Gull og Silfur

2022

Gull og Silfur er ein elsta skartgripaverslun og gullsmíðavinnustofa landsins. Fyrirtækið hefur starfað í meira en 50 ár og ef horft er til sögunnar þá má segja að gullsmíði hafi verið í fjölskyldunni í 70 ár.
Gull og silfur var stofnað árið 1971 af Sigurði G. Steinþórssyni gullsmíðameistara. Hann nam listina af föður sínum Steinþóri Sæmundssyni gullsmíðameistara sem var af vestfirsku bergi brotinn sem hafði lagt fyrir sig nám í gullsmíði hjá Aðalbirni Péturssyni gullsmíðameistara á Siglufirði.
Steinþór flutti suður til Reykjavíkur að loknu sveinsprófi og árið 1952 stofnaði hann ásamt Jóhannesi Leifssyni fyrirtækið Gullsmiðir – Steinþór og Jóhannes sem þeir ráku saman í 20 ár. Þeir Steinþór og Jóhannes kenndu sonum sínum iðnina.

Sjálfstæður
Upp úr 1970 fór Sigurður Steinþórsson að þreifa fyrir sér um eigin rekstur og kom þá til álita að festa húsnæði við Laugaveg 35. Það þurfti að ráðast í lagfæringar á húsnæðinu en það átti eftir að smíða allt skartið sem til stóð að selja viðskiptavinum svo það var byrjað að hanna og smíða. Í apríl 1971 var svo verslunin Gull og Silfur opnuð. Handbragð Sigurðar vakti strax athygli og urðu trúlofunarhringar og giftingahringar frá Gulli og Silfri fljótt vinsælir.
Ári eftir opnunina átti eiginkona Sigurðar, Kristjana Ólafsdóttir leið upp á Laugaveg í kringum jólavertíðina en mikið var um að vera hjá Gulli og Silfri. Þá var Kristjönu ýtt fram í búð til að aðstoða viðskiptavinina. Hún hefur verið verslunarstjóri og meðeigandi síðan. Bróðir Sigurðar, Magnús Steinþórsson kom til starfa hjá Gulli og Silfri og sömuleiðis faðir þeirra. Magnús var í tuttugu ár en fluttist af landi brott. Steinþór starfaði hjá Gulli og Silfri til 1984 og kona hans Sólborg Sumarrós stóð einnig innan við afgreiðsluborðið um tíma. Sannkölluð gullsmiðafjölskylda, því nú er þriðja kynslóð gullsmiða farin að láta að sér kveða. Sólborg S. Sigurðardóttir, elsta barn þeirra hjóna Sigurðar og Kristjönu starfar nú sem gullsmíðameistari á verkstæðinu við hlið föður síns.

Breytingar
Gull og Silfur fluttu sig um set árið 2005. Verslunin og verkstæðið voru færð upp á Laugaveg 52.
Sigurður og Kristjana hafa í gamni sagst bera ábyrgð á þúsundum para og hjóna og varla verður tölu á það komið hve marga hringa hann hefur smíðað á þeim 50 árum sem hann hefur starfað í greininni. Hann er stoltur af verkum sínum, fær nýjar hugmyndir daglega og er metnaðarfullur í sinni sköpun. Hver gripur er sveipaður listrænu handbragði. Hlýleg og persónuleg þjónusta hjá Gulli og Silfri hefur skapað vinsældir og velvild á markaðnum.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd