Háskólinn á Bifröst

2022

Framtíðin býr á Bifröst
Háskólann á Bifröst býr að þeirri skemmtilegu sérstöðu innan íslenska háskólasamfélagsins, að vera er allt í senn einn stærsti, elsti, minnsti og yngsti háskóli landsins. Helsta sérstaða háskólans, góð og náin tengsl við atvinnulífið í landinu, hafa jafnframt haldist óbreytt í áratuganna rás enda byggir Háskólinn á Bifröst á gömlum merg elsta viðskiptakóla landsins. Áhersla hefur því jafnan verið mikil á hagnýtt gildi háskólanámsins á Bifröst fyrir einstakling jafnt sem samfélag.

Sagan
Sögu Háskólans á Bifröst má rekja aftur til Reykjavíkur árið 1918, er Jónas Jónsson, frá Hriflu, setti Samvinnuskólann á fót. Jónas er um margt einn minnisstæðasti stjórnmálamaður 20. aldarinnar. Hann var einn helsti hvatamaðurinn að stofnun bæði Framsóknarflokksins og Alþýðuflokksins árið 1918, auk þess sem stofnun Sjálfstæðisflokksins hefur einnig verið rakin til hans, en með óbeinum hætti þó. Jónas þótti sýna pólitískum andstæðingum sínum hörku sem dómsmálaráðherra á árunum 1927-1932 og er talið að harðlyndi ráðherrans hafi orðið til þess að Íhaldsflokkurinn og Frjálslyndi flokkurinn sameinuðust árið 1929 í Sjálfstæðisflokknum.
Enda þótt gustað hafi um stjórnmálamanninn Jónas, gegndi öðru máli um kennarann og uppeldisfrömuðinn Jónas. Sjálfur nam hann við lýðháskólann í Askov á Jótlandi og kennaraháskólann í Kaupmannahöfn. Þá kynnti sér skólamál í Þýskalandi, Frakklandi og Englandi og dvaldi um eins misseris skeið á Ruskin College í Oxford, sem rekinn var í sameiningu af bresku samvinnuhreyfingunni og verkalýðshreyfingunni og þótti standa fyrir nýjum og róttækum straumum í menntamálum alþýðunnar.
Þessa róttæku strauma veitti Jónas óspart til Íslands um Samvinnuskólann þar sem hann var skólastjóri nær óslitið frá stofnun og fram til ársins 1955 er hann lét af störfum fyrir aldurs sakir. Um það leyti urðu jafnframt breytingar á högum skólans þegar starfsemi hans var flutt á Bifröst í Norðurárdal í Borgarfirði. Til tíðinda dregur á ný árið 1988, er Samvinnuskólinn á Bifröst varð að Samvinnuháskólanum og þar með fyrsti háskólinn sem var starfræktur utan vébanda Háskóla Íslands. Á þúsaldarárinu 2000 var heiti skólans breytt í Viðskiptaháskólann á Bifröst, sumarið 2003 hófst kennsla á meistarastigi og árið 2006 var skrefið svo stigið til fulls með stofnun Háskólans á Bifröst. Samhliða var þriggja anna kerfi háskólans tekið í notkun með fyrstu sumarönninni, en þetta kennslufyrirkomulag gefur nemendum háskólans kost á styttri námstíma en ella.

Menntastraumar
Framsæknir menntastraumar hafa því löngum drifið áfram menntastofnanir kenndar við Bifröst og þar sem forverar hans skilgreindu sig ekki síður sem félagsmálaskóla en viðskiptaskóla, býr háskólinn enn að þeirri merku arfleifð að mennta ungt fólk til samfélagslegrar þátttöku og ábyrgrar forystu í atvinnu- og viðskiptalífi. Á Bifröst mætast því ólíkir menntastraumar sem mótað hafa námsframboð með ólíku móti og skipa háskólanum sérstakan sess innan menntakerfisins.

Brautryðjendastarf
Eitt merkasta brautryðjendastarf Háskólans á Bifröst er þó framlag hans til fjarnáms og þróunar stafrænnar miðlunar á háskólastigi á undanförnum 20 árum eða allt frá því að stafræn tækni var tekin í þjónustu æðri menntunar við háskólann um síðustu aldamót. Fjarnám hefur gert miklum fjölda fólks kleift að stunda háskólanám, sem hefði að öðrum kosti horfið frá frekari námi að framhaldskólagöngu lokinni. Aðgengi að fjarnámi sem raunhæfum möguleika hefur þannig mikið að segja ekki aðeins fyrir einstaklinginn sem slíkan heldur einnig þann mannauð sem þjóðin hefur á að skipa. Með fjórðu iðnbyltinguna handan hornsins má jafnframt heita ljóst að menntun er að umhverfast í ævilangt ferli með stafræna miðlun í lykilhlutverki. Framtíðin býr því enn sem áður á Bifröst.

Nemendur
Háskólinn á Bifröst er fjórði fjölmennasti háskóli landsins með um 1100 nemendur alls í þremur deildum eða félagsvísindadeild, lagadeild og viðskiptadeild. Einnig er háskólagátt fyrir undirbúning fyrir háskólanám, bæði á íslensku og ensku ásamt öflugri endurmenntunardeild. Þá hefur rannsóknarstarfi háskólans farið stöðugt fram samfara fjölgun akademískra starfsmanna með doktormenntun við háskólann. Nemendafélag háskólans er jafnframt öflugt og dvelur nokkur fjöldi alþjóðlegra skiptinema jafnan á gömlu heimavistinni.

Námsframboð
Námsframboð við Háskólinn á Bifröst nýtur talsverðrar sérstöðu. Nemendur í grunnnámi í viðskiptafræði geta sem dæmi valið um sjö mismunandi áherslur, sem spanna allt frá sjálfbærnistjórnun að viðskiptagreind og fjármálastjórnun, svo að dæmi séu nefnd. Á meistarastigi býðst svo nám í markaðsfræðum annars vegar og forystu og stjórnun hins vegar með áherslu á annað hvort mannauðsstjórnun eða verkefnastjórnun. Eitt af aðalsmerkjum félagsvísindadeildar er meistaranám í menningarstjórnun ásamt grunnnámi í skapandi greinum. Þá hefur nýrri meistaranámslínu í áfallastjórnun verið hrint af stað við deildina í samstarfi við viðbragðsaðila og sveitarfélögin í landinu.
Háskólinn á Bifröst er jafnframt eini háskóli landsins sem býður grunnnám í miðlun og almannatengslum ásamt sígildu grunnnámi í HHS, heimspeki, hagfræði og stjórnmálafræði. Þá hefur viðskiptalögfræði, sem er nú í boði bæði á grunnnáms- og meistarastigi, eingöngu verið kennd við lagadeild Háskólans á Bifröst allt frá stofnun deildarinnar árið 2001.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd