Globus hf.

2022

Globus hf. var stofnað 11. janúar árið 1947. Stofnandi fyrirtækisins ásamt fleirum var Einar Egilsson og veitti hann því forstöðu fyrstu árin, en seldi síðan fyrirtækið til Heklu hf.
Viðskipti Globus fyrstu árin byggðust fyrst og fremst á sölu á ýmsum snyrtivörum eins og t.d Gillette rakvörum, en fyrirtækið hafði umboð fyrir það fyrirtæki í nærri 60 ár.

Sagan
Árið 1956 kaupir Árni Gestsson ásamt fjölskyldu allt hlutafé í Globus hf. en Árni hafði um árabil unnið hjá Heklu. Árni varð forstjóri félagsins frá þeim tíma og allt til ársins 1988, en gerðist þá stjórnarformaður félagsins. Á fyrstu árum félagsins var reksturinn ekki stór í sniðum. Aðallega voru fluttar inn vörur frá Gillette, en snemma var hafinn innflutningur á ýmsum landbúnaðartækjum og varð fyrirtækið fljótlega leiðandi í því að kynna nýjungar á því sviði fyrir bændum.
Árið 1969 stofnuðu forráðamenn Globus hf. fyrirtækið Íslensk-tékkneska verslunarfélagið (Ístékk) með það að markmiði að flytja inn vörur frá Tékkóslóvakíu þar á meðal Zetor dráttarvélar, en þær urðu á fáum árum langvinsælastu dráttarvélarnar á Íslandi.
Globus hf. var í upphafi rekið í 50 fm húsnæði við Hverfisgötu, en með vaxandi umsvifum voru fest kaup á 200 fm húsnæði við Vatnsstíg og var fyrirtækið þar til húsa til ársins 1966 þegar flutt var í nýbyggingu fyrirtækisins að Lágmúla 5. Það hús var byggt í nokkrum áföngum og var síðasti hlutinn, sem hýsti verkstæði og varhlutalager tekinn í notkun árið 1982.
Fyrirtækið stækkaði ört og varð með tímanum einnig umfangsmikill innflytjandi á bifreiðum. Árið 1973 var hafinn innflutningur á Citroen bílum og árið 1987 bættist SAAB við og loks Ford árið 1990. Þegar rekstur Globus hf. var umsvifamestur á síðari helmingi níunda áratugarins og í byrjun þess tíunda unnu um 100 manns hjá fyrirtækinu og var það rekið í 6 deildum: Heildsöludeild, búvörudeild, vinnuvéladeild, bíladeild, verkstæði og varahlutadeild og loks áfengis- og tóbaksdeild.

Reksturinn
Í byrjun tíunda áratugarins breyttist efnahagsástandið til hins verra og fór Globus h.f ekki varhluta af því. Var brugðist við miklum samdrætti í sölu á vörum fyritækisins með því að draga saman seglin og voru bíla og búvörudeildir seldar sem og verkstæði og varahlutadeildir. Loks var heildsöludeildin seld árið 2006. Húsnæðið að Lágmúla 5 var síðan selt í áföngum.
Í kjölfar endurskipulagningar er kjarnastarfsemi félagsins sala á áfengi og tóbaki og er Globus hf. í dag einn umsvifamesti innflytjandi á því sviði á Íslandi.
Sala fyrirtækisins hefur aukist ár frá ári og nam árið 2020 tæplega fjórum milljörðum króna. Góður hagnaður hefur verið af rekstri mörg undanfarin ár.
Heimasíða féalgsins er: www.globus.is þar sem eru greinagóðar lýsingar á öllum þeim gæðavínum, sem fyrirtækið flytur inn frá öllum heimsálfum.
Mannauður
Globus hf. hefur átt því láni að fagna að hafa haft í þjónustu sinni einvala lið starfsfólks, sem sumir hverjir hafa unnið hjá fyrirtækinu í áratugi.

Eigendur og stjórnendur
Framkvæmdastjóri félagsins er Börkur Árnason, en hann tók við því starfi árið 1995.
Globus hf. er enn í dag fjölskyldufyrirtæki í eigu barna og afkomenda Árna Gestssonar og konu hans Ástu Jónsdóttur.
Stjórn félagsins skipa nú eftirtaldir:
Pétur Guðmundarson, formaður
Gestur Árnason, ritari
Börkur Árnason, meðstjórnandi
Ásta Árnadóttir, meðstjórnandi
Arna Kristjánsdóttir, meðstjórnandi

Aðsetur
Félagið hefur verið til húsa að Skútuvogi 1f í Reykjavík frá árinu 1996.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd