Gúmmísteypa Þ. Kristjánsson var stofnuð árið 1952 af Þorsteini Kristjánssyni. Þorsteinn fæddist í Fremri-Hundadal í Miðdölum í Dalasýslu 28. júní 1915. Kona hans var Ásta Finnbogadóttir og áttu þau saman dæturnar Jónínu og Ágústu.
Sagan
Hugmyndina að stofnun fyrirtækisins fékk Þorsteinn þegar hann vann á dekkjaverkstæði í Reykjavík. Þegar fólk kom á verkstæðið með hluti úr gúmmíi sem þurfti að laga sá Þorsteinn um það. Hann fór því að sinna slíkri þjónustu í risinu á heimili sínu í Efstasundi. Hann fjárfesti í handknúinni hitapressu og steypti ýmsa hluti í henni. Dætur hans, Ágústa og Jónína lögðu hönd á plóg og unnu hjá honum samhliða námi. Eitt af minnistæðari verkefnum Gúmmísteypunnar á þessum tíma var að steypa gúmmíhringi til að þétta öll rör hitaveitunnar þegar hún var lögð í öll heimili í Reykjavík. Reksturinn gekk vel og færðist fljótt út í bílskúr og lét fjölskyldan reisa annan bílskúr á lóðinni undir reksturinn. Um 1970 var svo komið að þörf var á stærra húsnæði og opnaði Gúmmísteypan að Súðarvogi 48 um það leyti.
Þann fyrsta janúar 1984 tók Þorsteinn Lárusson við fyrirtækinu af Þorsteini móðurafa sínum en hann er sonur Jónínu Þorsteinsdóttur og Lárusar Sigurðssonar. Þorsteinn og kona hans, Steinunn Eiríksdóttir, eru í dag eigendur fyrirtæksins.
Næsta aðsetur Gúmmísteypunnar var á annarri hæð að Súðarvogi 20. Þar vildi svo óheppilega til að kviknaði í um páskana 1984 og hlaust af brunanum talsvert tjón fyrir Gúmmísteypuna en hún var komin aftur í rekstur aðeins mánuði síðar. Árið 1986 flutti Þorsteinn fyrirtækið að Hamarshöfða 8. Á þeim tíma var mikið að gera í viðgerðum á gúmmíblökkum og niðurleggjurum fyrir loðnu- og síldarbáta auk þess að steypa og mála aurhlífar.
Þorsteinn reisti 800 m2 atvinnuhúsnæði árið 1997 og opnaði þar Hjólbarðaverkstæði Grafarvogs 1. nóvember sama ár. Þann 1. maí 1998 var Gúmmísteypan flutt að fullu í nýja húsnæðið þar sem hún hefur verið síðan. Árið 2003 bættist svo við dekkjaverkstæðið smurstöð með alhliða smurþjónustu. Árið 2017 var umbreytingaár hjá Gúmmísteypunni. Dekkjaverkstæðinu var lokað eftir 20 ára rekstur og fest voru kaup á fyrirtækinu Reimar og bönd ehf. Sama ár tók Berglind Steinunnardóttir, dóttir Þorsteins, við sem framkvæmdastjóri.
Tveimur árum síðar, í júní 2019, varð fyrirtækið enn stærra þegar Gúmmísteypan gerðist söluaðili Habasit á Íslandi með kaupum á öllum reimalager IBH ehf. Þá bættist í hópinn fyrsti sölustjórinn með áratuga reynslu í faginu, Ásgeir Harðarson. Í dag eru starfsmenn átta talsins.
Skipulag og sérstaða
Gúmmísteypan þjónustar útgerðaraðila, sveitarfélög, verkstaka, stóriðju, vélsmiðju og fyrirtæki í verslun og þjónustu. Á síðustu þremur árum hefur viðskiptahópurinn stækkað og mun meira úrval reima er á lager en áður. Reimar fyrir nánast hvaða starfsemi sem er, allt frá fínustu matvælavinnslum upp í grófustu malarvinnslur og stóriðjuver.
Efnið í reimarnar er flutt inn erlendis frá, t.d. frá Svíþjóð, Þýskalandi, Hollandi og Póllandi. Sömuleiðis þéttilistar í lestarlúgur, niðurleggjara og kefli og sköfur fyrir færibönd. Fyrir steypuna er hrágúmmí flutt inn frá Þýskalandi. Stálsmiðjur smíða mótin, hrágúmmí sett ofan í og pressað í hitapressu. Meðal steyptra hluta sem er á lager eru pressuhjól í netaspil, aurhlífar og samsláttarpúðar. Þessu til viðbótar er mikið um að gúmmíklæða driftromlur í færibönd.
Viðskiptavinir fyrirtækisins eru um allt land og það rekur þjónustubíla sem fara út í fyrirtækin til að vinna við uppsetningar og viðgerðir á reimum þegar þess er þörf.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd