Grund, dvalar- og hjúkrunarheimili

2022

Grund í heila öld – Elsta heimili landsins en jafnframt eitt framsæknasta
Grund er elsta hjúkrunarheimili landsins, stofnað þann 29. október árið 1922 og fagnar því aldarafmæli sínu árið 2022. Saga heimilisins í tæp hundrað ár er farsæl. Upphafið má tekja til fundar árið 1913 en þá höfðu framsýnir hugsjónamenn, Sigurbjörn Ástvaldur Gíslason og Páll Jónsson hist í gönguferð til að ræða um hvernig hægt væri að koma til liðs við þá sem bjuggu við mikla fátækt í bænum. Þeir tóku málið upp innan Góðtemplarareglunnar og niðurstaðan varð m.a. að gefa gamalmennum miðdegisverð um nokkurra mánaða skeið. Sigurbjörn varð formaður Samverjans og meðstjórnendur Flosi Sigurðsson og Páll Jónsson. Árið 1922 ritaði Sigurbjörn grein í Vísi og ræddi þar um stofnun elliheimilis. Viðbrögðin létu ekki á sér standa. Mánuði eftir hvatningarskrifin höfðu safnast vel á níunda þúsund sem var heilmikið í þá daga. Fjárfest var í steinhúsinu Grund við Kaplaskjólsveg og stofnuð fimm manna stjórn til að reka heimilið sem rúmaði 22 heimilismenn. Fyrstu heimilismennirnir fluttu inn 29. október árið 1922. Það kom fljótt á daginn að það þyrfti að taka í notkun stærra heimili, aðsóknin var slík og þörfin brýn. Byggingarsjóður var stofnaður og sumarið 1927 samþykkti bæjarstjórn Reykjavíkur að úthluta elliheimilinu 6200 fermetra lóð við Hringbraut og lána 90.000 krónur til byggingar hússins á lóðinni. Þremur árum síðar, í september, fluttu heimilismenn inn í nýja húsið við Hringbraut. Ritað var um húsið í blöðunum, það þótti hið glæsilegasta og frágangur eins og á bestu gistihúsum. Þegar þörfin hefur verið sem mest í kringum 1970 bjuggu um 400 heimilismenn á Grund. Í dag eru þeir um 170 talsins og margbúið að byggja við og betrumbæta húsakynnin. Heilsugæsludeild var snemma opnuð á heimilinu og hjúkrunardeildir voru teknar í notkun samkvæmt nýjum heilbrigðislögum árið 1938. Þá mun Grund fyrst hjúkrunarheimila hafa boðið upp á sjúkraþjálfun og sundlaug var opnuð á heimilinu á sjötta áratugnum. Fyrsti framkvæmdastjóri Grundar var Haraldur Sigurðsson. Þegar hann féll frá snögglega bað Sigurbjörn 27 ára gamlan son sinn, Gísla Sigurbjörnsson, að hlaupa í skarðið á meðan nýr maður væri fundinn. Sá tími átti eftir að verða langur og farsæll því Gísli var forstjóri Grundar í um 60 ár eða allt fram til ársins 1994 þegar hann lést. Þá tók við forstjórastarfinu dóttir Gísla, þriðji ættliðurinn, Guðrún Birna Gísladóttir sem hafði lengi starfað við hlið föður síns. Eiginmaður hennar Júlíus Rafnsson starfaði sem framkvæmdastjóri heimilisins og lét af því starfi á sama tíma og Guðrún hætti sem forstjóri á 75 ára afmælisdegi sínum 1. júlí árið 2019. Þá tók sonur hennar Gísli Páll Pálsson við sem forstjóri Grundar.

Fjórði ættliðurinn við stjórn
Gísli Páll er langafabarn stofnandans Sigurbjörns Ástvalds Gíslasonar og því fjórði ættliðurinn sem veitir Grund forstöðu. Hann er nú forstjóri allra fyrirtækja heimilisins sem eru Grund hjúkrunarheimili, Mörk hjúkrunarheimili, Ás, dvalar og hjúkrunarheimili, ÍEB og GM sem eru fasteignafyrirtæki með á sínum snærum 152 íbúðir fyrir 60+ og þvottahúss Grundar og Áss sem er í Ási í Hveragerði.
Gísli Páll hóf störf sem framkvæmdastjóri í Ási árið 1990 og tók síðan við starfi forstjóra Markar hjúkrunarheimilis árið 2010 og var frá upphafi framkvæmdastjóri fasteignafyrirtækjanna GM og ÍEB sem og þvottahúss Grundar og Áss. Á hjúkrunarheimilunum þremur búa nú rúmlega 400 manns, um 250 í íbúðunum og á áttunda hundrað eru á launaskrá hjá Grund og fyrirtækjum þess. Grund er sjálfseignarstofnun og stjórn heimilisins skipa fimm manns og einn varamaður.

Ás í Hveragerði
Grund rekur ekki bara hjúkrunarheimilið við Hringbraut því uppúr miðju ári 1951 kom sýslunefnd Árnessýslu að máli við Gísla Sigurbjörnsson forstjóra til að kanna hvort Grund væri til í að reka fyrir þá heimili í Hveragerði. Það skilyrði fylgdi að 15 íbúum Árnessýslu yrði tryggð vistun gegn sama gjaldi og væri á Grund. Heimilið fékk í upphafi tvö hús frá Elliheimilisnefnd Árnessýslu gegn því að heimilismenn í Ási fengju pláss á Grund þegar heilsu þeirra hrakaði.  Síðar lagði Árnessýsla einnig til tvær aðrar húseignir leigulaust. Á sjöunda áratugnum var gerður samningur við geðdeild Landspítalans þess efnis að þaðan kæmu til dvalar í Ási einstaklingar sem gátu ekki búið einir en þurftu ekki á sjúkrahúsdvöl að halda.  Árið 1995 var sótt um byggingaleyfi fyrir hjúkrunarheimili í Ási og var 26 rúma heimili tekið  í notkun þann 1. desember 1998.  Nú stendur til að byggja annað 22 manna hjúkrunarheimili í samvinnu við Hveragerðisbæ og ríkið og samhliða því verða gerðar lagfæringar á því eldra þannig að eingöngu verður um að ræða einbýli, hvert með sér baðherbergi.  Nú hefur verið byggður nýr matsalur í Ási og gerðar breytingar á eldhúsinu sem þýðir að nú er allur matur undirbúinn þar og sendur á heimilin þrjú. Þá hafa verið teknar í notkun Íbúðir fyrir 60+ í Ási sem hefur verið vel tekið og er þegar kominn biðlisti. Þvottahús Grundar og Áss sem er í Ási í Hveragerði er eitt fullkomnasta þvottahús landsins sem þvær fyrir Grundarheimilin en einnig fyrir ótengda aðila. Jarðgufa er notuð til að þvo, og þurrka og orkukostnaður brot af því sem það myndi kosta að nota rafmagn.

Mörk
Grund tók að sér rekstur Markar hjúkrunarheimilis við Suðurlandsbraut 66 í ágúst 2010 og þar búa 113 heimilismenn á ellefu heimiliseiningum. Einnig festi Grund kaup í ársbyrjun 2010 á 78 íbúðum fyrir 60 ára og eldri við Suðurlandsbraut 58–62. Fljótt kom í ljós að það var mikil ásókn í íbúðirnar sem Grund hafði fest kaup á og langir biðlistar sem mynduðust. Til að mæta þörfinni voru byggðar 74 þjónustuíbúðir í viðbót sem eru í tveimur húsum austan megin við hjúkrunarheimilið á Suðurlandsbraut 68-70. Allar þessar byggingar eru tengdar saman þannig að hægt er að ganga innandyra milli þeirra allra og boðið upp á fjölbreytta þjónustu fyrir íbúa. Enn er þörfin brýn fyrir íbúðir af þessu tagi því 400 manns eru á biðlista. Öll þessi starfsemi er nú tengd þannig að innangengt er á milli allra bygginganna en íbúar í allt eru nálægt 400 talsins auk starfsfólks.

Notalegur heimilisbragur á Grundarheimilunum
Ávallt hefur ríkt notalegur heimilisbragur á Grundarheimilunum og þannig verður það vonandi um ókomna tíð á öllum heimilum sem Grund mun reka. Starfsfólk heimilanna aðstoðar heimilisfólk við að lifa lífinu með reisn og hefur hugfast að það er inni á heimili fólksins þegar það starfar á hjúkrunarheimilunum. Þrjú einkunnarorð heimilanna eru virðing, vinátta og vellíðan. Starfsfólki til halds og trausts við að fylgja þessum lykilorðum í starfseminni og skapa þetta heimilislega umhverfi er Eden hugmyndafræðin. Hún veitir stuðning til að skapa heimilislegt andrúmsloft og viðhalda því að heimilimönnum og starfsfólki líði vel og menningin sé hlý og mannúðleg. En þegar öllu er á botninn hvolft snýst kærleiksríkt heimili um nána samvinnu starfsfólks, heimilisfólks og aðstandenda.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd