Háskólinn í Reykjavík

2022

Hlutverk Háskólans í Reykjavík (HR) er að skapa og miðla þekkingu og starf hans miðar að því að bæta lífsgæði einstaklinga og efla samkeppnishæfni samfélagsins með sjálfbærni, ábyrgð og virðingu að leiðarljósi. HR veitir nemendum sínum fjölbreytta þekkingu og færni fyrir atvinnulíf framtíðarinnar. Boðið er upp á metnaðarfullt grunnnám og framhaldsnám í sjö deildum. Undir tæknisviði eru tölvunarfræðideild, verkfræðideild og iðn- og tæknifræðideild. Undir samfélagssviði eru sálfræðideild, viðskiptadeild, íþróttafræðideild og lagadeild. Nútímalegar kennsluaðferðir, verkefnamiðað nám, sterk tengsl við atvinnulífið og þátttaka í rannsóknum er meðal þess sem einkennir nám í HR. Lögð er áhersla á góða aðstöðu og persónulega þjónustu fyrir nemendur.

Nemendur
Haustið 2020 hófu um 1700 nýnemar nám við Háskólann í Reykjavík, í grunnnámi, meistaranámi og doktorsnámi, 20% fleiri en haustið 2019, og hafa nýnemar aldrei verið fleiri. Alls stunda um 3700 nemendur nám við háskólann. Árið 2020 voru 894 nemendur útskrifaðir frá HR með háskólagráðu.

Staða Háskólans í Reykjavík og árangur
Á lista Times Higher Education yfir bestu háskóla í heimi var Háskólinn í Reykjavík árið 2020 efstur íslenskra háskóla í 300.-350. sæti. Þá var hann talinn 59. besti háskóli í heimi yngri en 50 ára og 18. besti háskóli í heimi með undir 5000 nemendum. Þá var hann, ásamt fleiri háskólum, í fyrsta sæti háskóla í heiminum þegar horft er til fjölda tilvitnana í vísindagreinar eftir starfsmenn, annað árið í röð.
Við HR er lögð áhersla á alþjóðlega viðurkenndar rannsóknir sem efla orðstír skólans á alþjóðavettvangi, næra kennslu við háskólann og veita nýrri þekkingu inn í íslenskt atvinnulíf og samfélag. HR hefur mótað sér skýra og framsækna rannsóknastefnu og markviss skref hafa verið stigin til að efla rannsóknir á öllum fræðasviðum skólans. Rannsóknarvirkni háskólans hefur aukist jafnt og þétt síðustu ár og fjöldi birtinga á ritrýndum vettvangi að sama skapi. Á helstu fræðasviðum skólans er HR nú fremstur meðal jafningja hér á landi þegar litið er til árangurs í rannsóknum.
HR tekur virkan þátt í mótun og uppbyggingu atvinnulífs og samfélags og leggur áherslu á að mæta þörf fyrir sérfræðiþekkingu með menntun, rannsóknum, nýsköpun, þróun og þátttöku í samfélagsumræðu. HR starfar með fjölda lítilla og meðalstórra fyrirtækja og stofnana á Íslandi og erlendis og nemendum háskólans gefst kostur á að vinna að fjölbreyttum verkefnum í samstarfi við atvinnulífið og fara í starfsnám til fyrirtækja og stofnana.
Meðal nánustu samstarfsfyrirtækja HR á árinu 2020 má nefna: Arion banki, CCP, Deloitte, Icelandair, Isavia, Íslandsbanki, Landsnet, Landsvirkjun, Marel, Nox Medical, Pure North, Síminn og Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS).

COVID-19
HR þurfti eins og aðrir háskólar um allan heim að laga starfsemi sína að heimsfaraldri COVID-19 árið 2020. Þegar fyrstu samkomutakmarkanir voru settar á var nánast öll kennsla háskólans flutt á netið og lyftu starfsmenn háskólans grettistaki til að gera það mögulegt. Gera þurfti ýmiskonar breytingar á starfi háskólans vegna COVID, meðal annars á skipulagi kennslu, námsmati og aðgangi að byggingu HR og vel var fylgst með líðan nemenda og starfsmanna með reglulegum könnunum. Áhersla var lögð á að nýta það svigrúm sem til staðar var hverju sinni til að nemendur gætu komið í HR til að stunda sitt nám og sækja kennslu. Þó fór stærstur hluti kennslu ársins fram á netinu og starfsfólk vann að stærstum hluta heima mestan hluta ársins. Í samvinnu við stjórnvöld voru skipulögð sumarnámskeið fyrir háskólanema og almenning og sköpuð 150 ný sumarstörf fyrir nemendur, í tengslum við aðgerðir stjórnvalda vegna faraldursins.

Háskólagarðar
Árið 2020 var tekinn í notkun fyrsti áfangi Háskólagarða HR og fluttu fyrstu nemendurnir inn í september. Alls er gert er ráð fyrir byggingu 390 íbúða á svæðinu, fyrir nemendur að stærstum hluta, en einnig til leigu og tímabundinnar búsetu fyrir starfsfólk HR. Einnig fyrir erlent samstarfsfólk, starfsfólk fyrirtækja sem starfa innan HR og starfsfólk annarra þekkingarfyrirtækja sem tengjast háskólanum.

Sagan, stofnendur, eigendur og stjórnendur
Háskólinn í Reykjavík hefur verið starfræktur frá 4. september árið 1998 og var starfsemi hans byggð á Tölvuháskóla Verzlunarskóla Íslands (TVÍ) sem stofnaður var í janúar 1988. Þann 4. mars árið 2005 sameinuðust Tækniháskóli Íslands og Háskólinn í Reykjavík undir nafni Háskólans í Reykjavík. Tækniskóli Íslands var stofnaður árið 1964 en var færður á háskólastig árið 2002 og tók þá upp nafnið Tækniháskóli Íslands. Háskólinn í Reykjavík er einkahlutafélag og eru hluthafar og eignarhluti þeirra eftirfarandi: Menntasjóður Viðskiptaráðs Íslands 64%, Samtök iðnaðarins 24% og Samtök atvinnulífsins 12%. Eigendur hafa ekki fjárhagslegan ávinning af rekstri HR og ekki er heimilt að greiða arð til hluthafa.

Stjórn
Stjórn Háskólans í Reykjavík er skipuð fimm aðalmönnum og einum til vara, kjörnum á aðalfundi. Stjórnin sinnir almennum stjórnarstörfum eins og á við um stjórnir fyrirtækja og ber ábyrgð á stefnumótun, stjórnskipulagi, fjármálum, þar með ákvörðun skólagjalda, og almennum rekstri. Rektor Háskólans í Reykjavík er ráðinn af stjórn HR. Í stjórn Háskólans í Reykjavík sitja: Formaður: Hjörleifur Pálsson, viðskiptafræðingur og ráðgjafi, Ásta Sigríður Fjeldsted, framkvæmdastjóri Krónunnar, Frosti Ólafsson, ráðgjafi, Guðrún Hafsteinsdóttir, markaðsstjóri Kjöríss og Halldór Benjamín Þorbergsson, framkvæmdastjóri SA.

Háskólaráð
Háskólaráð er vettvangur umræðna um stefnumótun háskólans um nám, kennslu og rannsóknir, sem og um tengsl háskólans og atvinnulífsins. Í háskólaráði HR sitja 10 fulltrúar atvinnulífs, háskólasamfélagsins og stjórnsýslu.
Í Háskólaráði Háskólans í Reykjavík sitja:
Hjörleifur Pálsson, formaður háskólaráðs
Árni Sigurjónsson, formaður Samtaka iðnaðarins og yfirlögfræðingur Marel
Ari Fenger, formaður Viðskiptaráðs og forstjóri 1912
Arndís Kristjánsdóttir, lögfræðingur, fulltrúi mennta- og menningarmálaráðuneytisins
Brynja Baldursdóttir, framkvæmdastjóri Creditinfo
Eyjólfur Árni Rafnsson, formaður Samtaka atvinnulífsins og fyrrverandi forstjóri Mannvits
Hjálmar Gíslason, stofnandi og framkvæmdastjóri GRID
Katrín Olga Jóhannesdóttir, fyrrverandi formaður Viðskiptaráðs
Margrét Ormslev Ásgeirsdóttir, Brunnur Ventures
Stefanía Guðrún Halldórsdóttir, Eyrir Invest

Rektor Háskólans í Reykjavík kemur fram fyrir hönd háskólans, ber ábyrgð á daglegum rekstri hans og starfseminni gagnvart stjórn HR. Hann ber jafnframt ábyrgð á gæðum starfseminnar og framkvæmd innri úttekta. Rektor skipar sviðsforseta og deildarforseta í samráði við stjórn og að loknu mati hæfisnefndar. Ari Kristinn Jónsson hefur gengt stöðu rektors frá árinu 2010.

Framkvæmdaráð
Í framkvæmdaráði sitja rektor, sem veitir því forstöðu, sviðsforsetar, deildarforsetar, framkvæmdastjórar, formenn rannsóknaráðs og námsráðs og þeir aðilar sem skulu eiga sæti þar að mati rektors. Framkvæmdaráð samþykkir reglur og stefnur HR og hefur til umræðu rekstraráætlun, niðurstöður úttekta og ársreikning. Í framkvæmdaráði sátu árið 2020:
Ari Kristinn Jónsson, rektor
Ragnhildur Helgadóttir, sviðsforseti samfélagssviðs
Gísli Hjálmtýsson, sviðsforseti tæknisviðs
Ingunn Svala Leifsdóttir, framkvæmdastjóri rekstrar
Ester Gústavsdóttir, mannauðsstjóri
Hafrún Kristjánsdóttir, deildarforseti íþróttafræðideildar
Luca Aceto, deildarforseti tölvunarfræðideildar
Hera Grímsdóttir, deildarforseti iðn- og tæknifræðideildar
Bryndís Björk Ásgeirsóttir deildarforseti sálfræðideildar
Eiríkur E. Þorláksson, deildarforseti lagadeildar
Sveinn Viðar Guðmundsson, deildarforseti viðskiptadeildar
Ágúst Valfells, deildarforseti verkfræðideildar
Bjarni Már Magnússon, formaður rannsóknaráðs
Ingunn Gunnarsdóttir, formaður námsráðs
Formaður Stúdentafélags Háskólans í Reykjavík situr einnig fundi framkvæmdaráðs.

Framtíðarsýn
HR hefur mótað skýra stefnu til næstu ára undir heitinu 2020+. Stefnan byggir á traustum grunni sem lagður hefur verið undanfarin ár og mótast af skýrum markmiðum um gæði kennslu, áhrifamikum rannsóknum, samstarfi við atvinnulífið, HR sem góðan vinnustað og ábyrgð í fjármálum. Þegar horft er til þekkingar, þá er markmið stefnu HR 2020+ að HR sé miðstöð nýsköpunar og rannsókna og brú á milli yfirstandandi tæknibyltingar og íslensks samfélags. Er varðar framþróun náms eru lykilþættir stefnunnar aukin áhersla á stafrænt, verkefnamiðað og alþjóðlegt nám. Með fjölbreyttu námsúrvali, sveigjanlegra námi, fjölgun styttri námsbrauta og opnari námsbrautum mun HR veita menntun til tækifæra á öllum æviskeiðum.

Samfélagsleg ábyrgð
Kjarnastarfsemi háskólans er kennsla og rannsóknir í sterkum tengslum við atvinnulíf og samfélag, þar sem áhersla er lögð á þverfagleika, alþjóðleg viðmið, nýsköpun og faglega þjónustu. Starfsemin mótast af persónulegum tengslum og virðingu fyrir samfélagi og umhverfi. Við menntun framtíðarleiðtoga samfélagsins er lögð áhersla á samfélagslega ábyrgð, jafnrétti, gott siðferði, nýsköpun og þróun sem miðar að aukinni sjálfbærni samfélagsins.
Háskólinn leggur sitt af mörkum og leitast við að sýna gott fordæmi í starfsemi sinni, meðal annars í umhverfismálum, loftslagsmálum og jafnréttismálum og hefur gripið til markvissra aðgerða í þessum málaflokkum.
Markmið PRME um menntun ábyrgra framtíðarleiðtoga hafa verið innleidd þvert á deildir háskólans. PRME (e. Principles for Responsible Management Education) var stofnað árið 2007 á leiðtogafundi Sameinuðu þjóðanna í Genf sem vettvangur til að auka skilning og hæfni nemenda til að takast á við áskoranir í atvinnulífinu sem framtíðarleiðtogar og stjórnendur. Um það bil 650 háskólar frá 85 löndum vinna að markmiðum PRME, sem er hluti af Global Compact áætlun Sameinuðu þjóðanna.
HR starfar eftir metnaðarfullri jafnréttisáætlun. Helstu efnisatriði hennar snúa að launum og kjörum, ráðningum, framgangi, samræmingu fjölskyldu- og atvinnulífs og skilgreiningum og reglum vegna kynbundins ofbeldis og kynferðislegrar áreitni.
HR hvetur konur til náms í tæknigreinum og liður í því er verkefnið Stelpur og tækni, þar sem stelpum úr 9. bekkjum grunnskóla er boðið í háskólann og tæknifyrirtæki. Markmiðið er að vekja áhuga þeirra á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.
HR hefur skrifað undir yfirlýsingu um loftslagsmál. Samkvæmt henni ætlar HR að draga úr losun gróðurhúsalofttegunda og lágmarka neikvæð umhverfisáhrif með markvissum aðgerðum.

Aðsetur, mannauður og starfsmannafjöldi
Háskólinn í Reykjavík er til húsa í Nauthólsvík, við Menntaveg 1, 102 Reykjavík. Árangur Háskólans í Reykjavík byggir fyrst og fremst á framúrskarandi starfsfólki sem endurspeglar fjölbreytt viðhorf og fagmennsku. Lögð er áhersla á að skapa starfsumhverfi þar sem samskipti og vinnubrögð einkennast af virðingu, heilindum, sanngirni og jafnrétti. Við Háskólann í Reykjavík starfa um 270 fastráðnir starfsmenn. Meðalaldur starfsfólks í HR er 46,8 ár og flestir, eða 35%, eru á aldursbilinu 40-49 ára. 40% starfsfólks HR með doktorsgráðu, 35% með meistaragráðu, 3% með kandídatsgráðu, 14% með grunngráðu og 8% með aðra menntun. Háskólinn í Reykjavík hlaut jafnlaunavottun fyrstur íslenskra háskóla á vormánuðum 2019. Jafnlaunavottunin er staðfesting á því að unnið sé markvisst gegn kynbundnum launamun innan háskólans, að ákvarðanir í launamálum feli ekki í sér kynbundna mismunun og að jafnlaunakerfi háskólans standist kröfur jafnlaunastaðals. Háskólinn hlaut einnig árið 2020 gullmerki jafnlaunaúttektar PwC sem greinir hvort fyrirtæki greiði starfsmönnum, óháð kyni, sömu laun fyrir sambærileg störf.

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd