Hagkaup

2022

Hagkaup
Hagkaup var stofnað árið 1959 og á starfsemi fyrirtækisins djúpar rætur í íslensku samfélagi, enda verið órofinn hluti af verslunarsögu landsins í rúm 60 ár. Upphaflega var Hagkaup aðeins póstverslun sem sendi vörur beint frá birgðageymslu til viðskiptavina. Árið 1967 var brotið blað í sögu félagsins þegar fyrsta verslunin opnaði á Miklatorgi. Fyrsti stórmarkaður Hagkaups opnaði síðan árið 1970 í Skeifunni og er sú verslun enn þann dag í dag vinsælasta Hagkaupsverslunin. Í árslok 2020 rak Hagkaup átta verslanir, þar af sex á höfuðborgarsvæðinu, eina á Akureyri og eina á Selfossi. Tvær verslanir, Skeifan og Garðabær voru opnar allan sólarhringinn.
Hagkaup býður breitt úrval af vörum til daglegra þarfa í matvöru, fatnaði, snyrtivöru, húsbúnaði og tómstundavöru. Hagkaup leggur sérstaka áherslu á þjónustu og gott aðgengi að vörum og kappkostað er að gera verslunarferðina eins skemmtilega og hagkvæma fyrir viðskiptavininn og mögulegt er.
Árið 2020 störfuðu um 740 starfsmenn hjá Hagkaup og framkvæmdastjóri var Sigurður Reynaldsson.

Fjölbreytt vöruúrval og netverslun
Mikið vatn hefur runnið til sjávar frá því að fyrsta verslunin leit dagsins ljós og hefur rekstur Hagkaups aðlagað sig í gegnum árin að síbreytilegu neyslumynstri landsmanna. Breytt vöruúrval hefur alltaf verið sérstaða Hagkaups og býður félagið upp á yfir 60.000 vöruliði. Hjá Hagkaup fá viðskiptavinir allt í einni ferð og spara sér því ferðir í margar ólíkar verslanir. Í upphafi árs 2020 endurvakti Hagkaup vefverslun sína og hóf sölu á leikföngum og matvöru á netinu. Hagkaup hefur kappkostað við að byggja upp vefverslun með fjölbreyttu úrvali og aðlagað sig að breyttu umhverfi á markaðnum. Upplifun viðskiptavinarins er í fyrsta sæti og rík áhersla er lögð á samþættingu upplifunar á stafrænum miðlum sem og í verslunum. Hjá Hagkaup starfar metnaðarfullt starfsfólk sem leggur sig fram við að veita viðskiptavinum góða þjónustu. Starfsmenn eru sífellt á höttunum eftir einstökum vörum sem að mæta nútíma þörfum viðskiptavina. Hagkaup styður vel við nýsköpun og vinnur náið með smáframleiðendum sem vilja koma vörum sínum á framfæri. Einnig framleiðir Hagkaup fjölda vara undir eigin vörumerki. Ber þar helst að nefna Origami Sushi, California salöt og vefjur, brauðsalöt, pizzur og grillsósur.

Með umhverfið að leiðarljósi
Hagkaup hefur undanfarin ár unnið eftir skýrri umhverfisstefnu í allri starfsemi félagsins. Meginmarkmið stefnunnar er að fyrirtækið leggi sitt af mörkum í þágu sjálfbærrar þróunar og samfélagslegrar ábyrgðar. Umhverfisstefnan nær til allrar starfsemi Hagkaups og eru stjórnendur og annað starfsfólk hvatt til að kynna sér stefnuna, framfylgja henni og hafa frumkvæði til umbóta í umhverfismálum. Hagkaup tekur mið af umhverfisvernd við meðferð á söluvörum, förgun úrgangsefna, sóun, flokkun og endurnýtingu umbúða, vöruþróun og vali á rekstrarvörum.
Markvisst hefur verið unnið að því í starfsemi fyrirtækisins að draga úr orkunotkun. Á síðustu árum hefur félagið náð verulega auknum orkusparnaði innan verslana með umhverfisvænni lausnum. Kælimiðlum í verslunum hefur verið skipt úr freon yfir í kolsýru, sem er umhverfisvænni kælimiðill. Markmið Hagkaups er að skipta út öllum freon kælimiðlum fyrir lok ársins 2024. Stöðugt er unnið að því að minnka notkun á plasti innan verslana Hagkaups. Árið 2018 hættu allar verslanir sölu burðarpokum úr plasti og hófu sölu á lífrænum pokum og hvetja viðskiptavini til notkunar á fjölnota pokum. Allar umbúðir í Bakaríum Hagkaups voru endurskoðaðar og notkun á plastbökkum hætt. Með því að hætta að nota plastbakka í framleiðslu minnkaði Hagkaup notkun plasts um 90% sem samsvarar um 12 tonnum árlega. Hagkaup hefur einnig lagt sérstaka áherslu á umhverfisvænar vörur. Mikil aukning hefur verið í vöruflokkum tengdum vegan- og grænmetisfæði sem er liður í því að auka sölu á vörum með jákvæðari umhverfisáhrifum. Einnig hefur Hagkaup stóraukið sölu á leikföngum sem eru umhverfisvænni, t.d. bangsar sem framleiddir voru úr endurunnum plastflöskum og viðarleikföngum.
Eitt af meginmarkmiðum Hagkaups er að lágmarka sóun í virðiskeðjunni og þar með matarsóun. Því hefur félagið innleitt öfluga tæknilausn sem að hjálpar við að besta innkaupa- og söluferla til að hámarka nýtingu og lágmarka sóun. Einnig veitir Hagkaup viðskiptavinum sérstakan afslátt á ferskvörum eins og kjöti, sushi, grænmeti og ávöxtum sem að nálgast síðasta söludag, til þess að draga úr sóun.
Hagkaup hefur síðustu ár kolefnisjafnað rekstur sinn í samvinnu við Kolvið með bindingu jarðvegs og auðgun á gróðurvistkerfi með skógrækt.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd