Héðinn hf.

2022

Héðinn í hundrað ár
Héðinn er tækni- og stálsmíðafyrirtæki sem var stofnað árið 1922. Helstu viðskiptavinir eru íslensk og alþjóðleg sjávarútvegsfélög, fyrirtæki á sviði stóriðju, orkuframleiðslu og önnur starfsemi sem krefst smíði og viðhalds flókins vélbúnaðar.
Á hinum ýmsu tímabilum í sögu Héðins hefur fyrirtækið framleitt margs konar tól og tæki til nota fyrir atvinnulífið og heimili landsmanna. Segja má að öll þjóðin hafi haft not af Héðins-framleiðslu til sjávar og sveita.
Meðal þess sem fyrirtækið hefur framleitt eru: olíukynditæki fyrir verksmiðjur og íbúðarhús, húsgögn, þvottavélar, tannhjóla- og miðflóttaaflsdælur, lofthitarar, heyblásarar, veiðafæri og áhöld fyrir togara, hraðabreytar, loftræstibúnaður, löndunarkranar, snigildrif, vökvaknúin línuspil, vinnuhurðir, stálgrindahús, lyftur, stigar, vélar og vélarhlutar – og heilar verksmiðjur.

Samfelld saga með Rolls Royce
Héðinn er eitt stærsta fyrirtæki landsinsí málmiðnaði og véltækni hefur starfað með mörgum af fremstu fyrirækjum heimsins á starfssviði sínu. Fyrirtækið býr yfir fyrsta flokks aðstöðu, fullkomnum vélbûnaði og nýtur öflugra starfskrafta til að takast á við verkefni jafnvel fjarri heimaslóð. Héðinn var um árabil umboðsaðili Rolls Royce skipavéla og starfrækti eina viðurkennda verkstæðið sem RR rak ekki sjálft. Héðinn annaðist alla þjónustu á Íslandi fyrir Rolls-Royce Marine, þar á meðal er sala búnaðar og lausna frá Rolls-Royce Marine, uppsetning, endurnýjun, viðhald og viðgerðir. Nýlega rann RR inn í skipadeild Kongsberg sem Héðinn er umboðsaðili fyrir.

HPP próteinverksmiðjan
Frá upphafi hafa tengsl Héðins og sjávarútvegs verið sterk. Héðinn annaðist viðgerðir á togurum og fiskiskipum í flota Íslands. Segja má að í heila öld hafi verið stöðug víxlverkun innan sjávarútvegins milli Héðins og útgerðar og fiskvinnslu og Héðinn verið brautryðjandi í margs konar tæknibyltingum og framförum í atvinnugreininni.
Meðal annars hefur Héðinn haft hönd í bagga við nútímavæðingu allra hefðbundinna fiskmjölsverksmiðja á Íslandi, sér í lagi við rafvæðingu þurrkunar.
Nýjasta framlag Héðins er HPP próteinverksmiðjunni þar sem kemur saman íslenskt verkvit og hugvit í hátæknigeira. Verksmiðjan er afrakstur um það bil tíu ára nýsköpunar- og þróunarvinnu hjá Héðni.
Lagt var upp með mikilvægi þess að gera verðmæti úr fisktegundum og þeim hluta fisksins sem ekki þykir boðlegur til manneldis, en fram að HPP- lausninni hafði tilfinnanlega vantað litlar verksmiðjur á markaðinn. Lagt var upp með að hanna verksmiðju sem stæðist allar kröfur um umhverfismál, væri ekki mannfrek og gæti búið til mjöl og olíu úr hráefni sem hægt væri að nota ekki aðeins til fóðurframleiðslu, heldur til manneldis ef nokkur kostur var á.
Prótótýpan af HPP verksmiðjunni var sett í gang 2017 í Sólberg ÓF-1 frá Ramma hf. En þegar þetta er skrifað, í mars 2022 hafa HPP verksmiðjur verið seldar til útgerða og landvinnsla í Bandaríkjunum, Þýskalandi, Færeyjum, Englandi, Finnlandi, Frakklandi og Noregi.
Hér á landi hafa verið seldar fjórar HPP verksmiðjur. Þar á meðal er ein um borð í fullkomnasta fiskiskipi Norðurslóða, Ilivileq í eigu Brims sem einnig er Kongsberg skip, og á Neskaupsstað er að rísa 380 tonna HPP verksmiðja sem er smíðuð fyrir Síldarvinnsluna, en vinnslugeta verksmiðjanna er frá 10 til 400 tonnum á dag, eftir stærð.
Styrkleikar HPP próteinverksmiðjunnar liggja í því að hún tekur að minnsta kosti 30% minna pláss, er með 30% færri íhlutum og eyðir 30% minni orku en hefðbundnar fiskimjölsverksmiðjur. HPP verksmiðjan er sem sagt mun nettari hönnun en helstu keppinautarnir. Í hefðbundinni fiskimjölsverksmiðju eru 21 aðalhlutar og orka er sett inn á átta stöðum. Í HPP verksmiðjunni eru aftur á móti sjö aðalhlutar og orka er sett inn á tveimur stöðum.
Þar sem HPP verksmiðja er um borð í skipum fer ekki einn uggi af afla í sjóinn. Fiskurinn er nýttur 100%. Því sem áður var hent verður að miklum verðmætum. Þannig er hægt að auka próteinframleiðslu án meiri veiða. Eitt stærsta umhverfismál núlifandi kynslóða er að breyta aðferðum við próteinframleiðslu á þá leið að hún verði sjálfbær. Með því að fullnýta aflann er sýnd virðingu fyrir náttúruauðlindinni og umhverfinu.
Reikna má með að afurðir HPP verksmiðja séu 7-10% af því aflaverðmæti sem kemur í land eftir því hvort verksmiðjan sé manneldisvottuð eða ekki. Afurðirnar eru ýmist unnar áfram sem hágæða próteinmjöl í fóður eða manneldislýsi.
Um áramótin 2022 varð til fyrirtækið HPP Solutions, sem er sjálfstætt dótturfélag í 100% eigu Héðins.

Þátttaka í fjölbreyttum nýsköpunarverkefnum
Héðinn hefur frá stofnunum haft frumkvæði að eigin fjölbreyttum nýsköpunarverkum en líka komið að verkefnum annarra með sérþekkingu og reynslu. Eitt af þeim er lofthreinsistöðin við Hellisheiðarvirkjun sem hefur vakið heimsathygli. Þar eru gróðurhúsalofttegundir fangaðar úr útblæstri virkjunarinnar, áður en þær berast út í andrúmsloftið og valda skaða, og þeim dælt í setlög neðanjarðar þar sem þær verða að bergi.
Eigandi virkjunarinnar er Orka náttúrunnar (ON) en förgun loftttegundanna með niðurdælingu er á vegum Carbfix sem hefur þróað þessa tækni.
Hreinsistöðin var opnuð 2014. Héðinn var aðalverktaki við byggingu hennar og hefur unnið síðan við þetta verkefni sem miklar vonir eru bundnar við enda glíman við minnkun útblásturs gróðurhúsalofttegunda meðal allra stærstu verkefna mannkyns.
Annað nýsköpunarverkefni sem Héðinn hefur tekið þátt í með ýmsum hætti er líka staðsett í Jarðhitagarði ON við Hellisheiðarvirkjun. Þetta er verksmiðja fyrirtækisins Vaxa Technologies en hún framleiðir smáþörunga úr náttúrulegum afurðum frá virkjuninni, sem er staðsett er örstutt frá verksmiðjunni. Allt sem þarf til fyrir framleiðsluferlið er á svæðinu: endurnýjanleg raforka, kalt og heitt vatn og koltvísýringur. Verksmiðjan skilar svo frá sér lífmassa í formi smáþörunga. Þörungarnir eru meðal annars nýttir sem fóður í klakstöðvum fiskeldis en Vaxa stefnir jafnfram á ræktun þörunga til manneldis. Með framleiðslunni er hreinni orku breytt í próteinríka Omega-3 vöru sem inniheldur engin aukaefni.
Héðinn hefur tekið þátt í hönnun, smíði og uppsetningu vélbúnaðar verksmiðju Vaxa og er í lykilhlutverki við stækkun framleiðslulínu verksmiðjunnar árið 2022 og nýja 15.000 fermetra verksmiðju sem verður líka staðsett í Jarðhitagarði Orku náttúrunnar á Hellisheiði.

Húsnæði og mannahald
Húsnæði Héðins hefur tekið miklum breytingum í áranna rás. Vélsmiðjan hafði í upphafi um 60 fermetra gólfflöt við Aðalstræti 6b ári 1922, en 20 árum síðar, 1942, var smiðjan komin á 489 fermetra við Seljaveg 2. Og þeir urðu ennþá fleiri þegar hið síðar sögufræga Héðinshús reis á lóðinni.
Héðinshúsinu var skipt i deildir eftir verkefnum:
Rennismiðju, koparsmiðju, rafsuðu, vélvirkjun, kælilagnir og fleiru.
Nyrsti hluti byggingarinnar (turnbyggingin) var hinsvegar hugsaður fyrir skrifstofur, teiknistofur og vélaafgreiðslu.
Á því ári sem Héðinn varð þrítugur, 1952 hafði verksmiðjan til umráða 6.580 fermetra gólfflöt.
Þegar fram liðu stundir hentaði húsnæðið við Seljaveg ekki lengur starfseminni og hún var flutt árið 1989 í nýtt húsnæði að Stórási 6 í Garðabæ.
Með áherslubreytingum á 21. öld jókst þörf Héðins aftur fyrir nýtt athafnasvæði. Var þá ákveðið að flytja höfuðstöðvar fyrirtækisins úr Garðabæ í Hafnarfjörð, en einnig rekur Héðinn þjónustuverkstæði á Grundartanga í Hvalfjarðarsveit. Í febrúar árið 2009 var haldin vígsluhátíð í nýjum húsakynnum að Gjáhellu 4, Hafnarfirði, sem nú telur sjö þúsund fermetra á þrjátíu þúsund fermetra lóð.
Flest varð starfsfólk Héðins 474 talsins árið 1948. Starfsmannafjöldinn hefur verið rokkandi eftir verkefnum en er nú í kringum hundraðið. Sá fjöldi segir reyndar einungis takmarkaða sögu, því Héðinn hefur samninga við margs konar undirverktaka og breyttar tækniforsendur og viðskipaumhverfi leiðir til allt annars konar mannahalds en áður.

2012

Níutíu ára saga Héðins er samofin nútímavæðingu atvinnulífsins. Þjónusta við útgerð og fiskvinnslu hefur ávallt verið þungamiðjan í starfsemi fyrirtækisins en jafnframt sinnir Héðinn fjölbreyttum öðrum verkefnum í málmiðnaði og véltækni fyrir sveitarfélög, stóriðju, orkuframleiðendur svo og önnur málmiðnaðarfyrirtæki.
Stofnun Héðins stendur á gömlum merg í fyrsta iðnaðarhverfi Reykjavíkur þar sem Skúli Magnússon landfógeti staðsetti Innréttingarnar. Bjarni Þorsteinsson vélfræðingur og Markús Ívarsson vélstjóri stofnuðu Héðin árið 1922. Starfsmenn voru fjórir við stofnun og húsnæði smiðjunnar 60 fermetrar. Helstu verkefni voru smíði og viðhald véla og áhalda.
Starfsemi Héðins jókst jafnt og þétt með tilkomu stálskipa og innleiðingu vélbúnaðar í fiskiskipum. Árið 1942 flutti fyrirtækið í Héðinshúsið við Seljaveg. Þar var starfsemin til 1989 en þá var flutt að Stórási 6 í Garðabæ. Árið 2008 flutti Héðinn í núverandi húsakynni að Gjáhellu 4 í Hafnarfirði.
Fram að inngöngu í EFTA árið 1970 voru Íslendingar sjálfum sér nógir um flestalla iðnframleiðslu. Héðinn gerðist umsvifamikill framleiðandi ýmiss konar véla og tækja í kringum miðja öldina. Árið 1948 voru flestir starfsmenn hjá Héðni, eða 474 talsins.

Stór hluti af starfsemi Héðins felst í viðhaldi og viðgerðum á vélbúnaði frá Rolls-Royce í íslenskum jafnt sem erlendum skipum.

Starfsemi Héðins
Héðinn hf. er eitt stærsta fyrirtæki landsins í málmiðnaði og véltækni. Starfsmenn eru 120 talsins og nam velta fyrirtækisins þremur milljörðum króna árið 2010. Höfuðstöðvar Héðins eru í 6 þúsund fermetra húsnæði að Gjáhellu 4 í Hafnarfirði en að auki rekur Héðinn þjónustuverkstæði á Grundartanga. Jafnframt annast Héðinn verkefni fyrir fiskvinnslufyrirtæki og útgerðir í Noregi, Færeyjum og Skotlandi.
Starfsemin skiptist í Tæknideild, Véladeild, Plötuverkstæði, Renniverkstæði, skipaþjónustu og sölu tækja og búnaðar frá Rolls-Royce Marine. Ennfremur annast Héðinn sölu og uppsetningu bílskúrs- og iðnaðarhurða.

Eigendur og stjórnendur
Héðinn hf. er í eigu nokkurra stjórnenda fyrirtækisins. Í hópi eigenda eru afkomendur Markúsar Ívarssonar, annars stofnanda Héðins.
Sveinn Guðmundsson rennismiður og vélfræðingur tók við framkvæmdastjórn Héðins árið 1941 og stýrði fyrirtækinu farsællega í rúm 40 ár. Sverrir Sveinsson tók þá við forstjórastöðunni og síðar formennsku í stjórn þegar Guðmundur S. Sveinsson tók við framkvæmdastjórn. Aðrir stjórnendur eru Guðrún Jónsdóttir fjármálastjóri, Ingimar Bjarnason rekstrarstjóri smiðja, Rögnvaldur Einarsson yfirmaður Tæknideildar og Gunnar Pálsson yfirmaður þróunarmála.

Guðmundur S. Sveinsson framkvæmdastjóri og Sverrir Sveinsson stjórnarformaður fyrir framan þjónustuverkstæði Héðins hf. á Grundartanga.

Viðfangsefni
Héðinn býður viðskiptavinum sínum heildarlausnir á sviði málmiðnaðar og véltækni. Oftar en ekki hafa verkefni viðkomu í öllum deildum fyrirtækisins, þar sem mismunandi þáttum þeirra er sinnt. Getan til að bjóða heildarlausnir í stórum sem smáum málmtækniverkefnum skapar Héðni sérstöðu á sínu sviði hér á landi.
Nokkur dæmi um viðfangsefni:

  • Útgerðir – viðgerðir á vélbúnaði, spilbúnaði, öxlum og tromlum; viðhald og nýsmíði.
  • Fiskimjölsverksmiðjur – nýsmíði, viðhald, endurbætur og þróunarstarf.
  • Fiskvinnslufyrirtæki – sniglar, tankar og lagnakerfi.
  • Álver og gufuaflsvirkjanir – verkumsjón, nýsmíði og viðhald.
  • Skipaþjónusta: Öll viðhalds- og viðgerðaþjónusta fyrir Rolls-Royce skip og búnað, sem Héðinn hefur umboð fyrir.

Starfsfólkið
Hjá Héðni starfa rennismiðir, plötusmiðir, tæknifræðingar, vélvirkjar, vélstjórar, verkfræðingar, vélfræðingar, skrifstofufólk og tæknimenn. Það hefur verið gæfa Héðins að haldast ávallt vel á starfsfólki sem hefur skilað sér í mikilli þekkingu á högum viðskiptavina og getu til að tryggja þeim ávallt bestu þjónustu. Mörg dæmi eru um starfsmenn sem hafa starfað hjá Héðni í hálfa öld eða lengur.
Héðinn leggur mikið upp úr góðu starfsumhverfi og að öryggi starfsmanna sé ávallt í fyrirrúmi. Í Gjáhellu 4 er gott mötuneyti, líkamsrækt og aðstaða fyrir starfsmenn til að hvíla sig í dagsins önn og dreifa huganum.
Í gegnum tíðina hefur Héðinn tekið þúsundir nema í rennismíði, vélvirkjun, málmsuðu og plötusmíði.

Véladeild Héðins sá um endurnýjun á öðrum rafal Steingrímsstöðvar í Soginu. Verkefnið tók sex mánuði og var um mikla nákvæmnisvinnu að ræða.

Stjórn

Stjórnendur

Ísland, atvinnuhættir og menning

© 2023 Sagaz ehf | Allur réttur áskilinn | Skilmálar & persónuvernd