Sveitarfélagið Grímsnes- og Grafningshreppur er í miðri Árnessýslu, 890 km2 að stærð.
Það varð til 1. júní 1998 við sameiningu tveggja hreppa, Grímsneshrepps og Grafnings-hrepps. Þéttbýliskjarni sveitarfélagsins er Borg og íbúar eru um 500. Mjög góð búsetuskilyrði eru í sveitarfélaginu og er það afar vinsælt svæði fyrir frístundahús. Framtíðarsýn sveitarfélagsins er að Grímsnes- og Grafningshreppur verði eftirsóknarvert svæði til búsetu, atvinnu, frístundaiðju og útivistar. Þar verði góð skilyrði fyrir atvinnustarfsemi og þjónustu og að fjölbreytni búsetukosta í sveit og þéttbýli verði styrkur svæðisins. Margir fallegir staðir eru í sveitarfélaginu og má þar nefna Hengilsvæðið, Sogið, Kerið, Úlfljótsvatn og Þrastaskóg. Í sveitarfélaginu er samrekin leik- og grunnskóli sem heitir Kerhólsskóli og vinnur hann í anda einstaklingsmiðaðra kennsluhátta, umhverfismenntar auk þess sem áhersla er lögð á list og verkgreinar. Á Borg við skólann er fullkominn íþróttasalur, vel búinn tækjasalur og mjög góð sundlaug með gufu, rennibraut, heitum pottum og vaðlaug.
Félags- og menningarmál
Félagsheimili sveitarinnar tók var opnað 1966 og er sannkölluð menningarmiðstöð. Vel búið félagsheimili með vistlegum salarkynnum. Öflug félagastarfsemi er í sveitarfélaginu og eru starfrækt um 12 mismunandi félagasamtök í Grímsnes- og Grafningshreppi. Kvenfélag Grímsneshrepps varð aldargamalt árið 2019, stofnað 1919 og var þeirra tímamóta minnst m.a. með útgáfu bókar um sögu félagsins. Ungmennafélagið Hvöt var stofnað 1907 og er því á meðal elstu ungmennafélaga landsins. Kvenfélög og ungmennafélög voru mikilvægur vettvangur fyrir fjölbreytta samfélagshjálp, félagsskap, skemmtun og íþróttir.
Avinnumál
Landbúnaður og garðyrkja eru mikilvægar atvinnugreinar og verktakar bjóða fjölbreytta þjónustu. Ferðaþjónusta er ört vaxandi, enda er sveitarfélagið hluti af hinum svokallaða Gullna hring sem er fjölsóttasta ferðamannasvæði landsins. Mjög fjölbreytt þjónusta er í boði; golfvellir, tjaldsvæði, frístundahús, hótel og gistiheimili, veitingastaðir, sundlaugar, veiði og húsdýragarður. Á Sólheimum hófst skipulagt starf við umönnun fatlaðra á Íslandi 1930 að frumkvæði Sesselíu H. Sigmundsdóttur. Þar er nú sjálfbært samfélag með um 100 íbúa, fjölbreytt starfsemi, þjónusta og menningarviðburðir.
Náttúra
Víða er falleg náttúra og fjölbreytt fuglalíf. Flest fjöllin eru móbergsfjöll sem hafa hlaðist upp í eldgosum undir jökli á ísöld, til að mynda Búrfell, Hestfjall og Mosfell. Grímsneseldstöðvakerfið er virkt jarðeldasvæði og öflug gos voru í Seyðishólum og Kerhól með tilheyrandi basalt hraunrennsli. Rauðamölin úr Seyðishólum er sérstök og nýtt á margvíslegan máta.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd