Grindavík er rótgróinn sjávarútvegsbær á sunnanverðum Reykjanesskaga. Helsta einkenni skagans er einstök náttúra og fjölskrúðugt landslag sem mótast af flekaskilum Evrasíuflekans og Norður-Ameríkuflekans. Þá einkennist svæðið af mikilli orku og nálægð við hrá náttúruöflin. Reykjanesskaginn er um ýmis atriði sérstakt land í jarðfræðilegu tilliti. Hann er allur myndaður af jarðeldi og það á tiltölulega stuttum tíma. Jarðhiti er víða á skaganum og mikil not eru af þessari ómetanlegu auðlind. Grindavíkurbær fékk kaupstaðarréttindi árið 1974 og voru íbúar þá um 1600. Síðan hefur bærinn vaxið og dafnað jafnt og þétt. Í ársbyrjun 2010 voru íbúarnir 2837 og réttum 10 árum síðar voru þeir 3512. Fjölgunin var því 23,8% á þessum áratug.
Sagan
Landnámsmenn í Grindavíkurhreppi voru tveir. Molda-Gnúpur Hrólfsson nam Grindavík og Þórir haustmyrkur Vígbjóðsson nam Selvog og Krýsuvík. Erfitt er að ársetja landnám Grindavíkur nákvæmlega en talið að Gnúpur, eða ættmenn hans, hafi komið til Grindavíkur á fjórða tug 10. aldar og líklega valið sér vetursetu í námunda við Hópið. Grindavík var fyrst og fremst verstöð. Vinnubrögð, siðir og venjur sem sjósókninni tengdust voru með líkum hætti öldum saman og á landi var einnig flest í sömu skorðum árhundrað eftir árhundrað. Grindavík liggur fyrir opnu hafi þar sem brimaldan gengur óbrotin á land. Hafnarskilyrði voru nánast engin frá náttúrunnar hendi. Sjósókn var frá fyrstu tíð erfið og áhættusöm frá Grindavík en þaðan var þó jafnan mikið útræði, meðal annars lengi á vegum Skálholtsstóls. Stærð og þyngd bátanna takmarkaðist þess vegna löngum af því að hægt væri að setja þá á land. Það olli því meðal annars að vélar komu mun seinna í báta í Grindavík en víða annars staðar á landinu, þar sem hafnarskilyrði voru betri. Þannig hélst þetta framundir aldamótin 1900 en þá voru íbúar Grindavíkurhrepps 357 talsins. Þá tók fólki að fjölga, ný hús risu af grunni þar sem engin höfðu áður staðið og þorp tók að myndast. Fjölgunin var þó hæg næstu áratugina. Árið 1930 voru íbúar 505 og áratug síðar 509. Á árinu 1939 var ráðist í að gera fyrstu umbætur á aðstöðu fyrir bátalægi í Hópinu og var þar notast við handverkfæri. Mikilvægt er að höfnin þjóni vel fyrirtækjum heimamanna sem og öðrum þeim sem landa þar afla. Miklar hafnarframkvæmdir hafa staðið yfir undanfarin ár, nú síðast gagngerar endurbætur og stækkun á Miðgarði. Öll aðstaða og höfnin sjálf hefur orðið stórum betri eftir þessar framkvæmdir og nú er Grindavíkurhöfn orðin ein öruggasta skipahöfn á landinu.
Atvinnumál
Sjávarútvegur og fiskvinnsla hefur lengstum verið burðarás atvinnulífs í Grindavík og bærinn er einhver öflugasta verstöð landsins. Að meðaltali hefur þar verið landað hartnær 40.000 tonnum á ári undanfarin ár og þar er uppistaðan bolfiskur. Úthlutað aflamark Grindavíkurhafnar er það næsthæsta á landinu, næst á eftir Reykjavíkurhöfn. Útgerðar- og fiskvinnslufyrirtækin Þorbjörn og Vísir eru ekki aðeins með þeim öflugustu hérlendis, heldur einnig á sinn hátt til eftirbreytni ýmsum öðrum þjóðum hvað varðar nýtingu á hráefninu. Þau hafa sýnt mikið frumkvæði í því að fullnýta allan fisk sem að landi kemur og er það til fyrirmyndar. Fiskeldi á landi er einnig umfangsmikið í Grindvík og uppi eru áform um stóraukna framleiðslu á næstu árum. Í Grindavík er mjög öflug ferðaþjónusta og ber þar hæst Bláa Lónið í útjaðri bæjarins. Ferðamenn sækjast eftir stórkostlegri náttúru svæðisins og þeirri hrjúfu fegurð sem Reykjanesið býr yfir. Grindavíkurbær er aðili að Reykjanes jarðvangi og er þar með aðili að UNESCO Global Geoparks. Jarðvangurinn er samstarfsvettvangur allra sveitarfélaganna á Suðurnesjum sem byggir á því að nýta sérstöðu svæðisins til verðmætasköpunar. Í Grindavík eru hágæða veitinga- og gistihús, fjölbreyttir afþreyingarmöguleikar, listrænt handverksfólk, fyrirtaks 18 holu golfvöllur og glæsilegt tjaldsvæði sem margir telja eitt það besta á landinu. HS Orka rekur jarðvarmaver í Svartsengi við Grindavík og hefur byggt upp auðlindagarð í grenndinni sem er einstakur á heimsvísu. Meðal fyrirtækja sem njóta góðs af starfseminni má nefna Bláa Lónið, snyrtivöruframleiðendur, auk líftækni- og fiskeldisfyrirtækja. Hefðbundinn landbúnaður er núorðið lítið stundaður Grindavík en nokkuð er um áhugabúskap eða búfjárhald í smáum stíl. Grindavíkurland er að mestu leyti þakið hraunum en þó er nokkurt graslendi meðfram sjónum þar sem byggðin var mest. Landið þótti hrjóstugt og grýtt og fyrr á tímum gerði vatnsleysi mörgum erfitt fyrir. Náttúruöflin léku bændur í Grindavíkurhreppi oft á tíðum grátt. Grindvíkingar voru drjúgir með aðdrætti af lyngi og hrísi til heydrýginda og þannig gátu bændur að nokkru bætt sér upp grasleysi og skort á góðum bithögum. Lega þéttbýlis Grindavíkur gefur bæjarfélaginu og umgjörð þess sjónræna sérstöðu. Þegar ekið er úr norðri í átt að bænum birtist hann sem búsetuvin, umvafinn mosavöxnum hraunbreiðum í skjóli nálægra fella. Þéttbýlið umlykur höfnina sem atvinnulíf bæjarins hefur í aldanna rás að mestu byggst á og myndar heild móti mikilfenglegu landslaginu umhverfis það. Bæjaryfirvöld hafa lagt ríka áherslu á að Grindavík verði áfram fjölskylduvænt bæjarfélag og eftirsóknarvert til búsetu.
Skóla-, tómstunda- og félagsstarf
Skólastarf í Grindavík er blómlegt. Grunnskóli Grindavíkur er heildstæður skóli sem byggir á Uppbyggingarstefnunni. Skólinn er rekinn í tveimur byggingum. Í húsnæði við Suðurhóp er fyrsti til þriðji bekkur en í húsnæði við Ásabraut er fjórði til tíundi bekkur. Hafnar eru framkvæmdir við umtalsverða stækkun skólans við Suðurhóp. Leiðarljós skólans er að skapa umhverfi, í samráði við foreldra, þar sem allir eru virkir, að öllum líði vel og allir læri að bera virðingu fyrir sjálfum sér og umhverfi sínu. Frá skólanum fari einstaklingar sem eru tilbúnir til þess að takast á við eigin framtíð. Tónlistarskóli Grindvíkur er í nýlegri og rúmgóðri viðbyggingu við grunnskólann og þar er einnig sameinað almennings- og skólabókasafn bæjarfélagsins. Auk framangreindrar starfsemi er félagsmiðstöðin Þruman með aðsetur í skólanum þar sem fram fer skipulögð félags- og tómstundastarfsemi fyrir börn og ungmenni. Fisktækniskóli Íslands er staðsettur í Grindavík. Skólinn var settur á laggirnar 2009 og starfar á grundvelli laga um framhaldsskóla og framhaldsfræðslu. Starfseminni hefur vaxið fiskur um hrygg síðan þá og er nú öflug menntastofnun á sínu fræðasviði. Í Grindavík eru tveir leikskólar, Laut og Krókur. Leikskólinn Laut er rekinn af bæjarfélaginu. Uppbyggingarstefnan er uppeldisaðferð Lautar og sérstaða skólans liggur í umhverfinu og nálægðinni við náttúruna. Leiðarljós Lautar er gleði, hlýja og virðing. Heilsuskólinn Krókur er rekinn af Skólum ehf. í samvinnu við Grindavíkurbæ. Leikskólinn starfar eftir hugmyndafræði Heilsustefnunnar en markmið hennar er að stuðla að heilsueflingu leikskólasamfélagsins með áherslu á næringu, hreyfingu og listsköpun í leik. Íþróttalífið í Grindavík er geysilega öflugt og mjög vel hlúð að barna- og unglingastarfi með því að bjóða upp á ódýr kort sem börn og unglingar geta notað til að stunda hvaða íþrótt sem er, eina eða fleiri. Körfubolti og fótbolti hafa lengi verið mjög sterkar keppnisíþróttir í Grindavík og nú hafa grindvískir pílukastarar skipað sér í raðir þeirra bestu á landsvísu. Að stofni til eru íþróttamannvirkin frá 1985. Það ár var tekin í notkun bygging með tveimur íþróttasölum auk búningsklefa og annars rýmis. Sundlaug Grindavíkur var tekin notkun 1994. Auk útisundlaugar er þar barnalaug, heitir og kaldir pottar, gufubað, rennibraut og líkamsræktarstöð. Nýr og glæsilegur aðalleikvangur með 1500 manna stúku var vígður 17. júní 2001 en völlurinn er 72×105 m. Gamli aðalvöllurinn er notaður sem æfinga- og keppnissvæði. Fjölnota knattspyrnuhús var vígt 2009. Húsið ber nafnið Hópið og er 50 x 70 metra stálgrindarhús með nýjustu kynslóð gervigrass og 60 metra hlaupabraut. Árið 2015 var byggð rúmgóð félags- og íþróttaaðstaða við íþróttamiðstöðina sem ber nafnið Gjáin. Enn var bætt um betur með því að árið 2020 var tekið í notkun nýtt og glæsilegt 2.130 m² fjölnota íþróttahús.
Menningar- og listalíf
Í Grindavík er öflugt menningar- og listalíf. Kvikan, auðlinda- og menningarhús Grindavíkur er sérhannað sýningarhús í eigu bæjarfélagsins. Þar er að finna tvær sýningar um auðlindir í Grindavík; Saltfisksetur Íslands og Guðbergsstofu. Í húsinu fara fram ýmsir menningarviðburðir og minni sýningar og þar er upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn. Sjómannadagurinn er stærsti viðburður ársins í Grindavík en þá er haldin sjómanna- og fjölskylduhátíðin Sjóarinn síkáti. Þar er fjölbreytt dagskrá alla sjómannadagshelgina, en hátíðin hefur fest sig í sessi sem ein skemmtilegasta og fjölbreyttasta bæjarhátíð landsins. Blásið er til mikillar menningarveislu í mars ár hvert. Dagskráin er fjölbreytt og að miklu leyti haldið uppi af grindvískum listamönnum á öllum aldri. Í bæjarfélaginu eru starfræktir kórar og tónlistarfólk af ýmsum toga auðgar menningarlíf bæjarbúa.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd