Grindin ehf. er alhliða byggingar- og trésmíðafyrirtæki í Grindavík sem stofnað var árið 1979 af Guðmundi Ívarssyni húsasmiði og sonum hans, þeim Karli og Magnúsi. Guðmundur hafði starfað sem húsasmiður í Grindavík frá árinu 1952 en synirnir Karl og Magnús fóru að vinna hjá pabba sínum um leið og þeir höfðu getu til og luku þeir báðir námi í húsasmíði. Feðgarnir fjárfestu saman í trésmíðavél árið 1979 sem fékk stað í bílskúrnum á æskuheimilinu að Víkurbraut 40, þau kaup marka upphaf Grindarinnar.
Í dag er fyrirtækið í eigu Magnúsar Guðmundssonar og eiginkonu hans, Huldu Halldórsdóttur, og hefur Magnús stýrt fyrirtækinu síðustu árin.
Sagan
Í gegnum árin hefur Grindin ehf. byggt fjölda íbúðahúsa auk annarra bygginga, s.s. skóla, íþróttahúsa, leikskóla og atvinnuhúsnæðis. Grindin rekur einnig vel tækjum búið trésmíðaverkstæði sem hefur sérhæft sig í smíði á innréttingum, innihurðum og hvers-konar sérsmíði. Verkstæði Grindarinnar er staðsett að Hafnargötu 9a. Það húsnæði byggðu Guðmundur, Karl og Magnús og fluttist starfsemin þangað árið 1982. Húsnæðið hefur verið stækkað tvisvar sinnum frá því það var byggt og stefnt er að því að stækka það enn frekar á næstu misserum.
Þróunin
Frá því Grindin hóf störf árið 1979 hefur orðið mikil þróun á hverskyns verkfærum og búnaði sem auðveldar og flýtir fyrir starfi. Mikil tækniþróun verkstæðisvéla hefur átt sér stað undanfarin ár sem margar eru orðnar tölvustýrðar. Verkstæðið mun taka nýjan þrívíddar yfirfræsara í notkun vorið 2021, með honum eru lítil takmörk sett.
Samhliða þróun á tækjabúnaði hafa byggingarefni þróast. Má þar nefna mikið úrval af for-
unnu efni sem er orðinn vinsæll valkostur hjá viðskiptavinum. Grindin fylgist vel með nýjungum á valmöguleikum í efnisvali sem þurfa að uppfylla gæðakröfur fyrirtækisins.
Starfsemin
Grindin hefur alla tíð sinnt alhliða byggingavinnu og viðhaldi og hafa viðskiptavinir Grindarinnar í gegnum tíðina verið fyrirtæki, stofnanir, verktakar og einstaklingar. Í upphafi smíðaði Grindin glugga og hurðir en sú vinna hefur að mestu lagst af þar sem komin eru fyrirtæki sem sérhæfa sig í þeirri smíði. Vörubrettasmíði fyrir fiskvinnslufyrirtæki hefur verið hluti af starfsemi Grindarinnar en þeirri vinnu var hætt árið 2020.
Starfsfólk
Að jafnaði starfa um og yfir tuttugu manns hjá fyrirtækinu og hefur meirihluti starfsmanna unnið þar í áratugi. Með reynslu þeirra og þekkingu eru gæði framleiðslunnar tryggð.
Grindin starfar auk þess með fjölda undirverktaka, má þar nefna málara, pípara, rafvirkja, blikksmiði, vélsmiði, tæknimenn og arkitekta.
Markmið
Framtíðarsýn fyrirtækisins er að halda áfram að sinna verkefnum með þeim markmiðum sem það hefur alla tíð unnið eftir, sem eru vönduð vinnubrögð með þekkingu að leiðarljósi sem skilar sér í gæðum og endingu.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd