Grundarfjörður er fallegur bær við Breiðafjörð. Bærinn stendur við samnefndan fjörð á miðju norðanverðu Snæfellsnesi. Staðurinn skartar óvenjulegri náttúru og veðurfari. Þéttbýli byrjaði fyrir alvöru að myndast á núverandi bæjarstæði um og uppúr 1940.
Grundarfjörður hefur vaxið jafnt og þétt síðan. Sveitin hefur frá fornu fari heitið Eyrarsveit og eru íbúar um áramótin 2020/2021 862 talsins.
Helsti atvinnuvegur Grundfirðinga er sjávarútvegur og starfar um helmingur vinnuafls við þá atvinnugrein. Ýmis þjónusta og iðnaður hefur verið vaxandi í Grundarfirði. Bærinn þykir einkar fallegur og snyrtilegur og hefur hlotið viðurkenningar fyrir snyrtilegt umhverfi.
Kirkjufell, bæjarfjall Grundarfjarðar, er eitt af þekktustu fjöllum Íslands ef ekki heimsins. Ekki er óalgengt að erlendir ljósmyndarar heimsæki Ísland í þeim tilgangi einum að mynda þetta einstaka fjall. Kirkjufell hefur meira að segja farið með hlutverk í stórum Hollywoodmyndum.
Bæjarstjórn
Bæjarstjóri frá 1. ágúst 2018
Höfn og sjávarútvegur
Höfnin er lífæð byggðarinnar. Myndarleg hafnarmannvirki og góð aðstaða frá náttúrunnar hendi hafa skapað sjávarútvegi góð vaxtarskilyrði. Öflug sjavarútvegsfyrirtæki eru starfandi í Grundarfirði og hefur sjávarútvegur verið byggður upp af mikilli framsýni og dug. Grundarfjarðarhöfn er með stærri kvótahöfnum landsins og er einnig móttökuhöfn fyrir skemmtiferðaskip, en komur þeirra hafa stóraukist á síðustu árum. Innsigling í Grundar-fjarðarhöfn er örugg og einföld, við hafskipabryggjuna er lágmarksdýpi 6,5 metrar á stærstu fjörum og eftir nýjustu hafnarbæturnar 2021, var tekin í notkun 130 metra lenging Norðurgarðs með 10 metra dýpi. Á Norðurgarði er um 10.000 fm vinnurými með steyptri þekju og samhliða lengingu Norðurgarðs 2021 varð til landfylling fyrir lóðir undir hafnsækna starfsemi.
Þjónusta við viðskiptavini hafnarinnar
Samhliða öflugri uppbyggingu fiskiskipaflotans og auknum umsvifum hafnarinnar hefur verið byggð upp fjölþætt þjónusta við skip. Á Norðurgarði er staðsett ísverksmiðja og er ís dælt beint um borð í skipin. Ragnar og Ásgeir ehf. er öflugt flutningafyrirtæki sem sérhæft hefur sig í fiskflutningum. Löndunarþjónusta Djúpakletts ehf. er starfandi við höfnina með þjónustuhúsi, þar sem er einnig til húsa Fiskmarkaður Íslands, einnig er starfræktur Fiskmarkaður Snæfellsbæjar. Mareind ehf. og Vestan ehf. eru sérhæfð fyrirtæki á sviði siglinga- og fiskileitartækja og Vélsmiðja Grundarfjarðar ehf. veitir alhliða þjónustu. Öflugt netaverkstæði Guðmundar Runólfssonar hf. byggir nú nýtt, sérhæft húsnæði fyrir starfsemi sína við Norðurgarð, en á svæðinu rekur fyrirtækið einnig frystihótelið Snæfrost. Fyrirtækið Saltkaup hefur einnig birgðageymslu á Norðurgarði. Auk þessa má í Grundarfirði nefna kranaþjónustu, olíusölu, aðra iðnaðarmenn, s.s. trésmiði, rafvirkja o.fl. Verslun og veitingastarfsemi er sömuleiðis að finna á svæðinu.
Opinber þjónusta
Í grunnskóla Grundarfjarðar eru um 100 nemendur árið 2021, í Tónlistarskólanum eru um 50 nemendur og í leikskólanum Sólvöllum sem er þriggja deilda leikskóli eru 50-60 nemendur. Fimm ára leikskóladeild, Eldhamrar, er rekin undir stjórn grunnskóla. Fjölbrautaskóli Snæfellinga tók til starfa haustið 2004 og stunda þar liðlega 200 nemendur nám á haustönn 2021, um þriðjungur þeirra í fjarnámi. Bókasafn, íþróttamiðstöð og sundlaug þjóna nemendum grunnskóla og öðrum íbúum og gestum. Félagsmiðstöðin Eden er starfrækt fyrir unglinga á veturna, en vinnuskóli og leikjanámskeið fyrir yngri börn á sumrin. Í Grundarfirði er Dvalar- og hjúkrunarheimilið Fellaskjól rekið af sjálfseignarstofnun og heilsugæslustöð er rekin af Heilbrigðisstofnun Vesturlands, sem og sjúkrabifreið. Sveitarfélagið rekur vel búið slökkvilið.
Ferðaþjónusta
Náttúran, mannlífið og sagan laða marga ferðamenn, erlenda sem innlenda, til Grundarfjarðar. Margskonar möguleikar eru til afþreyingar og útivistar, s.s. hestaferðir, fuglaskoðun, kajakferðir, veiði og fjöldi gönguleiða er í bænum og nágrenni hans. Fjölbreytt gisting er í boði í Grundarfirði. Veitinga- og kaffihús eru nokkur, hvert með sínum brag, með afbragðs mat, þjónustu og ýmsar uppákomur sem krydda mannlífið í Grundarfirði. Grundfirðingar halda árlega sumarhátíð sína „Á góðri stund í Grundarfirði” síðustu helgina í júlí.
Mannlíf og menning
Menningar- og félagslíf er blómlegt og byggir á öflugu frumkvæði og þátttöku íbúanna. Ungmennafélag Grundarfjarðar (UMFG) býður
upp á æfingar í ýmsum íþróttagreinum og vorið 2021 voru rafíþróttir í boði í fyrsta sinn. Hestamenn hafa byggt upp glæsilega aðstöðu
í jaðri bæjarins. Golfklúbburinn Vestar gengst fyrir öflugu starfi á 9 holu golfvelli í Suður-Bár. Skotgrund, skotfélag Snæfellsness hefur
byggt upp myndarlegt starf og aðstöðu í heppilegu náttúrulegu umhverfi í Kolgrafafirði. Á svipuðum slóðum er einnig mótorkrossbraut.
Skátafélagið Örninn heldur úti öflugu skátastarfi. Rétt ofan við bæinn er Skíðasvæði Snæfellsness sem haldið er opnu þegar veðurfar býður og skautasvelli er komið upp í bænum þegar frostakafla gerir. Í Grundarfirði starfar öflugt félag eldri borgara, björgunarsveitin Klakkur og slysavarnadeildin Sæbjörg, kvenfélagið Gleymmér-ei, Rauða kross deild, Lionsklúbbur, auk fleiri afþreyingar- og líknarfélaga. Sumarið 2021 fengu ýmis félagasamtök aðstöðu í Sögumiðstöðinni, húsnæði á vegum bæjarfélagsins fyrir menningar- og félagsstarf.
Umhverfis – og skipulagsmál
Í svæðisskipulagi Snæfellsness 2014-2026 er mikilvægur grunnur lagður að samstarfi á svæðinu og sett fram sameiginleg sýn á sérstöðu svæðisins, þróun atvinnulífs og samfélags. Svæðisgarðurinn Snæfellsnes er fjölþætt samstarf sveitarfélaga, atvinnulífs og félagasamtaka og byggir samstarfið á sameiginlegri sýn svæðisskipulagsins. Aðalskipulag Grundarfjarðarbæjar 2019-2039 tók gildi 2021 og er stefnumarkandi um mikilvæga þætti sem snerta uppbyggingu atvinnu, umgengni við náttúruauðlindir og gæði búsetu og mannlífs. Eitt af verkefnum í aðalskipulagi er „Grænn og gönguvænn Grundarfjörður“. Á þeim grunni hóf Grundarfjarðarbær umfangsmiklar gatna- og stígaframkvæmdir árið 2021 og er viðbúið að verkefnið muni spanna allmörg komandi ár. Við endurbætur á gangstéttum og göngutengingum er tækifærið nýtt til að breikka og bæta göngusvæði og aðgengi. Í leiðinni er bætt við „blágrænum svæðum” – þ.e. gróðursvæðum sem taka við regnvatni.
Grundfirðingar hafa valið að búa í sátt og samlyndi við íbúa af öðrum víddum og er bærinn líklega sá eini í heiminum þar sem byggingaryfirvöld hafa úthlutað lóð til huldufólks.
Sveitarfélögin fimm á Snæfellsnesi hafa unnið markvisst umhverfisstarf í langan tíma og hlotið umhverfisvottun á starf sitt í þrettán skipti, sjá nesvottun.is. Mikill metnaður er lagður í að halda umhverfinu í bæjarfélaginu snyrtilegu og lagt er uppúr því að bærinn sé vel hirtur.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd