Hafnarfjarðarbær

2022

Hafnarfjörður er fallegur sjávarbær með sérstæða og áhugaverða sögu. Í dag er Hafnarfjörður þriðja stærsta sveitarfélag landsins með rétt um 30.000 íbúa og hefur þrátt fyrir að hafa margfaldast í íbúafjölda síðustu áratugina haldið sínum einstaka bæjarbrag sem einkennist af hlýleika, iðandi mannlífi, blómstrandi menningu og atvinnublæ sem hefur þróast í takti við sköpun, þarfir og tækifæri tíðarandans. www.hafnarfjordur.is

Heillandi hafnarsvæði og lifandi miðbær
Eitt af sérkennum Hafnarfjarðar er heillandi hafnarsvæðið, allt frá Suðurbakka og Óseyrarsvæði til Flensborgarhafnar. Þar er vinsæl smábátahöfn, siglingaklúbbur og á bökkunum umhverfis höfnina blómstra einyrkjar og lítil fyrirtæki í gömlum verbúðum við Fornubúðir og allt upp í fyrirtæki með fjölda manns í vinnu eins og Hafrannsóknarstofnun. Þar er einnig heimahöfn rannsóknaskipa stofnunarinnar og Hafnarfjarðarhafnar sem er ein helsta þjónustuhöfn landsins fyrir skip, útgerðir og fyrirtæki í hafsækinni starfsemi. Atvinnustarfsemi bæjarins er afar fjölbreytt og teygist út í öll hverfi bæjarins, enda hefur uppbygging innan ólíkra hverfa verið hröð og kallað á aukna þjónustu. Má þar t.d. nefna Hellnahverfið við hlið Vallahverfis sem er að koma sterkt inn með fjölbreytta og ólíka starfsemi.
Lifandi miðbærinn og blómstrandi Norðurbakkinn eru kjarninn sem faðmar Fjörðinn og þar má m.a. sjá mörg falleg hús teiknuð af Guðjóni Samúelssyni, húsameistara ríkisins, frá fyrri hluta 20. aldar. Jafnframt státar Hafnarfjörður af stærstu samfelldu byggð bárujárnsklæddra timburhúsa á Íslandi. Í miðbænum hefur verslun og þjónusta vaxið mikið á skömmum tíma með tilkomu m.a. sérvöruverslana og smákaupmanna sem leggja áherslu á umhverfisvernd og plastlausan lífstíl. Einnig eru þar rótgróin áratuga gömul og vinsæl fyrirtæki þar sem eigendurnir eru í nánast öllum tilfellum sjálfir við þjónustu og afgreiðslu. Þessi bæjarhluti iðar af mannlífi allan ársins hring, enda margt fallegt að sjá og njóta, með Hamarinn sem gnæfir yfir byggðinni, skrúðgarðinn Hellisgerði og fuglalífið á Hamarskotslæk. Þá hafa ný hverfi sprottið upp og/eða stækkað samhliða mikilli uppbyggingu og fjölgun íbúa.

Sérstæð og áhugaverð saga
Hafnarfjörður fékk kaupstaðarréttindi 1. júní árið 1908 og þá voru íbúar 1469 talsins. Þá var ekkert skipulag á byggðinni og fáar götur í bænum, aðallega Strandgata og Reykjavíkurvegur. Að öðru leyti voru slóðar og stígar. Byggð varð til í kringum sjósókn, verslun og siglingar og bærinn varð snemma á öldum einn helsti verslunar- og hafnarbær landsins. Fyrsta almennings-rafveitan á Íslandi var sett upp árið 1904 í Hafnarfirði af Jóhannesi Reykdal. Íslenskur kaupmaður, Bjarni riddari Sívertsen, átti drýgstan þátt í uppgangi Hafnarfjarðar í kringum aldamótin 1800 og rak þar mikla verslun, gerði út mörg þilskip og setti á stofn skipasmíðastöð. Talað hefur verið um hann sem föður Hafnarfjarðar.
Hafnarfjörður er byggður að miklum hluta til á hrauni sem rann fyrir 8.000 árum úr Búrfellsgíg skammt norðaustur frá Kaldárseli til suðurs og suðvesturs. Veigamesti hraunstraumurinn er kallaður Hafnarfjarðarhraun og landslag sveitarfélagsins er umlukið mosagrónu hrauni sem setur sterkan svip á byggðina. Lengi hafa menn trúað því að í Hafnarfjarðarhrauni leynist huliðsvættir sem ekki er öllum gefið að sjá en hafa lifað í sátt og samlyndi við menn og dýr. Að flatarmáli er landsvæði Hafnarfjarðar 143,3 km2.

Heilsubærinn – andleg og líkamleg vellíðan
Heilsubærinn Hafnarfjörður er fallegur bær frá náttúrunnar hendi og óspillt náttúra bæjarlandsins er nýtt til útivistar, hreyfingar og fræðslu. Stakstæð fell eru áberandi kennileiti og má þar nefna Helgafell, Valahnjúka og Ásfjall, sem stendur næst byggðinni. Landslagið er afar fjölbreytilegt og þar finnast sérstæð náttúrufyrirbrigði og áhugaverðir staðir, s.s. Krýsuvík, Valaból, Hvaleyrarvatn, Höfðaskógur og Kleifarvatn. Einnig er vinsæl gönguleið umhverfis Ástjörn og Víðistaðatún nýtt á marga vegu, enda nægt pláss þar og góð aðstaða.
Árið 2015 gekk Hafnarfjarðarbær til samninga við Embætti landlæknis um að gerast Heilsueflandi samfélag. Sveitarfélagið ásetti sér að stuðla að aukinni andlegri og líkamlegri vellíðan íbúa á öllum aldri með heilsueflandi aðgerðum til frambúðar, s.s. að efla opin svæði og göngu- og hjólastíga, jafna aðgengi allra og hvetja íbúa til að neyta hollrar fæðu. Samstarf var aukið við félagasamtök, fagfólk, áhugafólk og heilsugæslu og byggður upp samstarfsvettvangur viðkomandi aðila þar um, með þátttöku ungmennaráðs, öldungaráðs, ráðgjafaráðs og fjölmenningarráðs. Lífsgæðasetur St. Jó var opnað í september 2019 í því reisulega húsnæði sem áður hýsti St. Jósefsspítala. Þar starfar fjöldi fyrirtækja sem á það sammerkt að bjóða upp á þjónustu sem eflir og eykur heilsu og lífsgæði. Þetta fallega hús hefur þannig fengið nýtt og mikilvægt hlutverk í að skapa Hafnarfirði sérstöðu sem heilsueflandi samfélag. Frítt er í sund fyrir börn og ungmenni 17 ára og yngri auk þess sem veittir eru styrkir til frístundastarfs fyrir 6-17 ára og eldri borgara. Rík áhersla er einnig lögð á andlega hressingu og félagsleg tengsl og þar spila menningarstofnanir sveitarfélagsins stórt hlutverk með heilsueflandi viðburðum og sýningum.
Í Hafnarfirði eru þrjár sundlaugar, um 25 íþróttafélög og 64 leik- og sparkvellir. Bærinn er búinn fjölda fallegra göngu-, hlaupa- og hjólaleiða víða í bæjarlandinu og hefur áhugi á útivist aukist hratt á undanförnum árum. Árið 2019 gekk Hafnarfjarðarbær til liðs við Grænni byggð, samstarfsvettvang fyrirtækja, stofnana og sveitarfélaga sem vilja stuðla að sjálfbærni í hinu byggða umhverfi og vistvænum áherslum í uppbyggingu. Leiðanet Strætó Bs. í Hafnarfirði var breytt og bætt á árinu 2020 og þar með stigið fyrsta skrefið í átt að nýju leiðaneti Strætó og Borgarlínu.

Skólabærinn – skapandi skólastarf
Í Hafnarfirði eru 2 framhaldsskólar, 11 grunnskólar, 18 leikskólar, tónlistarskóli og Tæknifræðisetur Háskóla Íslands. Hafnfirskt skólastarf einkennist af krafti og samheldni skapandi starfsfólks á öllum skólastigum og öflugu samstarfi skólasamfélagsins. Frístundaheimili og félagsmiðstöðvar skipa mikilvægan sess í skólalífi bæjarins. Ungmennahúsið Hamarinn starfar fyrir ungt fólk á aldrinum 16-25 ára í gömlu skattstofunni að Suðurgötu 14. Þar er starfað eftir gildum jafnréttis, vináttu og vellíðunar og boðið upp á fjölbreytta fræðslu, hvatningu og samveru í jákvæðu félagslegu umhverfi og aðstoðað með viðeigandi ráðgjöf og þjónustu fagaðila, t.d. sálfræðinga ef þess er óskað. Eilítið sérhæfðara ungmennahús, Músík og Mótor, er starfrækt að Dalshrauni 10. Félagsmiðstöð fyrir 13-20 ára sem snýst annars vegar um viðgerðir á hvers kyns tækjum og tólum og hins vegar aðstöðu fyrir tónlist og æfingar. Þá fer það fram skipulagt starf fyrir ungt fólk á flótta og ungt fólk af erlendum uppruna.
Í Hafnarfirði eru íþróttir og tómstundir stundaðar af kappi og talað hefur verið um að a.m.k. helmingur bæjarbúa æfi ýmist með einhverjum af þeim 25 íþróttafélögum sem starfandi eru innan sveitarfélagsins eða leggi stund á einhvers konar tómstundir, s.s. tónlist, skátastarf og fleira. Bæjaryfirvöld og starfsfólk sveitarfélagsins eru mjög meðvituð um að öflugt íþróttastarf sé um leið mikilvægt forvarnarstarf og markvisst hefur m.a. verið lögð áhersla á að reyna að ná til barna af erlendu bergi brotnu og þeirra sem koma frá tekjulægri heimilum. Foreldrarölt út frá hverjum skóla spilar einnig mikilvægt hlutverk í stóra samhenginu, sem og allt gott samstarf skóla og forráðamanna nemenda.
Velferðarþjónusta – öflugt og aðlagað samfélag
Hafnarfjarðarbær leggur áherslu á öfluga velferðarþjónustu. Tekur þjónustan mið af þörfum einstaklinga hverju sinni og koma notendaráð að mótun hennar. Hafnarfjarðarbær hefur verið leiðandi í mótun þjónustu við fjölskyldur og börn og hefur verklag Brúarinnar verið þróað sem felur í sér snemmtækan stuðning við börn, samþættingu og stigskiptingu þjónustunnar. Samvinna sviða, skóla, stofnana og fagfólks sem kemur að vinnu með börnum og fjölskyldum er þar lögð til grundvallar. Hafnarfjarðarbær og UNICEF á Íslandi skrifuðu undir samstarfssamning í mars 2019 um innleiðingu á Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og stefnir að því að hljóta viðurkenningu sem barnvænt sveitarfélag UNICEF.
Sólvangsreiturinn er að verða vettvangur nýsköpunar og framþróunar í þjónustu við eldri borgara og hefur mikil uppbygging verið í þjónustu á svæðinu. Þar hófst rekstur nýs hjúkrunarheimilis sumarið 2019. Í eldra húsnæði Sólvangs er rekin almenn dagdvöl fyrir eldri borgara og dagþjálfun fyrir heilabilaða tekur til starfa í byrjun sumars 2021. Unnið er að nýrri tegund þjónustu í eldra húsnæði Sólvangs en þar verða 11 hjúkrunarrými og 39 endurhæfingar- og skammtímarými. Þannig má segja að í hjarta bæjarins er að verða til fjölþætt þjónusta fyrir eldri borgara þar sem stutt er við íbúa til að lifa sjálfstæðu lífi á eigin heimili. Mikil áhersla hefur einnig verið á heilsueflingu fyrir 65 ára og eldri íbúa og er komin góð reynsla á svokallað Janusarverkefni sem eykur lífsgæði eldra fólks. Hafnarfjarðarbær hefur skrifað undir samkomulag við Alzheimersamtökin um að gerast Styðjandi samfélag sem felur í sér að vinna saman að innleiðingu á samfélagi sem er vinveitt, styðjandi og meðvitað um þarfir fólks með heilabilun. Á árinu 2021 munu hvorutveggja Alzheimersamtökin og Parkinsonsamtökin flytja starfsemi sína í Lífsgæðasetur St. Jó og byggja þar upp þjónustumiðstöð og dagdvalarrými.
Markviss uppbygging hefur verið í þjónustu við fatlað fólk frá því að málaflokkurinn kom til sveitarfélagsins. Búsetukjarnar hafa risið, vinnu- og virkniúrræði bæði fyrir börn og fullorðna verið sett á laggirnar, dagþjónusta fyrir geðfatlaða verið efld o.fl. Nýsköpun í þjónustu hefur verið einkennandi fyrir uppbygginguna og sveitarfélagið tekið á móti viðurkenningum bæði hérlendis og erlendis vegna þeirra úrræða.

Menningarbærinn – listin auðgar andann
Hafnarfjörður er vinsæll meðal Íslendinga og aðsókn erlendra ferðamanna til bæjarins hefur aukist jafnt og þétt. Byggð hefur verið upp fjölbreytt verslun og þjónusta fyrir heimafólk og vini Hafnarfjarðar, s.s. fjöldi veitingastaða og kaffihúsa um allan bæ með sinn sjarma og sérstöðu. Boðið er upp á fjölda viðburða og skemmtana sem laða að fjölda gesta sem kunna vel að meta fjölbreytileikann í menningarlífi bæjarins. Ýtt er undir einstaklingsframtakið og fjölbreytileikann með veitingu menningarstyrkja til verkefna og viðburða á heimavelli.
Bæjarbíó, Gaflaraleikhúsið, Leikfélag Hafnarfjarðar, Lúðrasveit Hafnarfjarðar og fjöldi kóra skipa stóran sess í menningarlífi bæjarins. HEIMA hátíðin er haldin síðasta vetrardag, Sönghátíð í Hafnarborg að sumri og Hjarta Hafnarfjarðar, lengsta tónlistarhátíð landsins er haldin í Bæjarbíó yfir hásumarið. Byggðasafn Hafnarfjarðar, Hafnarborg og Bókasafn Hafnarfjarðar eru vinsælir viðkomustaðir þeirra sem vilja drekka í sig sögu og menningu Hafnarfjarðarbæjar, en frítt er inn á öll söfn. Fornri menningu landnámsmanna og víkinga má kynnast í víkingaveislum Fjörukrárinnar og á víkingahátíðum. Þá er lista- og menningarhátíðin Bjartir dagar haldin ár hvert í tengslum við Sumardaginn fyrsta og á aðventunni heimsækja fjölmargir jólaþorpið sem hefur notið sívaxandi vinsælda og Hafnarfjörður stimplað sig inn sem jólabærinn í hug og hjörtu Hafnfirðinga og vina Hafnarfjarðar. Ekki má heldur gleyma alþjóðlega höggmyndagarðinum á Víðistaðatúni.

Snjallbærinn – snjallar og nýjar lausnir
Árið 2020 voru tekin ákveðin skref í að gera Hafnarfjarðarbæ enn snjallari en lögð hefur verið mikil áhersla á að umbylta rafrænni þjónustu sveitarfélagsins. Upplýsingatækni er nýtt til að bæta gæði og skilvirkni þjónustunnar, stytta boðleiðir og afgreiðslutíma og koma á enn betri samskiptum við íbúa og fyrirtæki. Vefur bæjarins tekur á allri starfsemi sveitarfélagsins og er áhersla lögð á einfalt aðgengi að mikilvægum og hagnýtum upplýsingum á mörgum tungumálum m.a. með öflugri leitarvél, reiknivélum, kortavef og greiðum aðgangi að starfsfólki í gegnum síma, tölvupóst, netspjall og samfélagsmiðla.
Snjöll innleiðing nær líka til umhverfisins. Þannig hefur t.a.m. veðurstöð verið komið upp í miðbæ Hafnarfjarðar sem birtir rauntíma upplýsingar um úrkomu, vindátt, vindhraða, svikryksmengun, uppgufun, sólargeislun og loftþrýsting auk veðurspár. Færanlegir loftgæðamælar eru nýttir innanhúss svo að hægt sé að bregðast fljótt og örugglega við aðstæðum sem kynnu að hafa áhrif á loftgæði auk þess sem skynjurum hefur verið komið fyrir í völdum ruslatunnum sem lið í tilraunaverkefni. Öll þessi snjalla innleiðing felur í sér hagræðingu og sparnað og er til þess fallin að auka skilvirkni og bæta þjónustu.

COVID-19 og Hafnarfjarðarbær
COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft víðtæk áhrif á Hafnarfjarðarbæ og reynt mikið á framvarðasveit sveitarfélagsins m.a. í félagsþjónustu og menntamálum og þannig á nærþjónustuna, þ.m.t. þjónustu við eldri borgara, fatlað fólk og barnavernd svo fátt eitt sé nefnt. Hjá bænum lögðust allir á eitt við að forgangsraða verkefnum, verja grunnstoðir samfélagsins og halda úti samfélagslega mikilvægri þjónustu og starfsemi á öllum viðbragðsstigum. Stjórnendur og starfsfólk búsetukjarna, skóla, heimila og stofnana virkjuðu sínar viðbragðsáætlanir og gripu til samræmdra aðgerða í takt við tilmæli og leiðbeiningar Landlæknis, sóttvarnalæknis og almannavarna. Einnig var brugðist við afleiðingum COVID-19 faraldursins með aðgerðaáætlun þar sem heilsa og velferð íbúa og starfsfólks Hafnarfjarðarbæjar var sett í forgang og létt á greiðslubyrði íbúa og fyrirtækja. Áhersla var lögð á að hraða skipulagsvinnu á uppbyggingarsvæðum og að auka viðhald, framkvæmdir og uppbyggingu innviða. Komið var til móts við íþrótta- og tómstundafélög í bænum til að verja rekstur þeirra og starfsemi. Leitað var leiða til þess að standa vörð um menningar- og listalíf bæjarins og að efla skapandi greinar á fordæmalausum tímum.

Fjölbreytni í mannauði og verkefnum
Hafnarfjarðarbær er langstærsti vinnustaður Hafnarfjarðar. Þar starfa um 2.200 manns, þar af um 850 háskólamenntaðir starfsmenn í um 100 grunnstarfsheitum á um 70 starfsstöðvum auk fjölda sumarstarfa. Fjölbreytnin er mikil, bæði í mannauði og verkefnum. Hafnarfjarðarbær er áhugaverður og góður vinnustaður sem dregur að, eflir og heldur í hæft og áhugasamt starfsfólk. Þar er lögð áhersla á að skapa starfsumhverfi með tækifærum til aukinnar þekkingar, þróunar og að starfsfólk fái hvatningu til að sýna frumkvæði og njóta sín í starfi. Um árabil hefur starfsfólk í leikskólum bæjarins fengið námsstyrki frá bænum til að stunda nám í leikskólakennarafræðum og mikil áhersla lögð á að styðja vel við nýliðun og nám í faginu. Þannig eru tækifæri og möguleikar opnir ófaglærðu starfsfólki. Ákveðin fríðindi fylgja því að starfa hjá bænum, s.s. frítt í sund, bókasafnskort, líkamsræktarstyrkur og samgöngusamningar.
Bæjarstjórn Hafnarfjarðar skipa 11 fulltrúar. Frá árinu 2018 skipa meirihluta bæjarstjórnar Hafnarfjarðar bæjarfulltrúar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.  Markmið Hafnarfjarðarbæjar er og hefur ávallt verið að standa við vörð um velferðar- og grunnþjónustu samhliða því að standa við félagslegar og fjárhagslegar skuldbindingar.

Huggulegasti heimabær höfuðborgarsvæðisins
Hafnarfjörður er huggulegur bær sem hefur allt til alls. Innan bæjarmarkanna er í boði fjölbreytt verslun og þjónusta, menningarlíf og afþreying og fullkomin aðstaða til útivistar bæði miðsvæðis og í upplandinu. Undanfarin ár hefur fjöldi nýrra þjónustuaðila og verslana séð tækifæri til opnunar og vaxtar í stækkandi samfélagi sem mun eflast og stækka enn frekar á komandi árum með uppbyggingu byggðar m.a. í Skarðshlíðarhverfi og Hamranesi, við Hraun-vestur, á hafnarsvæðinu og víðar. Heim til Hafnarfjarðar eru allir velkomnir.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd