Hafrannsóknastofnun rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna

2022

Hafrannsóknastofnun, rannsókna- og ráðgjafarstofnun hafs og vatna – hafogvatn.is
Rannsóknir og vöktun á lífríki hafs og vatna er grundvöllur sjálfbærar nýtingar auðlinda. Íslensk þjóð á mikið undir þegar kemur að lifandi auðlindum hafs og vatna og árið 2020 voru um 40% útflutningstekna þjóðarinnar frá fiskveiðum og fiskeldi. Fyrir þjóð sem á stóran hluta lífsafkomu sinnar undir auðlindum hafsins er mikilvægt að stunda öflugar rannsóknir og vöktun á umhverfisþáttum og lífríki. Hafrannsóknastofnun er leiðandi í rannsóknum á vistkerfum hafs og vatna og veitir ráðgjöf um sjálfbæra nýtingu til stjórnvalda og hagsmunaaðila.

Hlutverk stofnunarinnar er skilgreint í lögum nr. 112/2015
Helstu lögbundnu verkefnin eru að:
afla með rannsóknum alhliða þekkingar á hafinu, ám og vötnum landsins og lífríki þeirra, með áherslu á hvernig nýta megi lifandi auðlindir með sjálfbærum hætti
treysta undirstöður vísindalegrar ráðgjafar um nýtingu og ræktun nytjastofna sjávar, áa og vatna.
veita stjórnvöldum og hagsmunaaðilum ráðgjöf og þjónustu varðandi sjálfbæra nýtingu á grundvelli sjálfbærra viðmiða og nýtingarstefnu stjórnvalda.
stunda rannsóknir sem miða að aukinni nýsköpun og fjölbreytni í öflun sjávarfangs og nýtingu ferskvatnsvistkerfa.
rannsaka hvernig fiskeldi og fiskrækt megi best stunda í sátt við íslenska náttúru og villta stofna.

Saga og uppbygging
Hafrannsóknastofnun hefur starfað frá árinu 2016 en með lögum nr. 115/2015 voru Hafrannsóknastofnun og Veiðmálastofnun sameinaðar. Báðar stofnanirnar voru rótgrónar og höfðu verið starfræktar um langt skeið, Veiðimálastofnun frá árinu 1946 og Hafrannsóknastofnun frá 1965. Fyrsti forstjóri sameinaðrar stofnunar var Sigurður Guðjónsson en hann lét af störfum í mars 2021 og við starfinu tók Þorsteinn Sigurðsson. Á vormánuðum 2020 flutti stofnunin í nýtt húsnæði að Fornubúðum 5 í Hafnarfirði en hafði frá sameiningu verið til húsa í Sjávarútvegshúsinu að Skúlagötu 4 í Reykjavík þar sem Hafrannsóknastofnun hafði verið frá árinu 1965. Í júní var formleg vígsla og því fagnað að starfsemin á höfuðborgarsvæðinu er nú sameinuð á einum stað. Af tæplega 190 starfsmönnum stofnunarinnar starfa um 130 manns í húsinu og aðstaða öll til fyrirmyndar enda var húsið hannað með þarfir Hafrannsóknastofnunar í huga og þá leggjast nú rannsóknaskipin að bryggju við hlið aðalstöðvanna. Auk starfseminnar í Hafnarfirði er stofnunin, í árslok 2020, með 8 starfsstöðvar á landbyggðinni. Starfsstöðvarnar sinna m.a. nauðsynlegri sýnatöku úr afla auk þess sem hver stöð er einnig sérhæfð á ákveðnum sviðum rannsókna og vöktunar og er mikilvægur hlekkur í starfsemi stofnunarinnar.
Starfsemi hafrannsóknastofnunar er skipt í fjögur megin rannsóknasvið, þ.e. botnsjávarsvið, uppsjávarsvið, fiskeldissvið og ferskvatnssvið. Þá rekur stofnunin Sjávarútvegsskóla Þróunar-samvinnumiðstöðvar UNESCO sem er hluti af GRÓ og eru nú 28 nemendur við skólann. Heildar velta stofnunarinnar á árinu 2020 var 4,2 milljarðar en þar af var 3,2 framlag ríkissjóðs. Framkvæmdastjórn stofnunarinnar er skipuð 7 einstaklingum, þ.e. forstjóra ásamt sviðsstjórum rannsóknasviða, fjármálastjóra og mannauðsstjóra. Alþingi samþykkti árið 2018 smíði nýs rannsóknaskips fyrir stofnunina sem skyldi leysa af hólmi rs. Bjarna Sæmundsson sem kominn er til ára sinna eftir þjónustu í hafrannsóknum við Ísland allt frá árinu 1970. Unnið er að hönnun en gert er ráð fyrir að smíði skipsins geti hafist á vormánuðum 2022 og að skipið verði komið í rekstur vorið 2024. Við hönnun skipsins er horft til ýmissa leiða til að draga úr notkun á jarðefnaeldsneyti enda fara þar vel saman umhverfissjónarmið og hagkvæmari rekstur skipa.

Kjarnastarfsemi stofnunarinnar
Viðfangsefni rannsóknasviða stofnunarinnar eru mörg og spanna mörg fræðasvið. Viðfangsefnið er allt frá hafsbotni, allar lífverur á og ofan hans sem og fjörur, ár og vötn á landi. Þannig er t.d. unnið að kortlagningu hafsbotnsins í lögsögu Íslands sem áætlað er að verði lokið um 2030. Vöktunarrannsóknir á ástandi lífríkisins, eðlis- og efnafræði er eitt af mikilvægum verkefnum stofnunarinnar. Niðurstöður þessara rannsókna eru ekki aðeins mikilvægar fyrir hinar ýmsu umhverfis- og vistfræðirannsóknir heldur einnig til að auka skilning og þekkingu á breytingum í m.a. á súrnun sjávar. Miklar breytingar hafa orðið í umhverfisþáttum á undanförnum áratugum og hafa þær m.a. haft áhrif á útbreiðslu og dreifingu tegunda. Skýr dæmi um slíkar breytingar eru varðandi loðnu og makríl. Stofnstærð loðnu hefur minnkað og útbreiðsla færst vestar og norðar en áður og makríll gekk um tíma í miklum mæli inn í íslenska lögsögu. Þá hafa bleikjustofnar minnkað mikið. Rannsóknir á lífríkinu beinast að stórum hluta að mati á stofnstærðum nytjastofna, viðgangi, atferli og samspili lífrænna og ólífrænna þátta innan vistkerfisins sem og mati á áhrifum athafna manna á það. Vöktun nytjastofna er viðamesti þátturinn í starfsemi stofnunarinnar og er undirstaða mats á stofnstærðum og veiðiþoli stofna. Árlega er stjórnvöldum veitt ráðgjöf um veiðar á um 40 nytjastofnum auk ráðgjafar um ýmis málefni vaðandi vernd og nýtingu hafs og vatna. Þá veitir stofnunin umsagnir og ráðgjöf um ýmis málefni, m.a. varðandi framkvæmdir í sjó og á landi sem áhrif geta haft á vatn og vatnsgæði. Vaxandi eldi sjávardýra kallar á ýmsar nýjar rannsóknir og vöktun svo það megi stunda í sátt við samfélag og náttúru. Laxeldi í sjókvíum er lang viðamesta eldið sem hér er stundað á Vest- og Austfjörðum. Hafrannsóknastofnun styður við þá uppbyggingu með rannsóknum á fiskeldi og áhrifum þeirra á umhverfi. Til þeirra rannsókna hefur stofnunin yfir að ráða fullkominni rannsóknastöð að Stað við Grindavík en stöðin hefur verið starfrækt í um 30 ár. Þá hefur umfang rannsókna vegna eldis í fjörðum aukist undanfarin ár en þær rannsóknir eru grundvöllur ráðgjafar um burðarþol og þar með sjálfbæra nýtingu eldissvæða. Hafrannsóknastofnun tekur þátt í umfangsmiklu samstarfi innan ýmissa alþjóðastofnanna en viðamesta samstarfið er við Alþjóðahafrannsóknaráðið (ICES). Auk þess er gott samstarf við stofnanir, háskóla og einstaklinga á fræðasviði stofnunarinnar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd