GV Gröfur

2022

Verktakafyrirtækið G.V. Gröfur var stofnað árið1995 af Guðmundi Viðari Gunnarssyni og Valdimar Kristjánssyni. Fyrirtækið byrjaði með eina beltagröfu, en starfsemin hefur vaxið jafnt og þétt og í dag á fyrirtækið 10 malarflutningabíla, 10 beltagröfur, 2 jarðýtur, 5 hjólaskóflur, veghefil, 2 hjóla- og 2 traktorsgröfur, valtara, tæki til vinnslu malarefnis og ýmis minni tæki sem nýtast í stærri og minni jarðvinnuverk. Samtals yfir 50 bílar og tæki. Fyrirtækið á og rekur eigin malarnámu að Björgum í Hörgárdal og grjótvinnslu og efnissölu í Sigluvík á Svalbarsströnd og í Hörgá.

Starfsemin
Starfsemin snýr að allri almennri jarðvinnu, gatnagerð og lagnavinnu, vegagerð, hitaveituframkvæmdum, niðurrifi húsa, fjarskiptalögnum og síðast en ekki síst að þjónusta byggingaverktaka en fyrirtækið hefur m.a. annast alla jarðvinnu fyrir Byggingafélagið Hyrnu, Trétak, BE byggingar og SS Byggir. Fyrirtækið hefur á síðasta aldarfjórðungi unnið fjölda útboðsverka fyrir Akureyrarbæ, Norðurorku og Vegagerðina og má þar helst nefna að fyrirtækið hefur gert allar götur í Teiga- og Naustahverfi að þremur undanskildum ásamt götum í Síðu- og Nesjahverfum, lagningu stofnbrauta eins og Dalsbrautar, Miðhúsabrautar og Óðinsness, aðveituæð hitaveitu frá Hjalteyri til Akureyrar og frá Reykjum í Fnjóskadal til Grenivíkur. Fyrirtækið hefur á seinni árum tekið að sér verkefni á sviði virkjanaframkvæmda og lagði árið 2017 4 km aðrennslispípu á Glerárdal fyrir Fallorku vegna Glerárvirkjunar og árið 2019 vann fyrirtækið við lagningu 6 km pípu ásamt vega- og stíflugerð fyrir Arctic hydro við gerð Hólsvirkjunar í Fnjóskadal.

Mannauður
20 -4 0 starfsmenn starfa hjá fyrirtækinu bæði bílstjórar, tækja- og verkamenn auk skrifstofufólks. Síðustu 14 árin hefur fyrirtækið nýtt sér krafta pólsks starfsfólks og nú eru um það bil 20% fastra starfsmanna pólskir og á háannatímum eru pólskir stafsmenn um og yfir helmingur starfsmanna. Fyrirtækið tók snemma í notkun GPS vélstýribúnað og nú eru nánast öll verk unnin með slíkum búnaði.

2012

Verktakafyrirtækið G.V. Gröfur var stofnað árið 1995 af Guðmundi V. Gunnarssyni og Valdimar Krisjánssyni. Í upphafi átti fyrirtækið eina beltagröfu en starfsemin vatt fljótt upp á sig þegar farið var að bjóða í ýmis verkefni. Mikil endurnýjun var gerð á vinnuvélaflota fyrirtækisins á árunum 2006-2008 og GPS vélstýringabúnaður var tekinn í notkun í vinnuvélum þess. Í dag á fyrirtækið átta malarflutningabíla, sex beltagröfur, þrjár jarðýtur, hjólaskóflu, veghefil, hjóla- og traktorsgröfur, valtara og ýmis smátæki. 700 m2 verkstæðisbygging fyrirtækisins að Frostagötu 4 á Akureyri var tekin í notkun vorið 2007.

Starfsemin hefur m.a. tengst gatnagerð, vegagerð og lagnavinnu, hitaveituframkvæmdum, niðurrifi húsa fjarskiptalögnum og þjónustu við byggingarverktaka, t.d. hefur fyrirtækið annast alla jarðvinnu fyrir Byggingafélagið Hyrnu frá árinu 1996. Fyrirtækið hefur unnið fjölda útboðsverka fyrir Akureyrarbæ, Norðurorku og Vegagerðina, t.d. við gatnagerð í Nausta- og Nesjahverfum, lagningu Dalsbrautar, Miðhúsabrautar og Óðinsness, aðveituæð hitaveitu frá Hjalteyri til Akureyrar og frá Reykjum í Fnjóskadal til Grenivíkur, jarðvinnu vegna stækkunar verslunarmiðstöðvarinnar Glerártorgs auk vegagerðarverkefna.

Frárennslislagnir 2003.

20-40 starfsmenn, bílstjórar, vinnuvélastjórar, verkamenn, vélfræðingur, tæknifræðingur og gjaldkeri starfa hjá fyrirtækinu. Eigendurnir Guðmundur V. Gunnarsson og Valdimar Kristjánsson sjá um framkvæmdastjórn og yfirstjórn verka. GV Gröfur hlutu D-gæðavottun Samtaka iðnaðarins árið 2009.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd