Guðmundur Tyrfingsson

2022

Guðmundur Tyrfingsson hóf starfsemi með fyrsta hópferðabílinn árið 1962. Var sá bíll af gerðinni Dodge Weapon, árgerð 1952. Var hann áður nýttur af varnarliðinu sem sjúkrabíll. Guðmundur gerði hann að sínum, endurbyggði hann og hóf að nýta hann í hópferða- og skólaakstur.

Sagan
Í upphafi byrjaði hann í hópferðum og voru þá fjallaferðirnar í miklu uppáhaldi. Í kjölfarið hóf hann skólaakstur fyrir Gaulverjabæjarhrepp. Dodge Weapon bílinn átti Guðmundur í
12 ár áður en hann seldi hann. Hins vegar eignaðist fyrirtækið aftur þann bíl fyrir um 25 árum síðan og í dag prýðir hann höfuðstöðvar fyrirtækisins á Selfossi. Árlega tekur hann að sér einn túr, það er að keyra sveinunum 13 úr Ingólfsfjalli og inn á Selfoss. Það var svo árið 1969 sem fyrirtækið Guðmundur Tyrfingsson ehf. var stofnað. Sama ár fór fyrsta rútan sem smíðuð var á götuna. Árið 1973 gekk Guðmundur Laugdal Jónsson til liðs við nafna sinn, hann er bifreiðasmiður að mennt og var frá upphafi yfirsmiður fyrirtækisins og sá um teikningar og hönnun ásamt Guðmundi Tyrfingssyni.

Aðsetur
Árið 1971 byggði Guðmundur Tyrfingsson bragga undir starfsemina við Nónhóla á Selfossi. Þar voru svo 14 hópferðabílar smíðaðir til eigin nota ásamt öðrum verkefnum. Rúmum
20 árum síðar eða árið 1993 flutti starfsemin í nýtt húsnæði að Fossnesi C, Selfossi. Á sama tíma var stofnað dótturfyrirtæki, Tyrfingsson ehf., sem sér nú um smíði og viðhald á rútunum.
Í dag samanstendur floti Guðmundar Tyrfingssonar ehf. af 43 rútum af öllum stærðum og gerðum. Alla tíð hefur allt kapp verið lagt á góða þjónustu og hagstæð verð. Hefur fyrirtækið aðlagað sig að breyttum aðstæðum á ferðaþjónustumarkaðnum og í dag skipuleggur Guðmundur Tyrfingsson ehf. hinar ýmsu ferðir fyrir allar stærðir hópa, bæði fyrir Íslendinga sem og erlenda ferðamenn.

Umhverfisstefna
Fyrirtækið var með þeim fyrstu í þessum geira sem mótuðu sér umhverfisstefnu og hefur verið framarlega í þeim málum. Félagið var fyrst á Íslandi til að flytja inn og taka í notkun rafmagnsrútu og taka stórt skref sem markar upphaf að rafvæðingu atvinnubíla á Íslandi.
Í umhverfisstefnu Guðmundar Tyrfingssonar ehf. er lögð áhersla á að íslensk náttúra haldist eins tær og óspillt og unnt er. Umhverfismál eru höfð að leiðarljósi í allri okkar starfsemi.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd