Gosi Trésmiðja ehf. var stofnuð af Guðmundi Adolfssyni sem hóf nám í húsasmíði árið 1974. Sama ár stofnaði Guðmundur Trésmiðjuna Eik í Vestmannaeyjum. Árið 1978 útskrifaðist Guðmundur með burtfarapróf og sveinspróf frá Iðnskólanum í Vestmannaeyjum, auk þess sem hann lauk fyrsta stigi í Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum. Árið 1980 lauk Guðmundur öðru stigi skipstjórnarréttinda frá Stýrimannaskólanum í Vestmannaeyjum og meistararéttindum í húsasmíði árið 1988. Árið 1994 lauk Guðmundur síðan meistaraprófi í húsasmíði frá Iðnskólanum í Hafnarfirði. Eftir goslok tók Guðmundur virkan þátt í uppbyggingunni í Vestmannaeyjum með því að vinna að uppsteypu auk þess að sjá um innréttingar og almennt viðhald á húsum. Sú þekking og reynsla sem skapaðist við þessa uppbyggingu lagði grunninn að þeim smíðastörfum sem Guðmundur tók að sér eftir að hann sagði skilið við sjómennskuna árið 1983.
Starfsemin
Árið 1983 tók Guðmundur til starfa við húsasmíði á höfuðborgarsvæðinu. Reksturinn var fyrst um sinn undir hans eigin nafni þar sem áhersla var löggð á utanhússklæðningar á einbýlishúsum, raðhúsum, fjölbýlishúsum og skólum. Samhliða utanhússklæðningunum var unnið að almennu viðhaldi húsnæðis og nam starfsmannafjöldi á þessum tíma allt frá þremur til átta starfsmönnum. Fyrirtækið tók að sér fjölbreytt verkefni, svo sem að sjá um allt viðhald á Stýrimannaskólanum í Reykjavík, Fjölbrautaskólanum í Breiðholti, Menntaskólanum í Kópavogi, Hafnarfjarðarkirkju, fyrir Skógræktarfélag Reykjavíkur, fyrir Hafnarsamtökin í Hafnarfirði auk þess sem fyrirtækið sinnti öllu viðhaldi fyrir Sunnuhlíðarsamtökin í Kópavogi í 15 ár. Í áraraðir sá fyrirtækið jafnframt um viðhald og nýbyggingar fyrir Radíómiðun og eigendur þess. Árið 1992 voru fest kaup á iðnaðarhúsnæði og sett á fót trésmíðaverkstæði. Samhliða því var nafni fyrirtækisins breytt í Gosi Trésmiðja. Ýmis stór verkefni voru unnin á þessum árum og má þar helst nefna innréttingu á sviði og hljóðspeglum í Háskólabíó fyrir Sinfóníuhljómsveit Íslands, sem og heildar innréttingu á gjörgæsludeild Landspítalans við Hringbraut árið 1996. Sama ár var hafin starfsemi við útleigu fasteigna, en sú starfsemi átti eftir að verða ráðandi þáttur í starfsemi fyrirtækisins. Árið 1998 fór Gosi Trésmiðja inn á nýbyggingamarkaðinn og hófst handa við uppsteypu og innréttingar á nýbyggingum. Á sama tíma var starfsemin flutt undir eigin kennitölu og hefur sú kennitala verið notuð óslitið síðan í starfseminni. Það má segja að starfsemin í kringum Guðmund hafi verið farsæl og stórslysalaus allt frá stofnun Trésmiðjunnar Eik árið 1974 fram til dagsins í dag.
Framtíðin
Með mikilli útsjónarsemi og varfærni hefur tekist að byggja upp sterkt fyrirtæki með glæsilega sögu. Gosi Trésmiðja fékk nafnbótina Framúrskarandi fyrirtæki af Creditinfo árið 2018 en einungis 2% fyrirtækja landsins hljóta þessa nafnbót. Gosi Trésmiðja hélt þessari nafnbót árið 2019 og stefnir á að halda henni á næstu árum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd