Hampiðjan hf

2022

Hampiðjan var stofnuð 5. apríl 1934 til að framleiða garn úr náttúrulegum trefjum, hampi, manillu og sísal, því á árunum milli stríða var mikill skortur á efnum til veiðarfæragerðar. Það voru 13 skip- og vélstjórar sem tóku sig saman undir forystu vélstjórans Guðmundar S. Guðmundssonar sem þá var verkstjóri í Héðni og stofnuðu fyrirtækið. Tveir hluthafar ásamt Guðmundi áttu helming stofnhlutafjársins en það voru þeir Jón Guðlaugsson og Guðmann Hróbjartsson sem einnig voru vélstjórar. Aðrir hluthafar voru skipstjórnarmennirnir Hannes Pálsson, Halldór Gíslason, Bergþór Teitsson, Vilhjálmur Árnason, Jóhann Stefánsson, Kristján Kristjánsson, Jón Björn Elísson, Sigurjón Einarsson, ásamt prentsmiðjustjóranum Gunnari Einarssyni og verslunarmanninum Frímanni Ólafssyni. Þeir byggðu 450 fermetra verksmiðjuhús í Stakkholti á tveim hæðum og keyptu vélar frá Írlandi til þess að spinna saman þræði og búa til garn. Garnið var síðan notað í fiskilínur og til að hnýta net. Á neðri hæðinni voru spunavélarnar og netin hnýtt á netastofunni sem var á efri hæðinni. Á þeim tíma voru net handhnýtt og til viðbótar við netastofuna var gjarnan unnið við hnýtingar í heimahúsum og á bóndabæjum áður en hnýtingarvélar komu til sögunnar.
Af stofnendunum urðu þrír þeirra forstjórar, fyrst Guðmundur 1934-1942, síðan Frímann 1942-1956 og Hannes 1956-1973. Magnús Gústafsson véltæknifræðingur 1973-1984 tók við af Hannesi og eftir honum varð Gunnar Svavarsson viðskiptafræðingur forstjóri 1984-1999 en hann hafði þá verið fjármálastjóri í nokkur ár. Þá var Hjörleifur Jakobsson vélaverkfræðingur ráðinn forstjóri 1999-2001 og Jón Guðmann Pétursson viðskiptafræðingur og þáverandi fjármálastjóri tók við af honum árin 2002-2014. Hjörtur Erlendsson núverandi forstjóri tók við sumarið 2014 en hann er vélstjóri og rekstrartæknifræðingur og hafði verið framkvæmdastjóri framleiðslufyrirtækisins Hampidjan Baltic í Litháen frá stofnun þess árið 2003.

Framleiðslan
Um ári eftir stofnun Hampiðjunnar voru framleiðsluvörurnar komnar alfarið í stað innflutts garns og fiskilínu enda takmarkað framboð á fullbúnum vörum erlendis frá. Það reyndi þó mest á framleiðsluna á árum seinna stríðs og fram til 1948 þá sá Hampiðjan öllum fiskiskipaflotanum fyrir veiðarfæraefnum. Árin sem komu þar á eftir urðu félaginu afar erfið því mikið framboð var á garni og línum erlendis frá sem voru að auki niðurgreidd í samkeppnislöndunum meðan vörur Hampiðjunnar voru hátt tollaðar erlendis. Á þeim tíma var tvöföld gengisskráning og nutu sjávarútvegsfyrirtæki hagstæðara gengis en önnur fyrirtæki og leið iðnaðurinn mjög fyrir þetta fyrirkomulag. Árið 1956 fékkst leyfi til að endurnýja vélakostinn og var það gert á árunum 1957-1961. Við það varð framleiðslan samkeppnishæfari og afkoman mun betri. En nokkrum árum síðar syrti aftur í álinn þegar gerviefni fóru að koma í stað náttúrulegu þráðanna. Árið 1964 varð almenn og skyndileg breyting á efnisnotkun í botnvörpur og önnur veiðarfæri sem gerðu allar vélar Hampiðjunnar úreltar í einni svipan. Eigendur félagsins stóðu því frammi fyrir þeirri ákvörðun að leggja niður fyrirtækið eða fjárfesta að nýju í vélbúnaði sem hentaði nýju efnunum. Stórhuga ákvörðun var tekin um að halda áfram og það má segja að það hafi markað upphaf stöðugrar nýsköpunar og vöruþróunar hjá Hampiðjunni. Það þurfti að hanna nýjar garntegundir og kaðla og fyrirtækið gat með fullkomnum vélakosti boðið sambærilegar eða betri vörur en keppinautarnir. Á þessum tíma var Hampiðjan eingöngu framleiðandi á efnum í veiðarfæri og voru viðskiptavinirnir fjölmörg netaverkstæði víða um landið. Verkstæðin voru mörg hver smá í sniðum og höfðu takmarkaða getu til að þróa veiðarfæri fyrir fiskiskipaflotann. Hampiðjan hóf því að þróa veiðarfæri í samstarfi við þau og útgerðarfyrirtækin. Teikningar og útfærslur voru síðan afhentar netaverkstæðunum þeim að kostnaðarlausu enda keyptu þau veiðarfæraefnin af fyrirtækinu. Hampiðjan var því komin í þá stöðu að framleiða bæði efni og hanna veiðarfæri og það má segja að það hafi lagt grunninn að því hvernig fyrirtækið hefur þróast til dagsins í dag.

Þáttaskil
Útfærsla landhelginnar úr 50 mílum og síðar 1975 í 200 mílur markaði þáttaskil í vexti félagsins því þá færðust veiðar og vinnsla í hendur íslenskra aðila sem sóttu vörur og þjónustu innanlands. Það kallaði á frekari áherslu á vöruþróun og nýsköpun því skipaflotinn stækkaði og skipin urðu stærri og öflugri.
Á árinu 1986 urðu enn þáttaskil í efnisþróun því þá kom fram á sjónarsviðið ný tegund af ofurþráðum úr plasti sem hollenska fyrirtækið DSM hafði fundið upp en vantaði markað fyrir. Þræðirnir eru það léttir að þeir fljóta á vatni en eru sterkari en stál. DSM valdi Hampiðjuna sem samstarfsaðila til að þróa efni fyrir veiðarfæri úr þessum nýja þræði og ástæðan fyrir því vali var gott orðspor Hampiðjunnar í vöru- og veiðarfæraþróun. Fyrstu árin snérist þróunin um einfaldar garn- og kaðlagerðir og samhliða því opnuðust tækifæri til að þróa og selja kaðla til notkunar í olíuleitarrannsóknum og markaði það upphaf að vöruþróun fyrir olíuiðnaðinn.
Á árunum fyrir 1990 vaknaði áhugi íslenskra útgerða fyrir veiðum utan landhelginnar og þá sérstaklega á úthafskarfa langt suður af landinu. Þau flottroll sem voru til á þeim tíma hentuðu ekki til veiðanna og var því lögð mikil vinna í að hanna nýja gerð af flottrollum og var öll efnisþekking og vöruþróunargeta Hampiðjunnar nýtt í því markmiði. Eftir mikla vinnu og prófanir varð til ný gerð af flottrolli, sem fékk heitið Gloría, sem í gegnum árin hefur þróast enn frekar og er nú þekkt um allan heim sem eitt besta flottroll sem völ er á.
Samhliða þessu hélt þróun á ofurefnunum áfram ásamt þróun neta og kaðla í hefðbundnum efnum og vörurnar urðu sífellt flóknari og betri. Það kallaði á hugmyndavernd og varð til þess að Hampiðjan keypti í byrjun nokkur einkaleyfi sem tengdust flottrollum og hóf síðan skipulega að sækja um eigin einkaleyfi sem aðallega eru tengd efnisþróun í köðlum. Einkaleyfin í dag eru orðin vel yfir 25 talsins og eru aðallega til að vernda uppfinningar í veiðarfæraefnum og vörum fyrir olíuiðnað.

Útflutningur og útlönd
Áhugi Hampiðjunnar á útflutningi hefur löngum verið mikill og sérstaklega eftir að gerviefnin komu á markað því þá sköpuðust tækifæri til sölu erlendis í kjölfar tæknibreytinganna sem því fylgdu. Samkeppni var mikil í verðum við framleiðendur í Portúgal og á Spáni og það varð til þess að garnframleiðslan fyrir netin var flutt frá Íslandi til Portúgal árið 1990.
Tækifærin sem forskotið í þróun og nýsköpun hafa gefið hafa verið margvísleg og Hampiðjan hefur að auki vaxið með stofnun fyrirtækja erlendis og kaupum á netaverkstæðum víða um heim. Vegna þekkingar og kunnáttu í veiðarfæragerð opnuðust möguleikar á að stofna netaverkstæði erlendis. Fyrstu verkstæðin voru stofnuð laust eftir 1990, fjarri Íslandi, í Namibíu og alveg hinum megin á hnettinum á Nýja-Sjálandi. Netaverkstæði á Nýfundnalandi og í Seattle í Bandaríkjunum voru keypt skömmu síðar. Aldamótaárið var tekið stórt skref í stækkun og meirihlutinn í Swan Net á Írlandi keyptur og í kjölfarið keppinautur þeirra Gundry og félögin sameinuð í eitt, Swan Net Gundry. Árið eftir eignaðist Hampiðjan einnig meirihluta í stærsta netaverkstæði Danmerkur, Cosmos Trawl.
Eftir aldamótin var kostnaður við framleiðslu á Íslandi orðinn afar hár og erfitt að manna verksmiðjuna sem þá hafði verið flutt úr miðbænum um áratug áður að Bíldshöfða 9. Því var ákveðið að flytja alla framleiðsluna frá Íslandi og Portúgal og sameina hana að nýju í Litháen þar sem laun voru hagstæð og aðgengi að starfsmönnum gott. Danska netafyrirtækið Utzon hafði á árunum á undan verið flutt til Litháen en flutningurinn varð fyrirtækinu ofviða. Úr varð að það var tekið yfir og fyrirtækið Hampidjan Baltic stofnað á þeim grunni. Tvöfalda þurfti húsnæðið til að rúma alla framleiðsluna og varð verksmiðjan eftir stækkun 21.500 m². Öll þessi umbreyting tók einungis 3 ár og lauk 2006. Hlé varð á fyrirtækjakaupum meðan á uppbyggingunni í Litháen stóð og á árunum þar á eftir en tækifæri bauðst síðan 2013 til að eignast meirihluta í Nordsjøtrawl í Thyborøn í Danmörku.
Fór nú í hönd tímabil mikillar stækkunar og uppbyggingar og árið eftir var gengið frá kaupum á stærsta netaverkstæði Bandaríkjanna, Swan Net USA í Seattle, og það sameinað við Hampidjan USA sem hafði keppt við það lengi. Sama ár eignaðist Hampiðjan tæpan helmingshlut í netaverkstæðinu Sílnet í Færeyjum. Landvinningar í Eyjaálfu héldu áfram með stofnun Hampidjan Australia árið 2015 en það fyrirtæki er á austurströnd Ástralíu nálægt Brisbane.
Árið 2016 var ráðist í stærstu fyrirtækjakaupin í sögu félagsins þegar Hampiðjan eignaðist að fullu fyrirtækið Von í Færeyjum. Með þeim kaupum tvöfaldaðist velta samsteypu Hampiðjunnar enda átti Von á þeim tíma 9 dótturfélög sem staðsett voru í Færeyjum, á Grænlandi, Íslandi, í Kanada, Danmörku, Noregi og Litháen. Þrátt fyrir þessi miklu fyrirtækjakaup var ekki látið staðar numið því félagið eignaðist meirihluta í íslenska félaginu Voot Beitu árið eftir.
Árið 2018 var einnig viðburðaríkt því þá eignaðist félagið helsta keppinaut Hampidjan Canada á Nýfundnalandi, North Atlantic Marine Supplies & Services og sameinaði þau félög í eitt. Á Hjaltlandseyjum var byggt netaverkstæði og að auki stofnað félagið SNG Aqua um þjónustu við fiskeldi á sama stað. Þetta sama ár var gengið frá kaupum á Tor-Net LP en það er netaverkstæði starfrækt í Las Palmas á Gran Canaria og nafni þess breytt í Hampidjan TorNet. Aðalmarkaður þess er í Dahkla og Oman í Afríku. Á Íslandi eignaðist félagið að fullu netaverkstæðið Fjarðanet 2019 og var það sameinað veiðarfærahluta móðurfélagsins undir nafninu Hampiðjan Ísland og það rekur fimm netaverkstæði á Íslandi. Sú deild innan Hampiðjunnar sem sinnir olíuiðnaðinum ásamt búnaði til uppsetningar á vindmyllum var gerð að sjálfstæðu fyrirtæki árið eftir og ber nafnið Hampidjan Offshore. Það ár bættust einnig tvö fyrirtæki í eigu félagsins en það eru félögin Jackson Trawl og Jackson Offshore í Skotlandi ásamt verslunarhluta Caley Fisheries sem sameinað var fyrrnefnda félaginu.

Sameiningar og breytingar
Sameiningarnar og breytingarnar á starfseminni á Íslandi voru mikilvægar fyrir stjórnskipun samstæðu Hampiðjunnar því nú er starfsemin öll í aðgreindum dótturfélögum og hlutverk móðurfélagsins er að stýra þeim ásamt því að miðla til þeirra efni til veiðarfæragerðar.
Viðskiptamódel Hampiðjunnar er sérstakt að því leyti að öll virðiskeðjan er á einni hendi. Allt frá því að kaupa plastkorn til að búa til þræði og úr þeim það sem þarf til veiðarfæragerðar, garn, kaðla og net. Úr þessum efnum eru framleiða félög innan samstæðunnar sérhönnuð troll sem eru þau stærstu og tæknilega fullkomnustu sem völ er á í heiminum í dag.
Stækkun samstæðu Hampiðjunnar hefur því verið mikil undanfarin ár því fyrir kaupin á Von var veltan tæpar 59 milljónir evra en var árið 2020 komin í tæpar 162 milljónir evra. Um 87% af veltu Hampiðjunnar er nú erlendis og stærstu markaðarnir eru í veiðarfærum og fiskeldisþjónustu.

Starfsfólk og aðsetur
Starfsmenn Hampiðjunnar eru nú 1.160 talsins, þar af um 76 á Íslandi. Fyrirtækið starfar í 15 löndum og dótturfélögin eru nú 30 með alls 44 starfsstöðvar allt frá vestasta odda Alaska til Nýja-Sjálands í austri. Höfuðstöðvar félagsins eru nú í glæsilegri 6.500 m² byggingu við Skarfabakka í Sundahöfn.

Vöruþróun og nýsköpun
Þekktustu vörur Hampiðjunnar eru eflaust Helix tógið sem er þankaðall í flottroll en hann hjálpar til við að opna flotrollið þegar það er dregið í sjó. DynIce Warp er togtaug úr ofurefni sem kemur í stað stálvírs á togskipum og hefur mikla kosti þegar veitt er í flottroll í miðjum sjó eða upp í yfirborðinu vegna þess að taugin er fislétt. Þessi kaðall er án vafa sá vandaðasti og flóknasti sem hannaður hefur fyrir fiskveiðar í heiminum og er verndaður með tveim einkaleyfum. DynIce Warp hefur náð meirihluta heimsmarkaðarins í djúpsjávarverkefnum en vegna léttleikans þá er hægt að ná niður á óendanlegt dýpi meðan stálvír þolir ekki meira en 6 kílómetra dýpi áður en hann slitnar undan eigin þunga. Djúpsjávarverkefni eru gjarnan rannsóknir á botnlögum og björgun verðmæta af hafsbotni. Dýpsta gjáin í heimshöfunum er 11,2 km djúp og Hampiðjan hefur framleitt mörg tóg sem eru 12 km í einni lengd til notkunar á djúpsjávarspil. DynIce Data er gagnaflutningskapall sem byggir á DynIce Warp og er mest notaður til að flytja boð frá nemum sem eru settir á fiskitroll til að sýna opnun trollsins og hversu mikið af fiski hefur veiðst.

Framtíðarsýn
Forskot Hampiðjunnar í vöruþróun og nýsköpun hefur leitt til fjölda tækifæra og möguleika á að færa sig inn á nýja markaði og þróa sérhæfðar vörur og má þar nefna olíuiðnaðinn, djúpsjávarverkefni og rannsóknir og jafnvel sérhæfð tóg fyrir hraðskreiðar keppnisskútur.
Áhugaverðar nýjungar eru í farvatninu sem snúa að aukinni gagnaflutningsgetu í nýrri gerð DynIce Optical Data þar sem verður hægt að flytja nær ótakmarkað magn gagna og boða milli skips og trolls með ljósleiðurum sem mun hafa mikil áhrif á veiðitækni framtíðarnnar.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd