Háfell ehf

2022

Háfell ehf. er fyrirtæki í jarðvegsframkvæmdum og sinnir verktakastarfsemi af öllum stærðargráðum, víða um landið. Helstu verkefni hafi falist í gatna-, vega-, og jarðgangagerð ásamt allri nauðsynlegri jarðvinnu undir malbiki eins og jarðvegsskiptum, lagnavinnu og klæðningu. Háfell ehf. hefur að meginmarkmiði að ástunda vandvirk, hröð og örugg vinnubrögð með góðum tækjakosti. Fyrirtækið er vel mannað metnaðarfullu starfsfólki sem býr að mikilli reynslu og þekkingu sem nýst hefur vel í fjölbreyttum og oft flóknum framkvæmdum.

Traustur grunnur
Að baki Háfelli ehf. býr meira en 40 ára reynsla. Fyrirtækið var stofnað sem sameignafélag í mars 1979 af þeim Gunnari Sigurbjartssyni og Eiði Haraldssyni. Fyrsta árið var vélaleiga helsta verksviðið, en fljótlega færðist starfsemin þó yfir á almennan útboðsmarkað. Um áramótin 1985-86 var Háfell skráð sem einkahlutafélag og upp frá því urðu umsvifin gróskumeiri í sífellt stærri jarðvinnuverkefnum fyrir Vegagerðina og sveitarfélög höfuðborgarsvæðisins. Fyrsta aðsetur Háfells var í leiguhúsnæði að Bíldshöfða 14, en þaðan var flutt árið 1984 yfir í Kaplahraun 8 í Hafnafirði. Frá árinu 1998 fór starfsemin fram að Krókhálsi 12. Þaðan færðist skrifstofuarmurinn árið 2006 í Skeifuna í Reykjavík. Í árslok 2008 var verkstæði og aðstaða fyrir vinnutæki tekin í notkun að Rauðhellu 5 í Hafnarfirði. Sú aðstaða flutist síðan í ársbyrjun 2011 að Álhellu 3 í Hafnarfirði. í dag er Háfell ehf. alfarið í eigu Skarphéðins Ómarssonar.

Hagkvæmur árangur
Háfell ehf. hefur tekið að sér margar stórar og flóknar gatna – og vegagerðaframkvæmdir og skilað mörgum þeirra töluvert á undan áætlun. Meðal stærstu verkefna má nefna fyrsta áfanga í tvöföldun Reykjanesbrautar, en því var skilað fjórum mánuðum fyrir áætluð verklok. Sama var upp á teningnum við breikkun Vesturlandsvegar sem fullkláraðist um hálfu ári fyrir umsaminn skiladag og vegur um Kolgrafarfjörð á Snæfellsnesi var opnaður um ári áður en áætlanir gerðu ráð fyrir. Meðal umsvifamikilla verkefna Háfells ehf. eru m.a. endurnýjun og færsla Hringbrautar og Sæbrautar í Reykjavík, lagning Suðurstrandar- og Þjórsárvegar, jarðvinna við álverið á Grundartanga, gatnagerð í atvinnusvæði Halla í Reykjavík og íbúðahverfið Urriðaholt í Garðabæ. Stærsta verkið verður þó að teljast gerð Héðinsfjarðarganga. Þar er um að ræða stærsta samgöngumannvirki landsins, upp á 15 km með tveimur 11 km jarðgöngum samtals á milli Siglufjarðar og Ólafsfjarðar, með viðkomu í Héðinsfirði. Verktaka Háfells ehf. við göngin var í samvinnu við tékkneska fyrirtækið Metrostav as. Nánari upplýsingar um önnur verkefni má nálgast inn á vefsíðunni www.hafell.is

Öflugur tækjakostur
Forsendan fyrir því að geta tekist á við og unnið krefjandi verkefni er fyrst og fremst góður mannafli studdur af öflugum tækjakosti. Háfell ehf. kappkostar að beita fullkomnum og kraftmiklum vinnuvélaflota í öllum sínum verkum. Fyrirtækið býr ávallt að nýlegum og traustum tækjabúnaði sem stenst kröfur um nútíma vinnuaðferðir, en jafnframt er mikið lagt upp úr því að tækin mengi ekki umhverfið. Í flota Háfells ehf. eru m.a. gröfur með allt frá tveggja tonna og upp í 50 tonna getu ásamt vörubílum, malarvögnum og námubifreiðum. Háfell rekur jafnframt vélaleigu og hægt er að semja um leigu á tækjum ef óskað er.

Metnaðarfullur mannauður
Þrátt fyrir góðan tækjakost, þá er það alltaf metnaðarfullur mannauðurinn sem er kjölfestan í öllum atvinnurekstri. Háfell ehf. er traustur vinnustaður þar sem starfsframlag fólks er metið að verðleikum. Starfsmannafjöldanum fækkaði mikið eftir gerð Héðinsfjarðarganga 2010 og telur hann nú að jafnaði um 30 manns. Stór hluti þeirra hefur starfað innan fyrirtækisins um áratuga skeið og miðlað af sinni dýrmætu reynslu og þekkingu, hvað varðar verklegar framkvæmdir. Fyrirtækið leggur jafnframt mikla áherslu á að bjóða upp á notalega vinnuaðstöðu og stuðla að símenntun mannaflans til þess að gera hann enn hæfari til að takast á við krefjandi og spennandi verkefni

Við lifum á jörðinni!

Hjá Háfelli er unnið eftir þeirri ófrávíkjanlegu reglu að framkvæmd hvers verkefnis hafi eins lítil áhrif á umhverfið eins og frekast er kostur. Ávallt er reynt að takmarka allt óþarfa jarðrask í náttúrunni og að allt efni sem til fellur sé nýtt til endurvinnslu.
Fyrirtækið leggur jafnframt ríka áherslu á að vinnutæki séu sem umhverfisvænust og að við allri skyndilegri umhverfismengun sé brugðist tafarlaust við, með viðeigandi hætti.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd