Háskólasetur Vestfjarða er stofnun sem starfar á háskólasviði. Hún býður upp á tvær alþjóðlegar námsleiðir á meistarastigi, er virk á sviði rannsókna og er tengiliður fjölda innlendra sem erlendra stofnana og fyrirtækja við Vestfirði. Háskólasetur Vestfjarða er þjónustumiðstöð fyrir Vestfirðinga í fjarnámi og mikilvægur tengiliður vestfirska rannsóknarsamfélags innbyrðis. Háskólasetur Vestfjarða er bæði mjög vestfirsk og mjög alþjóðleg stofnun. Ríkur þáttur í starfsemi Háskólaseturs felst í því að koma Vestfjörðum á kortið og laða fólk allstaðar að úr heiminum, jafnt nemendur sem kennara. Í ljósi þess hve upptökusvæði Háskólaseturs er fámennt mun ekkert háskólanám þrífast á Vestfjörðum án þess að nemendur utan fjórðungsins sæki það. Að laða nemendur vestur er því ekki aukaatriði heldur forsenda þess að háskólanám geti byggst upp á svæðinu.
Fjöldi starfsfólks og nemendur
Hjá Háskólasetri sjálfu eru sjö stöðugildi, en stöðugildi með utanaðkomandi fjármögnun og stundakennarar eru aukalega um tíu. Í Vestrahúsinu öllu starfa um 60 manns við rannsóknir, þjónustu og þróun hjá ýmsum stofnunum og fyrirtækjum. Innritaðir nemendur eru nú um 70.
Eigendur
Háskólasetrið var stofnað 2005 sem sjálfseignarstofnun að frumkvæði heimamanna. Stofnaðilar voru 42, þar á meðal allir háskólar landsins og allar rannsóknarstofnanir, sem voru þá virkar á Vestfjörðum. Staðbundið nám á háskólastigi var eitt aðalmarkmiðið og hefur það náðst.
Námið
Háskólasetrið býður upp á meistaranám í haf- og strandsvæðastjórnun og meistarnám í sjávarbyggðafræði. Í báðum námsleiðum útskrifast nemendur frá Háskólanum á Akureyri í gegnum samstarfssamning. Báðar námsleiðirnar eru kenndar í lotum, á ensku, og laða að fjölda hæfra námsmanna. Allar kennslulotur námsleiðanna eru aðgengilegar gestanemum og þátttakendum úr atvinnulífi. Með því að kenna námið í lotum nær Háskólasetrið að fá til sín sérhæfða kennara víða að. Sérhæfður alþjóðlegur kennarahópur er eitt aðalsmerki námsleiðanna. Frá 2008 til 2018 hafa 218 nemendur innritast og 176 útskrifast með meistaragráðu frá HA. Útskriftarhlutfallið er því rétt rúmlega 80% og hafa 64,2% útskrifast á tveim árum. Þetta eru lykiltölur sem þola samanburð.
Nemendur velja sér efni í lokaritgerðir sjálfir, en Háskólasetrið er sérlega stolt af þeim fjölmörgu verkefnum þar sem fengist er við vestfirsk og íslensk málefni. Haustið 2021 eru 70 nemendur innritaðir í námsleiðirnar tvær og stóri salurinn í Edinborgarhúsi nýttur undir kennslu.
Það má líta á það sem viðurkenningu að upp undir 30 nemendur hafa að náminu loknu verið samþykktir í doktorsnám á Íslandi og erlendis, og 6 af þeim hafa þegar lokið doktorsprófi.
Háskólasetrið heldur líka utan um nám fyrir School for International Training, samstarfsskóla í Vermont, og býður upp á vettvangsskóla, sumarnámskeið, fyrirlestra og ráðstefnur.
Á hverjum tíma eru um eitt hundrað manns á Vestfjörðum skráðir í eitt eða annað fjarnám í innlendum háskólum. Námsleiðir sem fólk hefur áhuga á eru fjölmargar en eingöngu fjölbreytt framboð fjarnáms getur tryggt Vestfirðingum breitt námsframboð. Áður fyrr var skýr greinarmunur á fjarnámi og staðnámi, en með tækniþróun síðustu ára hefur staðbundið nám og fjarnám blandast. Þjónustan sem Háskólasetrið veitir nemendum sem stunda fjarnám er aðallega fólgin í prófaþjónustu, sem sparar þeim ótal ferðir suður eða norður í próf.
Rannsókna- og þróunarumhverfi
Rannsókna- og þróunarumhverfi á Vestfjörðum hefur vaxið mjög síðustu árin, mörgum að óvörum. Háskólasetrið með sitt umfangsmikla og öfluga tengslanet er þar miðlægur aðili. Það er mikils virði fyrir Háskólasetrið að geta stólað á rannsóknarstofnanir á Vestfjörðum, sem margar hverjar eru í sama húsi, með sitt innlenda tengslanet. Hlutfall kennslumagns í meistaranámsleiðum Háskólaseturs sem kennt er af fræðimönnum sem búsettir eru á Vestfjörðum er um 20%. Það ber vott um afar gott samstarf innan rannsókna- og þróunar-umhverfis Vestfjarða.
Lengi vel hefur Háskólasetrið takmarkað rannsóknarvirkni sína við nemendaritgerðir, enda er litið svo á að lokaritgeðrir nemenda séu rannsóknir, þó umfang slíkra rannsókna sé takmarkað. Á allra síðustu árum hafa fagstjórar meistaranámsleiðanna verið mjög virkir í að tengjast rannsóknarverkefnum og hefur það leitt til aukinna umsvifa og fjölda rannsóknarverkefna sem Háskólasetrið tengist. Sérstakur rannsóknarstjóri var ráðinn í hlutastarf árið 2020. Rannsóknarsviðin tengjast eðlilega námsleiðunum sem í boði eru: Sjávartengd málefni, strandsvæðastjórnun og byggðafræði eru svið sem Háskólasetrið sérhæfir sig í. Enn sem komið er eru þó engin stöðugildi í rannsóknum við Háskólasetrið sjálft, starfsmenn þurfa að ráða til sín rannsóknarmenn eða taka launalaust leyfi til þess að sinna slíkum verkefnum. Þó hafa bæst við rannsóknarmenn með utanaðkomandi fjármögnun að undanförnu. Allt eykur þetta krítískan massa á sviði rannsókna og kennslu á háskólastigi, sem hefur myndast á Vestfjörðum, bæði hjá Háskólasetri sem og hjá fjölda stofnana og útibúum stofnana.
Háskólasetrið, sem er einmitt ekki útibú, heldur sjálfstæð stofnun, hefur hér mikilvægu hlutverki að gegna sem hlekkur í vestfirsku og íslensku háskólaumhverfi.
© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd