GPG Seafood ehf.

2022

GPG Seafood ehf. er meðal stærstu og umfangsmestu framleiðenda saltfisks hér á landi. Fyrirtækið stundar jafnframt útgerð skipa og báta, ýmist í eigin nafni eða í félagi við aðra og er sá floti ýmist gerður út á línu, net eða troll. Meginhluti starfseminnar hefur frá upphafi verið til húsa að Suðurgarði 4-6, við höfnina á Húsavík. Reksturinn fer einnig fram á Raufarhöfn og Bakkafirði. Hjá GPG starfa í kringum 90 manns á sjó og landi og er meðaltalsveltan á ársgrundvelli um 4 milljarðar króna. Fyrirtækið er alfarið í eigu Gunnlaugs Karl Hreinssonar sem á jafnframt stóran eignarhlut í sjávarútvegsfyrirtækinu Þórsnes í Stykkishólmi sem hann eignaðist árið 2004. Félögin eru rekin alveg aðskilinn.

Bakgrunnurinn og upphafið
GPG Seafood dregur nafn sitt annarsvegar af upphafsstöfum útgerðarfyrirtæksins Geira Péturs og hinsvegar frá Gunnlaugi Karli Hreinssyni. Frá árinu 2005 hefur hann farið með 100% eignarhlut í fyrirtækinu. Gunnlaugur er fæddur á Húsavík árið 1966 og ólst þar upp við sjómennsku og fiskvinnslu. Árið 1990 útskrifaðist hann úr Stýrimannaskólanum og Fiskvinnsluskólanum. Eftir að námi lauk bjó Gunnlaugur í nokkur ár á Þórshöfn við Langanes og starfaði þar sem verkstjóri í hraðfrystihúsinu á staðnum. Eftir það var aftur sest að á Húsavík þar sem Gunnlaugur hóf starfsemi GPG fiskverkunar árið 1997 og þá í félagi við Sigurð Olgeirsson, útgerðarmann á rækjufrystitogaranum Geira Péturs ÞH-344.
Við stofnun GPG fiskverkunar árið 1997 voru fest kaup á 1100 fm húsnæði, sunnanmegin við Húsavíkurhöfn og átti eftir að bætast þar við 500 fm viðbygging sem fór að mestu undir kæliklefa. Þurrkun hausa og hryggja hófst árið 1999 og til að byrja með fór hún fram í leiguhúsnæði í Reykjahverfi í S-Þingeyjasýslu. Árið 2001 færðist sú starfsemi yfir í nærliggjandi húsnæði GPG fiskverkunar, þar sem áður hafði verið starfrækt Netagerð Húsavíkur.
Gunnlaugur var framkvæmdastjóri félagsins lengi vel en er nú stjórnarformaður fyrirtækisins og Gunnar Gíslason er framkvæmdastjóri frá því í september 2020.

Starfstöðvar og skip
Félagið er með 3 starfstöðvar, Húsavík, Raufarhöfn og á Bakkafirði. Frá upphafi hefur það verið meginhlutverk á Húsavík að verka saltfisk úr þorskafurðum sem síðan fara á markað á meginlandi Evrópu og frá árinu 1999 hefur fyrirtækið jafnframt þurrkað hausa og hryggi sem send eru til Afríku.
Á Raufarhöfn eru unnar léttsaltaðar þorskafurðir ásamt hrognavinnslu og á Bakkfirði eru unnin saltfiskflök.
GPG Seafood á fjögur skip/báta, línu og netaskipin Jökull ÞH 299 og Hörð Björnsson ÞH 264 og línubátana Háey II ÞH 275 og Halldór NS 302.

Afurðavinnslan
Vinnsla og verkun saltfisks hjá GPG Seafood fer fram með aldagömlu fyrirkomulagi, nema hvað að pökkunar- og framleiðslulínan hefur orðið sífellt fullkomnari í seinni tíð. Þorskurinn er flattur út, lagður í saltvatn (pækil) og er loks „lageraður“ í sérstökum saltkörum. Síðan tekur við tölvustýrt vinnsluferli með nákvæmum flæðivogum sem vigta og flokka hverja afurð eftir þyngd, útliti og gæðum. Helstu kaupendur á meginlandi Evrópu eru Miðjarðarhafsþjóðir eins og Spánn, Portúgal, Grikkland og Ítalía.
Mikil áhersla er lögð á fullnýtingu allra afurða hjá GPG. Þannig er hrogna- og lifrataka fastur þáttur í vinnslunni en hún fer hún eingöngu fram á Raufarhöfn. Hrognin koma að mestu úr loðnu, þorski og grásleppu og eru þau söltuð og fryst til útflutnings á Evrópu-, Ameríku- og Asíumarkað. Öll lifur sem til fellur er send til frekari vinnslu hjá ýmsum framleiðendum innanlands.
Allir hausar og hryggir sem falla til við vinnsluna eru þurrkaðir í sérútbúnum þurrkklefum sem sjá til þess að vörugæðin séu hin sömu árið um kring. Vinnulagið er með þeim hætti að afurðir eru lagðar á sérstakar grindur sem raðast hvor ofan á aðra og þannig er þeim keyrt í gegnum klefana. Þar heitu lofti blásið í gegn og þannig viðhelst stöðugt hitastig allan tímann. Heildartími þurrkunarferlis tekur um 6 daga. Að því loknu hefst hefðbundin pökkun tilbúinna afurða í strigapoka og eru þær sendar með flutningaskipum á Afríkumarkað.
Heildarmagn útfluttra afurða hjá GPG fiskverkun nemur um 6-8.000 tonnum á ársgrundvelli. Fyrirtækið er þó aðeins með aflaheimildir (kvóta) upp um 4000 tonn og því þarf að leigja töluverðan hluta þeirra til rekstrarins ásamt því að kaupa sjávarafurðir á fiskmörkuðum. Með því móti er starfseminni haldið gangandi allt árið.

Sala afurðanna
GPG Seafood selur að töluverðu leiti sínar afurðir sjálft, sem fara þá til viðskiptavina í Evrópu. Unnið hefur verið að því markvisst í mörg ár að hafa góð viðskiptasambönd beint við viðskiptavini og hafa þar með beinan aðgang að markaðsupplýsingum. Til að viðhalda góðum og öflugum viðskipasamböndum er farið í heimsóknir til viðskiptavina reglulega eða þeim boðið að koma að skoða framleiðsluna í vinnslum fyrirtækisins. Jafnframt er unnið með íslenskum söluaðilum sem selja afurðir GPG Seafood víða um heim. Starfsmenn félagsins eru einnig duglegir að sækja sjávarútvegssýningar á sínum helstu markaðssvæðum til að kynna sér nýjungar og efla tengslamyndum við sína viðskiptavini.

GPG Seafood fjárfestingar
GPG Seafood keypti helmingshlut í spænska fyrirtækinu ELBA árið 2017 og seldi það svo tveimur árum síðar til Iceland Seafood International og eignaðist þar með eignarhlut í því félagi.
GPG Seafood keypti í desember 2019 Halldór Fiskvinnslu á Bakkafirði ásamt bátnum Halldóri NS. Fiskvinnslan hefur verið sameinuð undir GPG Seafood. Á Bakkafirði er verið að vinna mest saltfiskflök inná markaði í suður Evrópu eftir að fjárfest var í nýrri flökunarvél.
GPG Seafood samdi um nýsmíði á nýjum línubát við Viking báta í mars 2020 og er áætlað að fá hann afhentan vorið 2021.
GPG Seafood fjárfesti í skipinu Nanoq í desember 2020 og mun skipið heita Jökull ÞH 299 og verður gerður út frá Raufarhöfn eins og Háey II og Hörður Björnsson.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd