Gók húsasmíði ehf

2022

Fyrirtækið var stofnað í Bolungarvík af húsasmiðnum Guðmundi Óla Kristinssyni árið 2002, en eftir að Jón Steinar, sonur Guðmundar, lauk námi árið 2004 hafa þeir feðgar stýrt fyrirtækinu saman. Skammstöfunin GÓK vísar auðvitað til Guðmundar Óla, sem ólst upp á Dröngum á Ströndum, en fluttist til Bolungarvíkur árið 1979 hvar hann hefur unnið við smíðar síðan. Fyrirtækið er alhliða byggingafyrirtæki sem hefur tekið að sér fjölbreytt verk um land allt, og jafnvel út fyrir landssteinana, en mest á Vestfjörðum. Í gegnum tíðina hafa ávallt verið milli 6-8 starfsmenn hjá fyrirtækinu. Þá má einnig nefna að feðgarnir hafa rekið litla útgerð samhliða smíðunum, á sömu kennitölunni, en þeir hafa stundað strandveiðar á fimm tonna trillu frá því árið 2009. Trillan heitir Jagger, skýrð beint í höfuðið á hinum seiðmagnaða söngvara Rolling Stones, Mick Jagger, en Guðmundur Óli (og síðar Jón Steinar), er mikill aðdáandi sveitarinnar og má sjá þess merki víða á verkstæðinu sem og á merkingum bifreiða fyrirtækisins.  Verkstæði GÓK stendur við Hafnargötu 14, en fyrirtækið á einnig rúmgóða skemmu annars staðar í Bolungarvík sem meðal annars er nýtt fyrir geymslu og uppsetningu ýmissa verkefna.

Frá stafverki til stærsta stálgrindarhúss Vestfjarða
Meðal helstu verka fyrirtækisins í gegnum tíðina er fyrsta viðbyggingin við fiskverkun Jakobs Valgeirs ehf. árið 2006, stækkun Hraðfrystihússins Gunnvarar í Hnífsdal og varaaflstöð Landsnets í Bolungarvík, uppbygging á vinnsluhúsum fyrir Arnalax í Tálknafirði og á Bíldudal, ásamt fjölda annarra minni verka í gegnum tíðina. Frá því í ágúst 2020 hefur fyrirtækið unnið að sínu stærsta verki til þessa, en það er stækkun á  húsnæði fiskverkunar Jakobs Valgeirs í Bolungarvík, sem er stærsti vinnuveitandinn á svæðinu. Um er að ræða stærsta stálgrindarhús á Vestfjörðum, alls 1250 fm. Grunnflötur hússins er 25×50 metrar og mun hýsa tvo tveggja tonna lausfrysta, sem og skrifstofur á efri hæð. Sáu starfsmenn GÓK um allan uppslátt, járna- og steypuvinnu, (utan pússningar á plötu) og höfðu umsjón með samsetningu og klæðningu hússins, en aðrir verktakar komu þar einnig við sögu.

Viðheldur verðmætri verkkunnáttu
Guðmundur Óli hefur sérhæft sig í fornaldarsmíði hvar engir naglar, skrúfur eða nýmóðins rafmagnsverkfæri koma við sögu, en slík aðferð nefnist einnig stafverk. Við slíka iðju er einungis stuðst við handverkfæri og hefur fyrirtækið meðal annars sinnt endurbótum á Salthúsinu á Þingeyri, Hólskirkju í Bolungarvík, Eiríksbæ í Haukadal og Eiríksbæ á Grænlandi, byggt fjórar stafkirkjur, verbúðina Ósvör, Litlabæ í Skötufirði, Hraunskirkju í Keldudal og gert upp gamla báta fyrir Þjóðminjasafnið og Byggðasafnið á Ísafirði, með slíkri aðferð. Hefur Guðmundur hlotið nokkra fjölmiðlaumfjöllun vegna sumra þessara verka, enda er slík verkkunnátta ekki á færi allra, líkt og hann greindi sjálfur frá í Landanum á RÚV: „Það er svolítið spennandi að koma þessu áfram til annarra. Verkþekking á Íslandi ekki í hávegum höfð,“  hafði Guðmundur á orði árið 2017 í tilefni af smíði stafkirkju að norskri fyrirmynd sem setja átti upp í Færeyjum. 

Uppgangur framundan
Feðgarnir telja framtíðina bjarta í rekstri fyrirtækisins, hér eftir sem hingað til, ekki síst ef uppgangur fiskeldisins fær byr undir báða vængi líkt og horfur eru á.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd