætt við úrsmiðina sem framleiða úrin og fengið þannig einstakt tækifæri til að kynnast úrinu sem þeir eða þeirra nánustu munu bera um ókomin ár.
Hjá Gilbert úrsmið fást einnig hin vönduðu ARC-TIC Iceland úr sem hafa verið mjög vinsæl og eru hönnuð af sama teymi. ARC-TIC Iceland úrin eru vönduð klassísk rafhlöðuúr með svissnesku quartz gangverki fyrir bæði dömur og herra.
Gilbert byrjaði að læra úrsmíði árið 1967 og hefur rekið úra- verslanir á nokkrum stöðum en er búinn að vera á Laugaveginum í yfir 40 ár. Gilbert úrsmiður hefur í gegnum árin, ásamt fleirum, tekið ríkan þátt þátt í að byggja upp verslun í miðbæ Reykjavíkur. Persónuleg þjónusta og góð vöru þekking er aðalsmerki verslunarinnar og þjónustustig er til fyrirmyndar þar sem viðskiptavinir eiga kost á að hitta framleiðendur, fá að sjá úrsmiði að störfum og koma með ábendingar varðandi samsetningu og útlit þeirra úra sem þeir hyggjast kaupa. Viðskiptavinir geta óskað eftir einkaheimsókn komist þeir ekki í verslunina á hefðbundnum opnunartíma. Heildstæð áferð og framúrstefnuleg ásýnd markaðs- og kynningarmála JS Watch co. Reykjavík hefur einnig vakið athygli bæði innanlands og utan.
Árið 2009 var Gilbert úrsmiður tilnefndur sem Iðnaðarmaður ársins og árið 2013 var honum afhentur Njarðarskjöldurinn sem viðurkenning Reykjavíkurborgar fyrir að vera ferðamannaverslun ársins.
Sérstaða
Sérstaða úranna á íslenskum markaði ásamt persónulegri þjónustu og árangursríku markaðs- og kynningarstarfi hefur leitt til þess að úrin hafa orðið eftirsótt meðal heimsfrægra einstaklinga sem hafa komið til landsins. Meðal þekktra einstaklinga má til gamans nefna Gordon Ramsey, Ed Sheeran, Ben Stiller, Tom Cruise, Quentin Tarantino, Jude Law, Viggo Mortensen, Mads Mikkelsen, Tobey Maguire, Dennis Quaid, Elvis Costello, Ian Anderson, Yoko Ono, Sean Lennon, Dalai Lama, Katie Couric, Vinnie Jones og Constantine Grikklandskonung.
JS Watch Co. Reykjavik hefur einnig unnið með nokkrum af fremstu listamönnum þjóðarinnar þar sem þeir voru fengnir til að skreyta skífur glæsilegra úra ásamt öskjunni utan um úrin og skapa þannig glæsileg listaverk sem ekki eiga sér hliðstæðu hér á landi og bjóða þau upp til styrktar Krafti, stuðningsfélagi ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandenda þeirra og safna þannig peningum þar sem allur ágóði af uppboðinu runnu óskert til Krafts. Boðin hafa verið upp úr sem skörtuðu listaverkum eftir Erró, Eggert Pétursson, Tolla og Línu Rut og er því um afar sérstaka skartgripi að ræða sem munu án efa vekja eftirtekt og aðdáun um ókomna tíð.
Einnig hafa verið framleidd úr í takmörkuðu upplagi fyrir ýmsa viðburði á Íslandi og má þar nefna EM úrið sem var framleitt árið 2016 sérstaklega fyrir strákana í íslenska landsliðinu í fótbolta þegar þeir tryggðu sig inn á stórmót í fyrsta skipti í sögu Íslands og síðan HM úrið í framhaldinu þegar þeir tryggðu sig í fyrsta skipti inn á heimsmeistaramótið í fótbolta árið 2018.
Framtíðin
Það má því segja með sanni að síðustu ár hjá Gilbert úrsmið og JS Watch Co. Reykjavik hafi verið einstaklega áhugaverðir tímar og úrvalið af íslenskum úrum aldrei verið meira að ógleymdum öllum þeim spennandi verkefnum sem eru á teikniborðinu fyrir framtíðina.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd