Fyrirtækið Grímur ehf. var stofnað á Húsavík árið 1990 af bræðrunum Helga og Ásgeiri Kristjánssonum, en að auki áttu foreldrar þeirra bræðra, Kristján Ásgeirsson og Erla Jóna Helgadóttir, auk systur þeirra, Þyri, hlut í fyrirtækinu frá fyrsta degi. Grímur var byggt upp af gömlum grunni vélsmiðjunnar Foss sem hafði farið í gjaldþrot, keyptu þeir feðgar þrotabúið og stofnuðu Grím ehf. Nafn fyrirtækisins var upprunalega notað á bát sem Kristján lét byggja ásamt föður sínum, Ásgeiri Kristjánssyni útgerðarmanni og síðar bæjarfulltrúa á Húsavík, sem þeir gerðu út um árabil. Helgi hefur séð um framkvæmdastjórn og daglegan rekstur fyrirtækisins frá upphafi á meðan Ásgeir fór lengst af með verkstjórn. Starfsmenn Gríms voru u.þ.b. 7-8 fyrstu árin og fólust verkefnin aðallega í viðhaldi fiskiskipa og smábáta, viðhaldi virkjana Landsvirkjunnar í Kröflu og við Laxá, viðhaldi Kísiliðjunnar við Mývatn auk fjölda annarra stórra og smárra verkefna fyrir fyrirtæki og einstaklinga á Húsavík og nærsveitum. Var fyrirtækið með reynslumikla vélvirkja og járnsmíðameistara og þokkalega vel tækjum búið til helstu viðhalds og nýsmíðaverka. Starfstöð Gríms er í húsnæði sem eigendur Foss létu byggja árið 1984 og er staðsett á milli Garðarsbrautar og Marabrautar á Húsavík. Hafa margir reynslumiklir starfsmenn lagt hönd á plóg við að koma fyrirtækinu í gegnum þau 30 ár sem það hefur verið starfrækt. Væri of langur listi að telja þá alla upp, en þeir sem störfuðu hvað lengst við verkstjórn má nefna auk Ásgeirs, þá Ásmund Halldórsson, Rafn Stefánsson og Jósep Sigurðsson. Nokkrir starfsemenn, sem áður störfðu á Fossi, héldu áfram sinni iðju með þeim Helga og Ásgeiri á Grím. Má þar nefna Þorgrím Björnsson, Hermann Ragnarsson, Daníel Aðalsteinn Jónsson, Dagbjart Sigtryggsson, Hrafnkel Sigurðsson og Stefán Sveinbjörnsson auk Ásmundar sem allir störfuðu á Grím vel á annan áratug allt til síðasta starfsdags og skiluðu ómetanlegu starfi fyrir fyrirtækið. Í lok árs 2016 urðu miklar breytingar á eigendaskipan Gríms þegar Helgi keypti alla eignarhluti í fyrirtækinu af bróður sínum, föður og systur. Er hann í dag einn eigandi Gríms ehf.
Starfsemi og verkefni
Á síðustu árum hefur fyrirtækið fjárfest umtalsvert í nýjum tækjum. Var keyptur 90t krani, nýr 50tm krani á kranabíl fyrirtækisins og skotbómulyftari auk þess sem keypt var ný tölvustýrð plasmaskurðarvél sem eykur afköst og nákvæmni til muna. Einnig hafa ýmiss önnur tæki á verkstæði verið endurnýjuð og stækkuð. Fyrirtækið hefur einnig lagt mikið metnað í aukna menntun og réttindi starfsmanna sinna og hefur í dag yfir að ráða mjög færum og reynslumiklum vélvirkjum, vottuðum suðumönnum og verkfræðingi sem sér um útreikninga og teikningar við nýsmíði. Grímur hefur þurft að þola miklar sveiflur í sínu starfumhverfi frá því fyrirtækið var stofnað. Fólust breytingarnar fyrst í uppgjöf stórra fyrirtækja á svæðinu eins og útgerðarfyrirtækja, kaupfélags KÞ, Kísiliðjunnar og inná milli samdrætti í framkvæmdum á vegum sveitafélagsins og ríkisfyrirtækja, en síðar mikilli aukningu á ýmsum verkefnum í tengslum við byggingu kísilvers PCC. Hefur rekstarumhverfi Gríms tekið miklum breytingum með tilkomu aukinna fjárfestinga og framkvæmda á hinum ýmsum sviðum atvinnulífsins bæði í iðnaði en einnig í tenglsum við aukningu ferðamanna. Á árinu 2019 voru starfsmenn fyrirtækisins á milli 15 og 20 en á árunum þar á undan fór starfmannafjöldinn allt yfir 30 þegar talsvert var um stór verkefni sem kröfðust mikils mannafla. Verkefni Gríms eru í dag fjölbreytt sem endranær. Landsvirkjun hefur aukið við starfsemi sína á svæðinu með byggingu gufuaflsvirkjunar á Þeistareykjum og bætt við orkustöð í Bjarnarflagi í Mývatnssveit, viðhald skipaflotans hefur að miklu leiti færst úr fiskibátum yfir í Hvalaskoðunarbáta, mikil viðhalds og nýsmíðarvinna er í tengslum við kísilver PCC auk smíða og uppsetninga á göngupöllum við Dettifoss og Heimskautsgerðið, svo fátt eitt sé nefnt. Er fyrirtækið í dag mun betur í stakk búið en áður til að taka að sér fjölbreytt verkefni, hvort heldur sem er við smíðar, viðhald, flutninga og hífingar en einnig er fyrirtækið með góðan lager af járnaefni, áli, fittings og slöngum þegar bregðast þarf skjótt við og leysa málin með stuttum fyrirvara.
Framtíðarsýn
Eigandi fyrirtækisins lítur nokkuð björtum augum á komandi misseri. Starfsemin mun halda áfram með sama sniði og áður þar sem fyrirtækið er til húsa í dag. Vegna aukinnar útþennslu fyrirtæksins sl. ár hefur engu að síður verið litið til þess möguleika að færa starfsstöð Gríms á hentugra og stærra svæði fyrir slíka starfsemi, ekki er þó útlit fyrir að af því verði á næstu árum.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd