Grunnur starfseminnar var að faðir Tryggva, Einar Tryggvason var verktaki með vörubíl. Það hafði áhrif á starfsval Tryggva. Þá háttaði svo til í Garðinum að bygging íbúðarhúsa og atvinnuhúsa fór vaxandi og þörf fyrir uppbyggingu veitukerfa, gatna og gangstíga. Gerð landvarnargarða vegna ágangs sjávar var þörf.
Fyrsta verkefni var unnið 29. ágúst 1973, það fólst í því að koma fyrir efni í húsgrunni í Garðinum.
Verkefni og tæki
Fyrsta stóra verkefnið kom degi síðar, 30. ágúst 1973. Það var að grafa upp jarðstreng sem var úr Garðinum suður á nes fyrir Rafveitu Gerðahrepps. Sama ár var lagt fyrir fráveitu í Eyjahverfinu, sem þá var í uppbyggingu í Garðinum. Fljótlega komu verkefni fyrir Vegagerðina og vegalagnir og stígagerð fyrir sveitarfélög. Síðan hafa verkefnin verið mörg.
Nú vinna 7 starfsmenn hjá Gröfuþjónustunni og hafa flestir verið þar um langt skeið.
Fyrsta tækið var grafa af gerðinni John Deer 2010, árgerð 1967, keypt frá bænum Grjóteyri í Borgarfirði. Feðgarnir sóttu hana á vörubílnum.
Í dag er tækjakostur; ein traktorsgrafa, tvær hjólaskóflur, ein 32 tonna beltagrafa og ein tveggja tonna beltagrafa, jarðýta af Cat 6 gerð, einn valtari, þrír vörubílar og einn trailer. Auk þess mikið af smærri verkfærum til ýmissa verkefna eins og þarf hverju sinni.
Með tækjakostinum er gerlegt að takast á við stór verkefni og afkastageta veruleg.
Verkefni eru öll almenn jarðvinna, sem unnin er eftir beiðni, tilboðum og með þátttöku í útboðum. Einnig flutningur þungs búnaðar.
Skipulag reksturs
Gröfuþjónusta Tryggva Einars er einkahlutafélag. Tryggvi er stjórnarformaður og fram-kvæmdastjóri. Aðrir í stjórn eru Sæunn Andrésdóttir, Einar Tryggvason og Edvin Jónsson. Þau eru öll starfsmenn Gröfuþjónustunnar. Starfssvæðið er Suðurnesjabær og önnur sveitarfélög á Suðurnesjum. Auk þess höfuðborgarsvæðið.
Framtíðarsýn
Starfsemin er í góðu jafnvægi og eru áform helst þau að halda því þannig. Lögð er áhersla á góða þjónustu og faglegt og vinsamlegt samstarf við verkkaupa.
Aðsetur
Fyrstu árin var umsjón rekstrarins frá heimili eigenda. Fljótlega var keypt aðstaða í fyrrum íshúsi í Gerðahverfi. Húsið var byggt skömmu eftir 1900 sem íshús og rekið sem slíkt fram um miðja síðustu öld. Húsið er steypt og vandað að fyrstu gerð. Er starfsemin óx var keypt húsnæði við Iðngarða 6 í Garðinum. Þar er nægjanlegt húsrými til þrifa, viðhalds og endurnýjunar tækja og búnaðar. Auk þess aðstaða fyrir skrifstofu og starfsmenn eins og þarf.
Starfsmenn
Alls eru sjö starfsmenn hjá Gröfuþjónustunni, einn á skrifstofu og sex sem tækjamenn, bílstjórar og við viðhald tækja. Eigendur vinna fullan starfsdag við starfsemina.
Velta og hagnaður
Afkoma hefur verið ágæt flest ár og hefur hagnaður gengið til uppbyggingar þeirrar starfsemi sem nú er í boði. Lögð er áhersla á sjálfbærni, skuldir ekki til trafala og afrakstur notaður til uppbyggingar og betri aðbúnaðar fyrir starfsmenn og tæki.
Fyrirtækið er vottað sem fyrirmyndar fyrirtæki 2018 og 2019.
Verkefni
Þau eru fjölbreytileg og sum eftirminnileg. Gröfuþjónustan gerði varphólma í Útskálasíki. Þyrla landhelgisgæslunnar flutti möl og grjót sem undirstöðu hólmans og veturinn eftir var yfirborð hólmans flutt með gröfum á ís á sinn stað. Í dag er þar myndarlegur varphólmi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd