Fyrsti útdráttur Happdrættis Háskóla Íslands fór fram í Iðnó þann 10. mars árið 1934 að viðstöddu fjölmenni. Á undraskjótum tíma urðu miðakaup í Háskólahappdrættinu fastur liður í heimilishaldi stórs hluta Íslendinga. Að baki þessum mikla spilavilja lágu annars vegar vonin um að hljóta vænan vinning en hins vegar stuðningur við markmið happdrættisins, að safna fjármunum til að byggja yfir Háskólann.
Hátt vinningshlutfall
Það happdrættisform sem notast var við þegar í upphafi, er svokallað flokkahappdrætti. Þá er ekki um einn stóran útdrátt að ræða, heldur er happdrættisárinu skipt niður í tólf flokka þar sem einn er dreginn út í hverjum mánuði. Í flokkahappdrætti eru fjárhæðir vinninga þekktar fyrirfram, öfugt við svokölluð sjóðshappdrætti þar sem vinningsupphæðin sveiflast í takt við miðasölu og fjölda vinningshafa.
Eitt af sérkennum Háskólahappdrættisins hefur verið hið háa vinningshlutfall eða 70% í flokkahappdrættinu. Það þýðir að fyrir hverjar tíu krónur sem viðskiptavinir láta af hendi renna sjö aftur í vinninga. Það er hærra en gerist og gengur í happdrættisleikjum á borð við Lottó að ekki sé talað um happdrætti ýmissa líknarfélaga sem byggjast á stökum útdráttum.
Sífellt ný verkefni
Í fyrstu var ætlunin að Háskólahappdrættið lyki störfum um leið og aðalbygging Háskólans yrði tekin í notkun, enda var áætlað að með henni væri allri húsnæðisþörf skólans svalað til að minnsta kosti hundrað ára! Annað kom á daginn. Háskólastúdentum hefur fjölgað í sífellu, nýjar námsbrautir komið til sögunnar og kröfur um aðstöðu og tækjabúnað verða meiri ár frá ári. Þá fylgir meiri húsakosti stöðug viðhaldsþörf. Háskólinn hefur nánast allt frá 1935 staðið í byggingaframkvæmdum og hafa þær alla tíð að langmestu leyti verið fjármagnaðar af happdrættinu.
Tekjustoðirnar
Skafmiðahappdrættið Happaþrennan var kynnt til sögunnar árið 1987 og naut mikilla vinsælda, einkum í fyrstu. Um svipað leyti var mikil þróun erlendis á sviði samtengdra happdrættisvéla og árið 1993 fékk Háskólahappdrættið leyfi til slíks reksturs, sem fékk heitið Gullnáman. Hafa þessar þrjár stoðir myndað grundvöll Happdrættis Háskóla Íslands. Segja má að hinn alþjóðlegi happdrættismarkaður sé suðupottur nýjunga og hafa þær að langmestu leyti verið á sviði netspilunar. Hafa hérlend happdrættisfyrirtæki fullan hug á að taka virkan þátt á því sviði, en íslensk löggjöf hefur til þessa ekki gefið færi á slíku og öfugt við norræna starfsbræður sína hafa íslensk stjórnvöld lítið gert til að hafa hemil á umsvifum erlendra netfyrirtækja sem bjóða upp á peningaspil. Öll íslensku happdrættin sinna þjóðþrifamálum og starfa eftir lögum og reglum sem ríkisvaldið setur. Sami háttur er hafður á í nágrannalöndum okkar, þótt misjafnt sé hvort veitt séu einkaleyfi til happdrætta eða leyfi seld til margra á opnum markaði. Aðgerðaleysi stjórnvalda kann að skaða Happdrætti Háskóla Íslands ef ekki fæst leyfi til að fylgja alþjóðlegri þróun og tryggja þannig tekjustoðirnar.
Ábyrg spilun
Stundum er sagt að öll happdrætti selji í raun sömu vöruna: von. Það virðist vera sammannlegur eiginleiki að finnast gaman að freista gæfunnar og upplifa spennu í veðleikjum. Dæmi um þetta má finna frá öllum tímum í öllum menningarsamfélögum. En öllu gamni fylgir alvara. Vitundarvakning hefur átt sér stað um spilavanda og spilafíkn sem óhjákvæmilega fylgir spilamennsku. Frá árinu 2002 hafa farið fram rannsóknir á spilafíkn að frumkvæði Happdrættis Háskóla Íslands innan vébanda Háskólans. Um 2,3% Íslendinga teljast eiga við spilavanda að stríða. Er þetta í samræmi við erlendar rannsóknir. Háskólahappdrættið leggur sitt af mörkum til að sporna gegn spilafíkn og styður dyggilega við bakið á aðilum sem sinna meðferðar- og forvarnarstarfi. Happdrætti Háskólans hefur undirgengist staðla alþjóðasamtakanna European Lotteries um ábyrga spilun. Þá er unnið að innleiðingu á virkni sem styður við auknar kröfur um varnir gegn peningaþvætti og í undirbúningi er að bjóða þátttakendum að setja sér mörk eða útiloka sig frá spilun með rafrænu auðkenni.
Eignarhald, stjórn og starfsfólk
Happdrætti Háskóla Íslands er í eigu Háskóla Íslands og er stjórn þess kosin af Háskólaráði. Happdrættið er sjálfstæð stofnun og tilheyrir B-hluta fjárlaga. Stöðugildi eru 19. Stjórnarformaður er Eyvindur G. Gunnarsson, prófessor í lögum, en forstjóri frá árinu 2010 er Bryndís Hrafnkelsdóttir. Fjölmargir umboðsmenn koma að rekstrinum og eru þeir víðsvegar um landið.
Ómetanlegt framlag
24 byggingar hafa verið reistar fyrir happdrættisfé, auk viðhalds og tækjakaupa fyrir skólann. Þá hefur það árlega greitt einkaleyfisgjald, að fjárhæð 150 millj. kr. sem fer í innviðasjóð Rannís. Augljóst er að án Happdrættis Háskólans væru húsnæðismál hans í öðru og miklu verra horfi. Þrengri og verri húsakostur og ófullkomnari tækjabúnaður leiddi til lakari menntunar og að lokum verri samkeppnisstöðu landsins og rýrari lífskjara þjóðarinnar. Þennan góða árangur Happdrættis Háskóla Íslands má þó fyrst og fremst þakka viðskiptavinunum, sem er í raun þjóðin öll. Í meira en 85 ár hafa landsmenn lagt sitt að mörkum til að styðja hugsjónina um öflugan Háskóla og í leiðinni kryddað tilveruna með því að freista gæfunnar í skemmtilegum happdrættisleikjum. www.hhi.is
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd