Hagar hf.

2022

Hagar hf. er leiðandi verslunarfyrirtæki á íslenskum matvöru-, sérvöru- og eldsneytismarkaði og var félagið stofnað í núverandi mynd árið 2003. Í lok árs 2020 starfrækti félagið 39 matvöruverslanir undir vörumerkjum Bónus og Hagkaups, 26 Olís þjónustustöðvar, 43 ÓB stöðvar, tvær birgðaverslanir, tvö apótek, þrjár sérvöruverslanir, tvö vöruhús og tvær framleiðslustöðvar. Kjarnastarfsemi Haga er á sviði matvöru og tengdra vöruhúsa, auk eldsneytissölu. Hagar hafa á síðasta áratugi einnig rekið fjölda sérvöruverslana sem að boðið hafa lífsstíls- og tískutengdar vörur.
Velta Haga fyrir rekstrarárið 2020 til 2021 voru um 119 milljarðar króna. Árið 2011 var Hagar skráð á aðallista NASDAQ OMX Iceland. Höfuðstöðvar Haga eru til húsa í Holtagörðum, Holtavegi 10, og starfsmannafjöldi í samstæðu Haga í árslok 2020 var um 2470 manns.
Rekstrareiningar Haga eru reknar sem sjálfstæð fyrirtæki með ólík rekstrarform og menningu. Öll fyrirtækin leggja þá áherslu á hagkvæman rekstur, góða þjónustu og gott vöruúrval. Helsta hlutverk Haga er að veita þessum fyrirtækjum skýrt aðhald og aðstoða þau við reksturinn á eins hagkvæman hátt og unnt er. Gildi Haga eru þjónustulund, samvinna, hagkvæmni og framsækni. Hagar búa yfir áralangri þekkingu á viðskiptum og smásölu og hafa áunnið traust viðskiptavina um langt árabil.

Matvöruverslanir Haga
Bónus er stærsta einstaka rekstrarfélagið innan Haga. Bónus er keðja lágvöruverðsverslana sem frá stofnun árið 1989 hefur boðið viðskiptavinum sínum lægsta mögulega matvöruverð á Íslandi. Hönnun Bónusverslana miðar öll að því að halda rekstrarkostnaði í lágmarki. Áhersla er lögð á lítinn íburð í verslunum, stöðugt kostnaðaraðhald og mikinn veltuhraða birgða. Bónus hefur lagt áherslu á einfaldleika í rekstrinum og stefnumarkandi vöruval fyrir lágvöruverðsverslun. Eitt af leiðarljósum Bónus hefur ávallt verið að láta viðskiptavininn njóta hluta ábatans af því þegar nást hagstæðir innkaupasamningar með lágri álagningu. Einnig hefur Bónus alltaf haft sama verð í öllum verslunum á landinu. Árið 2020 voru verslanir Bónus 31 talsins um land allt og hjá fyrirtækinu störfuðu um 880 starfsmenn.
Hagkaup var stofnað árið 1959 og á starfsemi fyrirtækisins djúpar rætur í samfélaginu enda verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins í rúm 60 ár. Í upphafi var Hagkaup rekið sem póstverslun sem sendi vörur beint frá birgðageymslu upp að dyrum kaupandans. Fyrsta Hagkaupsverslunin var opnuð við Miklatorg árið 1967 og árið 1970 opnaði Hagkaup verslun sína í Skeifunni, sem er eitt helsta flaggskip starfseminnar enn þann dag í dag. Hagkaup býður breitt úrval af vörum til daglegra þarfa í matvöru, fatnaði, snyrtivöru, húsbúnaði og tómstundavöru. Hagkaup leggur sérstaka áherslu á þjónustu og gott aðgengi að vörum og kappkostað er að gera verslunarferðina eins skemmtilega og hagkvæma fyrir viðskiptavininn og mögulegt er. Í árslok 2020 voru verslanir Hagkaups 8 talsins og starfsmenn um 740.

Þjónustu- og bensínstöðvar
Olís var stofnað 1927 og er því elsta fyrirtækið í samstæðu Haga, en Hagar keyptu allt hlutafé í Olís árið 2018. Olís sérhæfir sig í sölu og þjónustu með eldsneyti og aðrar olíuvörur, auk skyndibita, ýmissa nauðsynjavara fyrir bílaeigendur, vörum til útivistar og ferðalaga ásamt fjölþættri þjónustu við sjávarútvegs-, verktaka- og flutningafyrirtæki um land allt. Grunnrekstur Olís hefur ávallt verið eldsneytissala, en með nýtingu á dreifineti fyrirtækisins og sérfræðiþekkingu hefur aukist sala á öðrum vörum, líkt og smurolíum, efnavörum, rekstrarvörum, gasi og nýlenduvörum. Árið 2020 rak Olís 69 þjónustu- og bensínstöðvar undir merkjum Olís og ÓB. Hjá fyrirtækinu starfa um 490 starfsmenn.

Vöruhús
Árið 1993 stofnuðu Bónus og Hagkaup sameiginlegt innkaupafyrirtæki undir nafninu Baugur ehf., en fyrirtækið fékk nafnið Aðföng fimm árum síðar. Aðföng er innkaupa- og dreifingarmiðstöð á smásölu- og stórnotendamarkaði en starfsemi fyrirtækisins felst í innkaupum, birgðahaldi og dreifingu fyrir verslanir Bónus, Hagkaups og Olís. Innkaup Aðfanga felast annars vegar í viðskiptum við innlenda birgja og hins vegar innflutningi og vöruþróun eigin vörumerkja í samstarfi við matvörukeðjurnar. Aðföng flytur einnig inn áfengi sem selt er í verslunum ÁTVR og sölunni stýrt í gegnum félagið Vínföng. Markvisst hefur verið unnið að uppbyggingu í vöruflokknum síðastliðin ár. Aðföng er eitt stærsta og tæknivæddasta vöruhús landsins. Þar er lögð mikil áhersla á stærðarhagkvæmni og er nýjasta tækni nýtt við rekstur vöruhússins hvar sem því verður við komið. Vöruhús Aðfanga er því sem næst pappírslaust og öflug tölvukerfi halda utan um feril vara frá upphafi til enda. Aðföng reka einnig alla starfsemi Ferskra Kjötvara sem að vinnur kjöt úr nauti, lambi og grís. Ferskar Kjötvörur leggja mikla áherslu á ferskleika, gæði og rekjanleika vara. Ferskar Kjötvörur sjá verslunum Hagkaups og Bónus fyrir kjöti og selja einnig til veitingahúsa og annarra aðila. Hjá Aðföngum starfa um 150 starfsmenn.
Bananar ehf. var stofnað árið 1955 og er næst elsta fyrirtækið í samstæðu Haga. Bananar er stærsti dreifingaraðili á fersku grænmeti og ávöxtum á Íslandi og jafnframt eitt stærsta innflutningsfyrirtæki landsins. Eins og nafnið gefur til kynna voru fyrstu starfsár fyrirtækisins helguð innflutningi og þroskun banana. Síðan þá hafa áherslur breyst og í dag býður fyrirtækið upp á mikið og gott úrval af bæði íslensku og erlendu grænmeti og ávöxtum allan ársins hring. Vörum er dreift til viðskiptavina sex daga vikunnar, þar af til verslana Bónus og Hagkaups.
Viðskiptavinir Banana samanstanda af verslunum, veitingahúsum, sjúkrahúsum, skólum, leikskólum, mötuneytum o.fl. Starfsmenn fyrirtækisins voru um 80 talsins árið 2020.

Sérvöruverslanir og önnur starfsemi
Árið 2020 ráku Hagar tvær sérvörukeðjur undir vörumerkjum Útilífs og Zara. Auk þess áttu Hagar 90% hlut í Reykjavíkur Apóteki sem rekur tvö apótek undir vörumerki sínu.

Hagar og eigin vörumerki
Í heimi verslunar leitast menn við að skapa sérstöðu með ýmsum hætti. Þekkt leið er m.a. að bjóða upp á mesta úrvalið, vera með lægsta verðið eða bestu þjónustuna. Þegar kemur að vöruúrvali og vörumerkjum hafa verslanir í auknu mæli lagt áherslu á að hafa sérstöðu á því sviði. Hagar hafa því aukið framleiðslu á eigin vörum á síðustu árum. Eigin vörumerkjum Haga má skipta í tvo flokka; eigin merki (e. private label) og merki hússins (e. house brand). Munurinn á þessum tveimur flokkum er annars vegar merki sem búið er til frá grunni af Högum og hins vegar eru merki hússins vörumerki sem Hagar hafa umboð fyrir og gera að sínum vörumerkjum.
Bónusmerktar vörur eru líklega sterkasta eigin merki Haga. Bónus vörurnar hafa allt frá stofnun tryggt sérstöðu á markaði og mikið virði í hugum viðskiptavina. Hagkaup hefur einnig framleitt töluvert af eigin vörum með góðum árangri, má þar til dæmis nefna Hagkaups hamborgarhrygginn sem hefur lengi verið sá mest seldi fyrir jólin á Íslandi.
Á síðustu árum hafa fyrirtæki Haga skipulega unnið að því að fjölga eigin vörumerkjum. Eitt sterkasta vörumerkið sem að Hagar hafa búið til í seinni tíð er lífræna merkið Himneskt. Þar unnu starfsmenn Haga að vöruþróun í samvinnu við Sólveigu Eiríksdóttur að lífrænni vörulínu. Vörulínan hefur notið mikilla vinsælda meðal viðskiptavina Hagkaups og Bónus. Ítalía er hágæða vörumerki skapað af Hagkaup en vörurnar eru framleiddar í Toscana héraði á Ítalíu og fluttar beint frá bónda. Annað dæmi um vörumerki sem að Hagar hafa þróað er Heima. Býður vörumerkið ódýra valkosti á algengum heimilisvörum, t.a.m plastpokum, kaffi, kexi, hrísgrjónum o.fl. Íslandsnaut og Íslandslamb eru vörumerki framleidd og markaðssett af Ferskum Kjötvörum. Vörumerkin hafa náð góðri fótfestu á markaðnum þar sem að neytendur kunna vel að meta vörur með 100% kjöti frá íslenskum bændum.
Smæð íslenska markaðarins gerir það oft að verkum að ekki er möguleiki að láta sérframleiða fyrir verslanir Haga heilu vörulínurnar. Í slíkum tilfellum hafa Hagar náð góðum samstarfssamningum þar sem Hagar fá leyfi til að gera vörumerkið að sínu. Þetta eru iðulega vörumerki sem hafa sterka stöðu á öðrum mörkuðum. Euroshopper er stærsta vörumerkið í þessum flokki.
Vinnan við vöruþróun hjá fyrirtækjum Haga hefur verið lífleg síðasta áratuginn og í raun stoppar aldrei leitin að nýjum vörum á góðu verði. Hagar eru stoltir af þeirri vinnu sem unnin hefur verið á síðustu árum þar sem að vörumerkin hafa tryggt sérstöðu á markaði og fært neytendum fjölbreytta valkosti.

2012

Hagar er eitt allra stærsta og umfangsmesta verslunarfyrirtæki landsins. Undir merkjum þess eru nú rekin sex smásölufélög sem stýra starfsemi 59 verslana á íslenskum markaði. Þar fyrir utan eru starfrækt fjögur stór vöruhús sem t.d. innihalda stoðfyrirtækin Aðföng sem sér um vörudreifingu og Hýsingu sem hefur umsjón með lagerhaldi smávöru. Öll þessi fyrirtæki eru rekin sem sjálfstæðar einingar enda beinast áherslur þeirra og eðli að mjög ólíkum hlutverkum.
Meginþungi starfseminnar hjá Högum er á sviði matvöru. Þar fara fremstar tvær af stærstu verslanakeðjum landsins, Bónus og Hagkaup og tengist þeim fjölþætt stoðstarfsemi á sviði innkaupa, dreifingar og matvælavinnslu. Annar hluti rekstrarins snýr að fjöldamörgum og ólíkum sérvöruverslunum sem bjóða upp á þekkt lífstíls- og tískuvörumerki.
Helsta hlutverk Haga í dag er að veita öllum þessum fyrirtækjum skýrt aðhald og aðstoða þau við reksturinn á eins hagkvæman hátt og frekast er unnt. Á sama hátt er sífellt leitað leiða til að auka tekjumöguleika og samkeppnisstyrk hjá hverri verslunareiningu fyrir sig. Öll fyrirtæki innan Haga vinna eftir þeim megingildum að hver einasti starfskraftur sýni af sér ábyrga framgöngu og einarða þjónustulund í hvívetna.
Höfuðstöðvar Haga eru til húsa í Hagasmára 1 í Kópavogi og er heildarstarfsmannafjöldi fyrirtækisins um 2.100 manns. Stór hluti þessa hóps á að baki langa starfsreynslu hjá fyrirtækinu, sem hefur gert sitt í að þjappa saman sterkri liðsheild með tryggð, metnað og þekkingu að leiðarljósi. Meðaltalsvelta Haga á ársgrundvelli er um 68 milljarðar króna. Í desember 2011 var allt hlutafé fyrirtækisins tekið til viðskipta á aðalmarkaði NASDAQ OMX Iceland.

Bónus
Hin alkunna verslanakeðja Bónus er stærsta einstaka félagið innan Haga. Starfsemi þess hefur verið leiðandi afl á lágvöruverðsmarkaðnum alveg frá því að fyrsta verslunin var opnuð að Skútuvogi 13 þann 8. apríl árið 1989.
Stofnendur voru feðgarnir Jóhannes Jónsson og Jón Ásgeir Jóhannesson sem ráku fyrirtækið af miklum myndarbrag um árabil. Með tilkomu Bónus var mörkuð ákveðin sérstaða á íslenskum matvörumarkaði. Yfirbyggingin byggði á hagsýni og einfaldleika þar sem öllum íburði var haldið í lágmarki og kappkostað að bjóða eingöngu algengustu vöruflokkana auk þess sem opnunartíminn var eingöngu frá hádegi og fram undir kvöldmat. Í Bónus var jafnframt í fyrsta skipti tekið upp rafrænt strikamerkjakerfi sem átti eftir að leysa gömlu verðmiðana af hólmi. Mestu skipti þó að þeir feðgar Jóhannes og Jón Ásgeir staðgreiddu allar vörur til smásala og náðu þannig fram mjög hagstæðum viðskiptasamningum sem skiluðu sér í aukinni vöruveltu. Með því var hægt að minnka allan tilkostnað í rekstri og þannig skapaðist svigrúm til að keyra verðlagið duglega niður. Brátt kom að því að Bónus fór sjálft að stunda milliliðalausan innflutning, sem átti eftir að verða til mikilla hagsbóta fyrir viðskiptavini. Frá upphafi hefur fyrirtækið hvergi slegið af í lágvöruverðsstefnu sinni og í raun borið af öðrum samkeppnisaðilum í þeim efnum. Sú staða hefur ítrekað verið staðfest í verðkönnunum á undanförnum árum.
Eins og glöggt þekkist þá þurfti ekki að bíða lengi eftir því að útibú frá Bónus mundu skjóta rótum hringinn í kringum landið. Í dag eru alls 28 slíkar verslanir starfræktar á landsvísu, 18 á höfuðborgarsvæðinu og 10 úti á landi. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 800-850 manns.

Hagkaup
Starfsemi Hagkaups á djúpar rætur í samfélaginu og hefur hún verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins, í rúma hálfa öld. Fyrirtækið var upphaflega stofnað af Pálma Jónssyni stórkaupmanni árið 1959. Til að byrja með fór reksturinn fram í formi póstverslunar sem sendi vörurnar beint frá birgðageymslu og heim að dyrum til kaupandans. Fyrsta Hagkaupsverslunin leit síðan dagsins ljós við Miklatorg árið 1967 og árið 1970 var hinn alkunni stórmarkaður fyrirtækisins í Skeifunni opnaður en hann hefur æ síðan verið eitt helsta flaggskip starfseminnar.
Í dag hefur mikið vatn runnið til sjávar í langri sögu Hagkaups og hefur reksturinn ávallt náð að laga sig að síbreytilegu neyslumynstri landsmanna. Fyrir utan matvöru bjóða búðirnar nú upp á breiða línu af vörum til daglegra nota eins og fatnað, snyrtivörur, húsbúnað, raftæki og afþreyingarefni. Sífellt er leitast við að hámarka skilvirkni í rekstri og að ávinningur þess skili sér alltaf út í verðlagið. Sérstök áhersla er lögð á hátt þjónustustig ásamt góðu aðgengi að vörum og þannig er kappkostað að gera verslunarferðina að sérstakri ánægjustund fyrir viðskiptavininn. Í matvörudeildum Hagkaups eru í boði að meðaltali átta til tíu þúsund vöruliðir og í sérvöru ná þeir um þrjátíu þúsund, að teknu tilliti til árstíðabundinnar vöru. Þess ber að geta að stærsta verslunin í Smáralind er með um fjörutíu þúsund vöruliði í boði.
Undir merkjum Hagkaups eru í dag reknar ellefu stórverslanir og þar af eru sjö þeirra staðsettar á höfuðborgarsvæðinu. Þrjár þeirra eru nú opnar allan sólarhringinn. Að auki er starfrækt sérstök birgðastöð Stórkaupa á vegum fyrirtækisins þar sem t.d. mötuneyti, skip, veitingastaðir og söluturnar geta nálgast sinn kost á heildsöluverði. Aðalskrifstofur Hagkaups eru í húsnæði Holtagarða við Holtaveg í Reykjavík. Hjá fyrirtækinu starfa að jafnaði um 750-800 starfsmenn í tæplega 400 stöðugildum.

Bananar
Bananar er eitt umsvifamesta innflutningsfyrirtæki landsins og jafnframt stærsti innflytjandi og dreifingaraðili ávaxta og grænmetis hérlendis. Fyrirtækið er hið elsta í Haga samstæðunni og var upphaflega stofnað þann 18. júní árið 1955 af þeim Kristni Guðjónssyni og Eggerti Kristjánssyni. Eins og nafnið gefur til kynna fólst upphaflegur tilgangur starfseminnar í innflutningi, þroskun og dreifingu banana til smásala víðsvegar um landið. Síðan þá hafa áherslur breyst og í vöruflóruna hafa bæst fjölbreyttar tegundir ávaxta og grænmetis. Þessar vörur koma daglega með flugi og vikulega með skipum frá uppskerulöndum eins og Argentínu, Brasilíu, Bandaríkjunum, Kanada, Kína, S-Afríku og Spáni. Íslenskt grænmeti berst til fyrirtækisins á hverjum degi.
Starfsemi Banana fer fram í 4.400 fm húsnæði að Súðavogi 2e í Reykjavík og starfa þar í kringum 80 manns. Fyrirtækið ræður yfir átta bananaþroskunarklefum auk tíu annara stærri kæliklefa sem viðhalda vörugæðunum með mismunandi hitastigi. Viðskiptahópur Banana er mjög fjölbreyttur og telur um 700-1.000 aðila. Á hverjum degi eru afgreidd um 80-100 tonn af vörum út húsi í um 350 sendingum. Á ársgrundvelli gera þetta um 25.000 tonn.

Ferskar kjötvörur
Ferskar kjötvörur eru meðal stærstu kjötverkenda landsins. Starfsemi þess fer fram í Síðumúla 24 og starfa þar um 70 manns. Um er að ræða eitt af megin stoðfyrirtækjum Haga og helsta birgja kjötmetis hjá Bónus og Hagkaupi. Framleiðslan fer bæði fram í nafni verslananna auk ýmissa framleiðslumerkja hjá Ferskum kjötvörum eins og Bezt, Gott á grillið, Íslandsnaut, Jói Fel og Óðals. Fyrirtækið sér jafnframt um rekstur kjötborða í nokkrum Hagkaupsverslunum auk þess að standa fyrir alls kyns framleiðslu á hálftilbúnum og tilbúnum réttum fyrir viðskiptavini. Ferskar kjötvörur leggja sérstaka áherslu á faglega þjónustu og örugga meðhöndlun hráefnis.

Debenhams
Í verslunarmiðstöð Smáralindar í Kópavogi er að finna deildaskiptu sérvöruverslunina Debenhams sem rekin er með sérleyfi frá hinu rótgróna móðurfélagi í Bretlandi. Athafnasvæði þess er á tveimur hæðum og nær yfir 3.200 fm. Debenhams býður upp á einstakt og mjög fjölbreytt úrval af smekklegum hversdags-, spari- og tískufatnaði ásamt nauðsynlegum fylgihlutum eins og snyrtivörum, skarti og handtöskum. Þá býður verslunin upp á einhverja stærstu barnadeild landsins, sem starfrækt er með sérstakri áherslu á börn frá fæðingu og upp í 16 ára aldur. Heildarmarkmið Debenhams er að hafa fyrirliggjandi fjölbreytt og vandað úrval af gæðavöru á sanngjörnu verði. Einnig er sérstök áhersla lögð á fyrirtaks þjónustu með hlýlegu og notalegu viðmóti. Hjá Debenhams starfa
að jafnaði um 70 manns.

Útilíf
Íþrótta- og útivistarverslunin Útilíf er sú stærsta sinnar tegundar sem starfrækt er hérlendis en starfsemin hófst upphaflega árið 1974. Útibú verslunarinnar er að finna á fjórum stöðum á höfuðborgarsvæðinu; í Glæsibæ, Holtagörðum, Kringlunni og Smáralind. Að auki er um að ræða rekstur útsölumarkaðar á Korputorgi í Grafarvogi.
Útilíf sérhæfir sig í vönduðu vöruúrvali tengdu íþróttum og útivist. Þar má einu gilda hvort um er að ræða gönguskó, skíði, reiðhjól, sundföt, snjóbretti, línuskauta og veiðiútbúnað ásamt nauðsynlegum aukahlutum af hvaða tagi sem er. Leitast er við að bjóða upp á viðurkenndar vörur í hæsta gæðaflokki og að úrval þeirra sé fyrirliggjandi í breytilegum verðflokkum. Hjá Útilífi starfa í dag um 75 manns og innan þess hóps starfa sérfræðingar í hverri deild sem tryggja viðskiptavinum framúrskarandi aðstoð og þjónustu á vörum við allra hæfi.

Zara
Zara er ein stærsta tískuverslanakeðja í heimi. Þar eru fyrirliggjandi mjög fjölþættar vörulínur fyrir konur, karla og börn á öllum aldri. Mikil áhersla er lögð á sanngjarnt verð, hraða vöruveltu og að nýjar vörur sjáist að lágmarki tvisvar í viku. Tvær Zara verslanir eru nú starfræktar hér á landi, í Kringlunni og í Smáralind.

Aðföng
Aðföng er eitt stærsta og tæknivæddasta vöru- og dreifingarfyrirtæki landsins. Stærðarhagkvæmni og nýting á tækni er mikilvæg fyrir vöru- og dreifingarfyrirtæki eins og Aðföng til að ná viðeigandi skilvirkni en strikamerki eru mikilvægur þáttur í stýringu vöruhússins og öllum flutningi á vörum. Það á við hvort heldur um er að ræða tiltekt á vörum eða afhendingu til verslana, en strikamerkin gera vörur auðrekjanlegar innan vöruhússins.
Aðföng annast innkaup, birgðahald og dreifingu fyrir allar matvöruverslanir Haga.

Hýsing
Hýsing er vöruhús fyrir sérvöru sem sérhæfir sig í lagerhaldi, vörumerkingum, tollafgreiðslu og öðru sem nauðsynlegt er til að gera vöruna tilbúna til sölu í verslun. Stærsti viðskiptavinur Hýsingar er Hagkaup, ásamt sérvöruverslunum Haga og Senu.

Sólhöfn
Innan Haga samstæðunnar er starfrækt fyrirtækið Sólhöfn sem hefur á sínum snærum nokkurn fjölda tískuverslana með úrvali fatnaðar og fylgihluta undir ýmsum vörumerkjum. Þau eru ætluð mismunandi hópi viðskiptavina með sérstöku tilliti til aldurs, smekks, stærðar og verðflokks. Hjá Sólhöfn starfa um 90 manns.

Day er stytting á því annálaða danska fatamerki Day Birger et Mikkelsen í Kaupmannahöfn. Merkið er bæði ætlað körlum og konum. Ímynd þess er óhefðbundin en þó með nýtískulegri hönnun sem alsett er fallegum smáatriðum og undir áhrifum frá heimilislegum og klassískum anda fortíðarinnar. Day verslunin á Íslandi er staðsett í Kringlunni.

Dorothy Perkins er breskt tískumerki sem starfrækt hefur verið í meira en 90 ár. Helsti markhópur þess eru konur á þrítugs- og fertugsaldri í stærðunum 6-22 sem vilja gæði, góð snið og hagstætt verð. Undir þessu merki er jafnframt boðið upp á úrval af vörum fyrir hávaxnar, smávaxnar og barnshafandi konur. Dorothy Perkins verslunin er staðsett í Smáralind.

Evans er breskt kvenfatamerki sem stofnað var árið 1930. Sérhæfing þess felst í framleiðslu á tískufatnaði, undirfötum, skóm og fylgihlutum fyrir konur í stærðunum 16-32. Í dag eru reknar tvær Evans verslanir hérlendis, í Kringlunni og í Smáralind.

Karen Millen er heimsþekkt vörumerki sem stofnað var árið 1981. Ímynd þess er mörkuð með sérstakri áherslu á tískufatnað sem býr að djarfri nálgun fyrir veraldarvanar konur. Þannig er Karen Millen samheiti fyrir einstaka munaðarvöru þar sem gæði og falleg hönnun haldast í hendur. Tvær Karen Millen verslanir eru nú reknar á Íslandi, í Kringlunni og í Smáralind.

Saints er alíslenskt verslunarmerki sem býður tískuvörur frá London og París fyrir konur á öllum aldri. Ein verslun er rekin undir þessu nafni hérlendis og er hún staðsett í Smáralind.

Topshop er rótgróin verslanakeðja sem rekur sögu sína allt aftur til ársins 1964. Merkið hefur ávallt náð að samsama sig ríkjandi tískustraumum hverju sinni og í nafni þess er boðið upp á toppvörur í fremstu röð á viðráðanlegu verði. Á sama hátt er þess jafnan gætt að hafa vöruúrvalið mikið og veltuna hraða enda mikið lagt upp úr því að mæta þörfum viðskiptavina fyrir sífelldar breytingar. Í dag eru reknar tvær Topshop verslanir hérlendis, í Kringlunni og í Smáralind.

Warehouse er vinsælt tískuvörumerki fyrir konur í stærðunum 6-16 en undir því er einnig boðið upp á úrval árstíðabundinna fylgihluta. Fyrsta verslunin undur nafni merkisins var opnuð í Lundúnum árið 1976 og hefur þar æ síðan verið haft að leiðarljósi að gera tískuna aðgengilega fyrir alla, óháð útliti eða aldri. Tvær Warehouse verslanir eru nú starfræktar hér á landi, í Kringlunni og í Debenhams í Smáralind.

Allar nánari upplýsingar má nálgast inni á heimasíðunni www.hagar.is

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd