Hagvangur ehf.

2022

Hagvangur var stofnað 2. apríl 1971 og er eitt elsta ráðgjafarfyrirtæki landsins. Stofnendur voru tuttugu hluthafar sem vildu mæta brýnni þörf atvinnulífsins til að innleiða umbreytingar og nýjustu stefnur og strauma hjá fyrirtækjum í takt við þarfir atvinnulífsins. Markmiðið var að annast hvers konar ráðgjafar- og rannsóknarþjónustu á sviði þjóðhagfræði og rekstrarhagfræði, hafa milligöngu um útvegun og samræmingu annarrar þjónustu og önnur skyld verkefni o.fl. Fyrsti framkvæmdastjóri fyrirtækisins var Sigurður R. Helgason sem var stofnfélagi. Aðrir stofnfélagar störfuðu ekki hjá félaginu en voru í forystu í ýmsum greinum atvinnulífsins. Við hans starfi tók síðar Ólafur Örn Haraldsson. Árið 1986 ákváðu stofnfélagar að selja fyrirtækið og 1. mars 1986 keyptu fyrirtækið fjórir starfsmenn Hagvangs, Gunnar Maack (d.1994), Katrín S. Óladóttir, Reynir Kristinsson og Þórir Ágúst Þorvarðarson. Megin tilgangur var að reka ráðgjafarþjónustu, s.s. rekstrar- og stjórnunarráðgjöf, tæknilega ráðgjöf, sölu- og markaðsráðgjöf, ráðningarþjónustu, afleysingaþjónustu, starfsmannaráðgjöf og skylda starfsemi. Skoðana- og markaðskannanir, tölvu- og bókhaldsþjónustu, námskeiðahald o.fl. Gunnar var ráðinn framkvæmdastjóri en síðar tók Reynir Kristinsson við hans starfi við lát Gunnars. Ráku þau fyrirtækið óbreytt þar til árið 1998 er ákveðið var að sameinast Coopers og Lybrand endurskoðunarfyrirtækinu. Fékk sameinað fyrirtæki nafnið Coopers & Lybrand – Hagvangur en innan ekki langs tíma nafnið PricewaterhouseCoopers eftir samruna erlendis á milli endurskoðunar- og ráðgjafafyrirtækjanna Coopers & Lybrand og Pricewaterhouse (PWC). Stóð sá sameiginlegi rekstur yfir þar til 2002 er fyrirtækið var selt til IBM. Ráðgjöfin var seld til Nýherja en ráðningarhlutinn til Katrínar og Þóris um áramótin 2002/2003. Hefur Katrín verið framkvæmdastjóri Hagvangs síðan þá. Núverandi eigendur Hagvangs eru Geirlaug Jóhannsdóttir, Katrín S. Óladóttir og Sverrir Briem.
Hagvangur hefur verið valið fyrirtæki ársins og fyrirmyndarfyrirtæki í VR könnunum í flokki minni fyrirtækja nú síðast fyrir árið 2020.

Vinnulag og framleiðsluferli
Í upphafi var mesta áherslan lögð á rekstrarráðgjöf sem síðan þróaðist yfir í alhliða ráðgjöf og rannsóknir til að styrkja rekstur og innleiða breytingar til aukins vaxtar og hagræðingar í rekstri viðskiptavina. Fyrirtækið hefur ávallt borið gæfu þess að laða að sér ungt og vel menntað starfsfólk sem flest hefur lokið framhaldsmenntun í ýmsum greinum. Þessu fólki hefur fylgt mikil þekking sem varð eftirsótt og mælanlegur árangur kom fljótt í ljós hjá fyrirtækjum sem nýttu sér þekkingu þeirra. Má því segja að Hagvangur hafi verið öflugur brautryðjandi á sviði ráðgjafar í víðum skilningi. Hefur fyrirtækið verið í fararbroddi hvað varðar starfsaðferðir, þróun og þjónustu frá upphafi. Að loknu starfi hjá Hagvangi hefur mörgu starfsfólki boðist starf hjá viðskiptavinum og hafa skipað æðstu stjórnunarstöður fyrirtækja og stofnana á Íslandi í mörg ár. Mörg þekkt nöfn í íslensku atvinnulífi eru þar á meðal.
Árið 1976 tók ráðningarþjónusta Hagvangs formlega til starfa og hefur æ síðan verið í forystu um faglegar ráðningar og mannauðsráðgjöf. Fyrsti vinnusálfræðingurinn réðst til starfa hjá Hagvangi 1983. Í upphafi bar mest á ráðningum í stjórnunar- og sérfræðistörf en fljótlega hóf fyrirtækið að bjóða viðskiptavinum alhliða þjónustu við hvers konar ráðningar, stjórnendaráðgjöf, launakannanir og mannauðsráðgjöf á breiðu sviði. Þá var fyrirtækið fljótt að innleiða notkun notkun persónuleika- og hæfnisprófa og jók það gæði ráðninga verulega. Hefur fyrirtækið átt því láni að fagna að geta þjónustað stór og smá fyrirtæki, bæði íslensk og erlend og hefur verið í fararbroddi allt frá 1976 að innleiða allt það nýjasta sem snertir mannauðsmál í víðum skilningi. Fagleg vinnubrögð, trúnaður og persónuleg þjónusta hefur tryggt fyrirtækinu góða ímynd og orðspor. Jafnframt hefur starfsfólk starfað með skipuðum valnefndum eða verið fengið til ráðgjafar á hinum ýmsu stigum ráðninga. Vegna góðra tengsla í atvinnulífinu hafa stjórnendur verið eftirsóttir í hin ýmsu trúnaðarstörf í atvinnulífinu, unnið náið með stjórnum fyrirtækja og átt sæti í tilnefningarnefndum sem stofnaðar hafa verið á allra síðustu árum.
Hagvangur og Gallup International tóku upp formlegt samstarf fljótlega eftir stofnun Hagvangs og varð fyrirtækið þekkt fyrir kannanir af ýmsum toga, undir nafni Gallups í fyrstu en síðan undir vörumerkinu ,,Spurningavagn Hagvangs“ þegar samstarfinu lauk við Gallup. Má segja að ein þekktasta könnun sem Hagvangur annaðist var gerð í samstarfi við Gallup International, þar sem spurt var um gildismat þjóða 1984. Niðurstaða könnunarinnar leiddi í ljós að Íslendingar mældust hamingjusamasta þjóðin og vöktu niðurstöðurnar mikla athygli bæði hér heima og erlendis. Er enn vitnað í áðurnefnda könnun og eftirspurn eftir henni er alltaf öðru hvoru af nemendum háskólanna.

Erlent samstarf
Í gegnum árin hefur Hagvangur átt í samstarfi við erlend fyrirtæki, s.s. Hogan Assessment Center, verið eigandi að EMA, EMA Partners International, sem eru alþjóðleg samtök hausaveiðara (head-hunting) og fyrr á árum gott samstarf við Pricewaterhouse í Danmörku og Gallup International og Dansk Management Forum o.fl.

Framtíðarsýn
Staða fyrirtækisins er sterk. Fyrirtækið hefur gott og sterkt tengslanet og nýtur góðs orðspors eftir langt og farsælt starf. Leiðarljós fyrirtækisins er að leggja stöðuga áherslu á nýjungar í þjónustu og áreiðanleika í öllum þeim störfum sem starfsfólk tekur að sér.

Sérstaða Hagvangs
Traust og og gott orðspor, vönduð vinnubrögð, áralöng þekking og reynsla á íslenskum vinnumarkaði, sterkur og faglegur bakgrunnur starfsfólks, góð tengsl við erlend ráðgjafa-fyrirtæki og persónuleg þjónusta.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd